Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

58 ár frá fyrsta landsleik íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik

24.06.2014

Þann 15.júní árið 1956 fór fyrsta landslið Íslands í handknattleik kvenna, þrettán stúlkur, í keppnisferð til Noregs á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Fararstjórar voru Hannes Þ. Sigurðsson og Árni Árnason, þjálfari liðsins var Stefán Gunnarsson. 

Landsliðið spilaði fyrsta landsleik sinn við Norðmenn þann 19. júní á Bislettleikvanginum í Osló og það vildi svo skemmtilega til að það var á sjálfan kvenréttindadaginn. Árlega frá árinu 1966 hittist þess föngulegi hópur kvenna og heldur daginn hátíðlegan, þær borða saman og rifja upp skemmtilegar minningar. Fyrst hittust þær á fimm ára fresti, 1961 og 1966, en þeim fannst of langur tími líða á milli og ákváðu eftir það að hittast árlega. Þær hafa til dæmis farið til Osló saman og þegið heimboð á Bessastaði frá Vigdísi Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands. Að þessu sinni þáðu þær boð Líneyjar Rutar, framkvæmdastjóra ÍSÍ, og hittust á Café Easy í Laugardalnum. Umræður voru líflegar við borðið, það var greinilegt að þær nutu þess að hittast og spjalla saman. 

Liðið lék mjög vel í sínum fyrsta landsleik,en það nægði ekki til sigurs. Leikurinn endaði 10:7 fyrir Norðmönnum, sem spiluðu í takkaskóm og héldu því góðu jafnvægi í rigningunni á meðan íslensku stúlkurnar spiluðu í strigaskóm. Stúlkurnar dvöldu níu daga í Noregi og kepptu þar fjóra daga í röð, en héldu síðan áfram á Norðurlandameistaramótið í Finnlandi, sem þá var haldið í áttunda sinn. Íslenska kvennalandsliðið endaði í fjórða sæti á mótinu en unnu Finna 6:5. 

Þessi ferð markaði tímamót í sögu íslenskrar íþróttahreyfingar. Í nóvember sama ár voru konurnar í fyrsta kvennalandsliði Íslands í handknattleik heiðraðar með landsliðsmerki ÍSÍ. Það var síðan sumarið 1964 sem íslenska kvennalandsliðið varð Norðurlandameistari í handknattleik, en mótið var haldið á Laugardalsvellinum. 

Í liðinu voru alls þrettán stúlkur. Nýjasta myndin af liðinu er tekin þann 19. júní 2014 en á henni eru tíu mættar. Efri röð: Sigríður Lúthersdóttir, Elín Helgadóttir, Guðlaug Elísa Kristinsdóttir, Geirlaug Karlsdóttir, Gerða Jónsdóttir, Ingibjörg Hauksdóttir, Ragnhildur og Líney frá ÍSÍ, og Elín Guðmundsdóttir. Neðri röð: Svana Jörgensdóttir, Helga Emilsdóttir og Sigríður Kjartansdóttir. Á myndina vantar Maríu H. Guðmundsdóttur, Sóleyju Tómasdóttur og Rut Guðmundsdóttur, sem er látin. Hér má einnig sjá mynd af því þegar að Líney Rut, framkvæmdastjóri ÍSÍ, spjallaði við liðið.

Þriðja myndin var tekin árið 2008, en það er ein af síðustu myndunum sem tekin var af þeim öllum saman. Fjórða myndin er af liðinu árið 1956: Sú yngsta í liðinu var 14 ára og sú elsta var 30 ára.

Fleiri myndir má sjá á ljósmyndavef ÍSÍ.


 

Myndir með frétt