Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Skipulagt íþróttastarf hefur mikið forvarnargildi

13.05.2014Í dag kynnti Dr. Viðar Halldórsson íþróttafélagsfræðingur niðurstöður íþróttahluta framhaldsskólakönnunar R&g, en ÍSÍ fékk að setja inn í spurningalistann nokkrar spurningar sem lúta að ánægju unglinga með íþróttafélagið, þjálfarann, aðstöðuna og helstu áhersluatriði þjálfarans í starfinu. Einnig voru skoðuð tengsl íþróttaiðkunar við aðra þætti eins og vímuefnaneyslu, námsárangur, andlega og líkamlega heilsu og sjálfsmynd.

Í niðurstöðum kemur fram að um 85% unglinga eru sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu að þeim finnist gaman á æfingum, um 80% eru ánægðir með þjálfarann sinn og 78% eru ánægðir með íþróttafélagið sitt. Niðurstöður þessarrar könnunar eru sambærilegar við niðurstöður könnunar sem gerð var á nemendum í 8.-10. bekk í grunnskóla fyrir tveimur árum. Þessi mikla ánægja unglinga með störf íþróttafélaga er staðfesting á því góða starfi sem þar er unnið um allt land. Hlutverk þjálfara og ábyrgð hans í uppeldi iðkenda er ótvírætt og skiptir því sköpum hvaða áherslur hann leggur í starfi sínu á hluti eins og sigur í keppni, drengilega framkomu, heilbrigt líferni og notkun fæðurbótarefna. Niðurstöður þessarar könnunar sýna að 72% unglinga upplifa að þjálfarar leggi mikla eða mjög mikla áherslu á sigur í íþróttakeppni. Þá er mikil áhersla þjálfara á að íþróttakrakkar temji sér drengilega framkomu í leik og yfir 90% unglinga upplifa að þjálfarar þeirra leggi mikla eða mjög mikla áherslu á að þau stundi heilbrigt líferni. Einnig kemur fram að um 90% unglinga segja þjálfara sinn leggja frekar litla eða mjög litla áherslu á að þau noti fæðurbótaefni.

Unglingar sem stunda íþróttir með íþróttafélagi eru líklegri til að standa sig betur í íslensku og stærðfræði í skóla. Þá meta þau líkamlega og andlega heilsu sína betur eftir því sem þau æfa meira og telja sig í betri líkamlegri þjálfun en þau sem æfa lítið eða ekkert. Sjálfsmynd þeirra þegar kemur að ánægju með líkama sinn er betri hjá þeim sem æfa íþróttir en þeim sem gera það ekki og þau eru ánægðari með þær líkamlegu breytingar sem orðið hafa á þeim á undanförnum árum. Þeim finnst þau sterkari, hamingjusamari og eru ánægðir með líf sitt.

Þegar skoðuð eru tengsl íþróttaiðkunar og vímuefnaneyslu þá kemur fram að eftir því sem krakkar stunda íþróttir með íþróttafélagi oftar í viku því ólíklegri eru þau til að neyta vímuefna. Forvarnargildi íþrótta utan skipulegs íþróttastarfs er mun minna og virkar það t.d. öfugt þegar horft er til áfengisneyslu, sem þýðir að eftir því sem unglingurinn stundar íþróttir utan skipulegs íþróttastarfs oftar í viku því líklegri er hann til að hafa neytt áfengis á síðustu 30 dögum. Í máli Viðars kom fram að íþróttastarf væri misjafnt og forvarnargildi íþróttastarfs ólíkt þar sem forvarnargildi skipulags íþróttastarfs eins og þekkist á Íslandi væri mun meira en í íþróttastarfi utan íþróttafélaga og skiptir þá engu máli hvort talað er um reykingar, aðra tóbaksneyslu, neyslu áfengis eða maríjúana. Það sem helst skiptir máli í skipulögðu starfi er að það er reglumiðað, undir handleiðslu þjálfara, í umhverfi sem á sér sögu, hefðir og viðmið. og með mikilli aðkomu foreldra á meðan að óskipulagða starfið skortir oft allt þetta.

Þessar niðurstöður staðfesta að jákvæðar afleiðingar íþróttaiðkunar með íþróttafélagi halda áfram eftir að grunnskólanum lýkur og út framhaldsskólann. Það er einnig gleðilegt að þrátt fyrir aukningu á framboði á afþreyingu fyrir unglinga heldur íþróttaþátttaka unglinga áfram að aukast. Ágætar umræður sköpuðust á fundinum sem var ágætlega sóttur og nokkrir fylgdust með fyrirlestrinum á netinu.