Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Glímufélagið Ármann Fyrirmyndarfélag ÍSÍ

16.12.2013

Glímufélagið Ármann hélt upp á 125 ára afmæli sitt sunnudaginn 15. desember síðastliðinn með mikilli afmælishátíð í Laugardalnum í Reykjavík.  Innan félagsins eru starfandi 10 deildir og er mikil gróska í starfseminni.  Allar deildir félagsins fengu viðurkenningu frá ÍSÍ sem Fyrirmyndardeildir og þar með er félagið í heild sinni orðið Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. 

Það er mikill áhugi fyrir þessari gæðavottun frá ÍSÍ þessa dagana og fjölmörg félög að sækja um viðurkenningu eða endurnýjun hennar eins og gera þarf á fjögurra ára fresti.  Gæðavottun ÍSÍ tekur til fjölmargra þátta í starfsemi íþróttafélaga s.s. fjárhagslegra þátta, félagslegra, skipulagslegra og þátta er lúta að íþróttaþjálfun og menntun þjálfara.  Einnig þurfa félög að hafa markað sér skýrar stefnur í hinum ýmsu málaflokkum eins og jafnréttismálum, umhverfismálum, forvarnarmálum og fræðslumálum.  Það var Sigríður Jónsdóttir ritari ÍSÍ og formaður Þróunar- og fræðslusviðs sem afhenti Snorra Þorvaldssyni formanni félagsins viðurkenninguna fyrir félagið í heild. Forystumenn allra deilda tóku svo við viðurkenningum fyrir sínar deildir.  Á myndinni eru þau Sigríður Jónsdóttir og Snorri Þorvaldsson.