Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Rafrænt kyndilhlaup Ólympíuleika ungmenna er farið af stað

07.05.2014

Ólympíuleikar ungmenna eru ætlaðir fyrir ungt afreksfólk í íþróttum á aldrinum 14 til 18 ára. Keppt er í mörgum greinum og skiptast leikarnir í sumarleika og vetrarleika eins og Ólympíuleikar fullorðinna. Næstu sumarleikar verða í Nanjing í Kína í ágúst 2014. Í tilefni af Ólympíuleikum ungmenna var ólympíueldurinn tendraður við hátíðlega athöfn þann 30. apríl í Aþenu í Grikklandi. Innblásturinn að athöfninni kom frá þeirri ólympísku hefð að nota geisla sólarinnar til að tendra eldinn í kyndlinum. Um leið og kyndillinn logaði hlupu fjórir íþróttamenn af stað, tveir kínverskir og tveir grískir, og hófu þar með kyndilhlaupið. Heiðursforseti Alþjóðaólympíunefnarinnar, Jacques Rogge, og forseti grísku Ólympíunefndarinnar, Spyros Caralos, sögðu nokkur orð og töluðu báðir um að heitasta óskin væri sú að leikarnir í Nanjing myndu sameina ungmenni um allan heim. Borgarstjóri Nanjing, Miao Ruilin, talaði um að leikarnir skapi nýjan vettvang fyrir ungt fólk til þess að breiða út boðskap ólympíuandans. 


Athöfnin markaði einnig upphaf nýrrar tegundar kyndilhlaups, en það er rafrænt og framkvæmt í gegnum smáforrit sem kallast Virtual Torch Relay. Hugmyndin er sú að veita ungmennum út um allan heim það tækifæri að vera kyndilberar, að þau hjálpist að við að fara með eldinn í kringum heiminn og aftur til Nanjing og breiði þannig út boðskap ólymíuandans. Í raun er verið að hvetja til þess að sem flestir taki þátt í kyndilhlaupinu á rafrænan hátt. Í forritinu geta kyndilberar farið um 204 lönd og svæði sem taka þátt í leikunum í ágúst. Rafræna kyndilhlaupið verður hér á Íslandi þann 17.maí frá klukkan fjögur seinnipartinn til miðnættis. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands mun taka þátt í rafræna kyndilhlaupinu og taka upp efni því tengdu sem mun mögulega birtast á heimasíðu leikanna síðar. Eftir 98 daga ferð verður kyndillinn síðan kominn á lokaáfangastað í Nanjing, en sú stund markar upphaf leikanna.

 

Hægt er að nálgast smáforritið á iTunes, Google Play og á heimasíðu leikanna www.nanjing2014.org. Upplýsingar eru einnig á fésbókarsíðu leikanna www.facebook.com/nanjing2014.

Myndir með frétt