Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Íþróttir án mismununar

30.06.2014

Sjötta IWG Heimsráðstefnan um konur og íþróttir (6th IWG World Conference on Women and Sport) var haldin í Helsinki í Finnlandi 12. – 15. júní. Yfir átta hundruð konur sóttu ráðstefnuna frá tæplega 100 löndum. Ráðstefnan er m.a. haldin með stuðningi frá Alþjóðaólympíuhreyfingunni, IOC, WHO og UNESCO. Fyrsta ráðstefnan var haldin árið 1994 í Brighton í Englandi og hefur ráðstefnan verið haldin á fjögurra ára fresti síðan. Markmið ráðstefnunnar hefur verið að fjölga konum í íþróttum og auka þátttöku þeirra í þjálfun og stjórnun innan hreyfingarinnar. 

Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, hélt ræðu á setningarhátíð ráðstefnunnar og talaði þar meðal annars um það mikilvæga hlutverk sem íþróttir geta spilað í því að efla jafnrétti kynjanna. Einkunnarorð ráðstefnunnar voru “Lead the Change, Be the Change”. Forsetinn talaði um hversu miklar framfarir hafa orðið hvað varðar þátttöku kvenna í íþróttum og að þar eigi Alþjóðaólympíunefndin hlut að máli. „Konur hafa tekið þátt í Ólympíuleikunum síðan árið 1900, en í London 2012 voru konur nærrum því 45% þátttakenda. Í sumum af stærri liðunum, eins og liði Finnlands, voru konur meirihlutinn af þátttakendunum. Annað merkilegt átti sér stað á leikunum í London; konur kepptu í hverri einustu íþrótt. Íþróttir hafa verið og halda áfram að vera nauðsynlegar til að sýna að heimur jafnréttis er mögulegur. Íþróttir eiga að vera í boði fyrir alla, óháð kyni, kynþætti, þjóðerni eða öðru“, sagði Bach forseti. 

Bach lofaði árangurinn sem náðst hefur í gegnum árin hvað varðar aukna þátttöku stúlkna og kvenna í íþróttum, en hvatti á sama tíma til að finna leiðir til þess að koma fleiri konum í stjórnunarstöður. „Við verðum að gera meira til þess að fá fleiri íþróttakonur í leiðtogastöður. Við höfum séð hvað konur geta gert á íþróttavellinum. Við þurfum líka á greind þeirra, orku og sköpunargáfum að halda í stjórnun og framkvæmd á íþróttasviðinu“, sagði Bach. Hann talaði einnig um að þó að íþróttir geti hjálpað til við að þrýsta á og sýna fram á jafnrétti kynjanna, þá geti þær ekki komið breytingunni í átt að algjöru jafnrétti af stað án hjálpar. Baráttan gegn mismunun og ójafnrétti er alltaf hópvinna. „Íþróttir hafa sannað gildi sitt sem áhrifaríkt tól í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og eflingu kvenna og stúlkna. Svo að við getum náð sönnum framförum í leit okkar að jafnrétti kynjanna og óhindraðan aðgang að líkamlegri hreyfingu stúlkna og kvenna í heiminum þurfum við að vinna saman með ríkisstjórnum, menntastofnunum, einkageiranum og borgaralegu samfélagi á öllum stigum“

Fjórir þátttakendur fóru frá Íslandi, þær Jóna Hildur Bjarnadóttir og Ragnhildur Skúladóttir frá ÍSÍ, Svava Oddný Ásgeirsdóttir frá ÍBR og Jóna Pálsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Á ráðstefnunni kynnti ÍSÍ veggspjald með 25 ára sögu Kvennahlaupsins sem átti afmæli á meðan á ráðstefnunni stóð.

Næsta ráðstefna verður í Botswana árið 2018.