Sochi 2014 – Ráðherra heimsækir Ólympíuþorpið
09.02.2014Mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, ásamt forseta Íslands og föruneyti hans hófu daginn í fjöllunum í dag. Hófst dagurinn á því að fylgjast með keppni í bruni karla og í framhaldinu var komið við í „fjallaþorpinu“ (Mountain Village) en þar búa keppendur í alpagreinum. Hópurinn hitti þar íslensku þátttakendurna og snæddi með þeim hádegisverð auk þess sem að þorpið var skoðað betur. Austurríkismenn höfðu unnið gull í bruni karla fyrr um morguninn og hitti mennta- og menningarmálaráðherra m.a. forsætisráðherra og íþróttamálaráðherra Austurríkis í Ólympíuþorpinu.
Ráðherra hafði orð á því hversu glæsilega keppendur Ísland ætti á leikunum, þau væru heilsteypt og flottar fyrirmyndir. Íþróttafólkinu og íslenska hópnum fannst líka ánægjulegt að fá heimsókn íslenskra ráðamanna til Ólympíuþorpsins, og sjá þannig stuðning þeirra í verki gagnvart íþróttum og þátttöku íslenskra íþróttamanna á Ólympíuleikum.
Á myndinni má sjá ráðherra ásamt Lárusi L. Blöndal, forseta ÍSÍ og keppendum Íslands í alpagreinum.