Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Heimsmeistara fagnað

30.07.2013

Íslensku keppendurnir sem tóku þátt í Heimsmeistaramóti fatlaðra íþróttamanna í Lyon í Frakklandi eru komin aftur til landsins. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands fatlaðra og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ tóku á móti íslenska hópnum í Leifsstöð á sunnudag og færðu þeim blóm.

Í hópnum var nýkrýndur heimsmeistari, Helgi Sveinsson, en hann vann gull í spjótkasti aflimaðra (flokkur F42) er hann kastaði spjótinu 50,98 metra og setti með því bæði nýtt og glæsilegt Íslandsmet og heimsmeistaramótsmet. Sló Helgi með því 15 ára gamalt mótsmet í flokknum en fyrra metið var sett í Bretlandi árið 1998.  Frábært afrek hjá Helga!

Árangur hópsins í heild var góður.  Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir (F/T37) keppti í fjórum greinum og setti þrjú ný Íslandsmet. Arnar Helgi Lárusson (T53) keppti í tveimur greinum og setti eitt nýtt Íslandsmet og Helgi Sveinsson keppti í spjótkasti og afrek hans bæði Íslands- og heimsmeistaramótsmet, 50,98 metrar.

Á meðfylgjandi mynd eru Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF, Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir, Kristjana Kjartansdóttir nuddari og fararstjóri, Kári Jónsson landsliðsþjálfari í frjálsum, Helgi Sveinsson, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og fyrir miðju er Arnar Helgi Lárusson.