Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Körfuknattleikshetjan Yao Ming á Ólympíuleikum ungmenna

11.08.2014

Alþjóðaólympíunefndin (IOC) tilkynnti fyrir stuttu að Yao Ming sé sendiherra leikanna á Ólympíuleikum ungmenna (YOG) sem haldnir eru í Nanjing í Kína 16. – 28. ágúst. Yao Ming er vinsæll íþróttamaður í Kína og er einnig heimsfrægur körfuknattleiksmaður sem margir þekkja úr NBA. Hann spilaði eftirminnilega á Ólympíuleikunum í Peking 2008 fyrir land sitt Kína, en hann skoraði fyrstu körfuna í körfuknattleikskeppninni á leikunum.

Verkefni kínversku körfuknattleikshetjunnar sem sendiherra er að mæta á íþróttaleikina, spjalla við íþróttafólk og deila reynslu sinni í keppni á alþjóðlegum vettvangi með ungu íþróttafólki. Markmiðið er að hvetja ungt fólk til þess að hreyfa sig og tileinka sér ólympísku gildin sem eru vinátta, virðing og að gera sitt besta. 

Alþjóðaólympíunefndin velur sendiherra fyrir hverja Ólympíuleika ungmenna. Sendiherrarnir koma fram í auglýsingaherferð leikanna, en aðalmarkmið Alþjóðaólympíunefndarinnar með sendiherrunum er að hvetja ungt fólk til að hreyfa sig og njóta íþrótta. Íþróttastjörnurnar Chad le Clos, sundmaður, og Michelle Wie, kylfingur, hafa einnig verið valin sem sendiherrar fyrir Nanjing 2014. Fyrrum sendiherrar eru Usain Bolt, spretthlaupari, Michael Phelps, sundmaður og Yelena Isinbaeva, stangastökkvari. Hægt er að sjá herferðina hér 

Ísland sendir knattspyrnulið drengja og tvo sundmenn á leikana. Hægt er að fylgjast með íslenska íþróttafólkinu hér

Einnig er hægt að horfa á Ólympíuleika ungmenna í beinni útsendingu í gegnum síðurnar www.Olympic.org og www.Olympic.tv.