Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Heimsókn til HSV

20.03.2014

Í upphafi viku fór Ragnhildur Skúladóttir sviðstjóri þróunar- og fræðslusviðs í heimsókn til HSV á Ísafirði og var tilgangurinn tvíþættur. Annars vegar til að kynna sér starfsemi Íþróttaskóla HSV og hins vegar til að fylgja fræðslu um kynferðislega áreitni eða ofbeldi úr hlaði, en Hafdís Hinriksdóttir sá um þá fræðslu.

Íþróttaskóli HSV hefur ákveðna sérstöðu en hann byggir á mjög nánu samstarfi Grunnskólans á Ísafirði, Ísafjarðabæjar, HSV og íþróttafélaganna. Íþróttaskólar hafa verið starfræktir víða en það sem er sérstaða þessa skóla er að á milli 11 og 12 á morgnana er gert frístundahlé í stundatöflu barnanna þar sem þau geta sinnt tónlistarnámi eða tekið þátt í íþróttskólanum. Að auki er boðið upp á íþróttagreinar eftir að skóla lýkur. Íþróttaskólinn er fyrir nemendur í 1.-4. bekk og er þetta þriðja starfsár skólans.

Í Íþróttaskóla HSV er lögð áhersla á grunnþjálfun ásamt því að börnin fá þjálfun í flestum þeim íþróttagreinum sem í boði eru á eldri stigum aðildarfélaga HSV. Í grunnþjálfun er farið í alla grunnþætti þjálfunar.  Áhersla er lögð á almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu.  Reynt er að notast við fjölbreytta þjálfun, unnið er með úthald, snerpu, stökk, hlaup, jafnvægi og liðleika svo eitthvað sé nefnt.  Einnig er grunnþjálfunarhluti íþróttaskólans notaður til að kynna fleiri greinar s.s. glímu, badminton, golf, fimleika og frjálsar íþróttir. Í boltaskólanum eru fjórar greinar í gangi yfir veturinn og er þeim dreift yfir árið í ákveðnum tímabilum. Boltagreinarnar sem um ræðir eru knattspyrna, körfuknattleikur, handknattleikur og blak. Sund er í boði allan veturinn þar sem fjölbreyttar æfingar eru settar upp fyrir alla hópa. Skíðaæfingar, bæði alpagreinar og skíðaganga, eru í boði á meðan skíðasvæðin eru opin yfir veturinn.

Þau börn sem eru skráð í skólann hafa aðgang að öllum æfingum sem í boði eru fyrir þeirra aldurshóp. Verðinu er stillt í hóf svo að allir hafi jöfn tækifæri til þátttöku, sum barnanna nýta sér allt sem er í boði á meðan að aðrir velja sér æfingar úr stundatöflunni sem henta þeirra áhugasviði.

Góður rómur var gerður að fyrirlestri Hafdísar Hinriksdóttur um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi í íþróttum. Til fundarins voru boðaðir fulltrúar íþróttafélaganna á svæðinu, þjálfarar og stjórnarfólk. Í undirbúningi eru heimsóknir á fleiri staði úti á landi og þá hafa íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu fengið hana til að halda fyrirlestur hjá sér um þetta mikilvæga málefni. Hægt er að hafa beint samband við Hafdísi með því að senda póst á hafdish@gmail.com.