Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Ávarp forseta ÍSÍ við setningu 71. Íþróttaþings ÍSÍ

20.04.2013

Ágætu þingmenn,
Heiðursfélagar ÍSÍ,
Formaður Ungmennafélags Íslands,
Góðir þingfulltrúar og aðrir gestir,

Ég býð ykkur velkomin til Íþróttaþings.

Við höldum nú Íþróttaþing í kjölfar viðburðarríks 100 ára afmælisárs. 

ÍSÍ hefur átt góða samfylgd með íslenskri þjóð þessa aldarvegferð, hefur axlað samfélagslega ábyrgð og vaxið í að verða stærsta fjöldahreyfing landsins með tugþúsundir sjálfboðaliða sem á hverjum degi vinna samtökunum og þjóð sinni mikið gagn.

ÍSÍ leggur rækt við þessa miklu sjálfboðaliðastarfsemi  og hefur á undanförnum árum þróað kerfi sem miðar að því að skrásetja sjálfboðaliðastarfið  – að gera íþróttafélögum og sambandsaðilum kleyft að sjá með áþreifanlegum hætti umfang sjálfboðaliðastarfseminnar – að gera þeim kleyft að veita sínum sjálfboðaliðum viðurkenningar – og opna möguleika á að skila sérstökum reikningsskilum til meðlima sinna og samfélagsins sem við höfum kosið að nefna „efnahagsreikning mannauðs“.

Munum við hleypa því átaki formlega af stokkunum á morgun.

Ég hygg að þrátt fyrir að stöðugt sé hamrað á umfangi sjálfboðaliðastarfseminnar þá geri fáir sér í reynd grein fyrir því hversu umfangsmikil hún er – hversu samfélagslega verðmæt – og hversu mikil margföldunaráhrif hún hefur á hverja krónu sem til starfseminnar er veitt.  Með sama hætti er mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að þessi starfsemi er engan veginn sjálfgefin – og getur á stuttum tíma hrunið til grunna ef ekki er hlúð að þessari auðlind með viðeigandi hætti.

Endurteknar vísindalegar rannsóknir staðfesta að skipuleg iðkun ungmenna á íþróttum er besta forvörn sem völ er á gagnvart vágestum áfengis, tóbaks og fíkniefna – og bætir jafnframt árangur þeirra í námi.  Þetta þekkjum við öll – þetta viðurkennum við öll.

Á fundi sem íþróttahreyfingin hélt með forystumönnum stjórnmálaflokka í tengslum við gerð fjárlaga í nóvember voru þessar niðurstöður mjög almennt viðurkenndar, en þar kom meðal annars fram  – vissulega heiðarlegt – sjónarmið fulltrúa eins flokksins, þ.e. að þrátt fyrir að viðkomandi væri fullkomlega sammála þessum sjónarmiðum þá væri „dýrt að vera fátækur“.

Hér vil ég taka einfalda samlíkingu af bifeiðaárekstri.  Menn geta í grunnatriðum valið um þrjár leiðir til að ráðstafa fé til þess málaflokks.  Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir árekstur með fræðslu, gildismati og áhrifum á lögmæta hegðun.  Í öðru lagi geta menn lagt áherslu á viðbragðsáætlun, regluverk, refsingar og eftirlit sem gilda um slysavettvanginn...eða í þriðja lagi ákveðið að ráðstafa fjármunum til læknisþjónustu, endurhæfingar og bifreiðaviðgerða.

Eflaust verður aldrei hægt að draga skýrar línur þar sem einn þátturinn útilokar hina – en hinsvegar er afar mikilvægt ef sýnt er fram á að forvarnarþátturinn sé í senn sá ódýrasti og áhrifamesti þá hljóti vilji að standa til þeirrar leiðar – svo ekki sé minnst á að tekið sé tillit til þjáninga fórnarlamba og óbeins skaða samfélagsins.

Íslenskt samfélag glímir við mikinn vanda í formi stóraukins kostnaðar heilbrigðiskerfis við lífsstílssjúkdóma sem best verður unnið gegn með hollri hreyfingu og heilbrigðum lífsháttum.  Óumdeilt er að eitt stærsta afl í þeirri baráttu er starfsemi íþróttahreyfingarinnar.

Því hlýtur sú spurning að vera áleitin hvers vegna stjórnvöld hafa ekki óskað eftir umfangsmiklum sáttmála á þessu sviði við íþróttahreyfinguna.

Svarið liggur ekki í augum uppi – og hlýtur að vera dýpra en að það sé „dýrt að vera fátækur“.  Eflaust má setja þetta í samhengi við þá staðreynd að áþreifanlegur árangur tekur ef til vill lengri tíma en eitt kjörtímabil Alþingis – og því ekki vel fallið til skammtímavinsælda – en önnur skýring kann einfaldlega að vera sú að íþróttahreyfingin sinnir þessu starfi hvort sem hún nýtur stuðnings eða ekki.

Þessi fórnfýsi er án efa sá bakgrunnur sem kom svo berlega í ljós við efnahagshrunið fyrir tæpum fimm árum síðan – að fórnfús og þolinmóð íslensk íþróttahreyfing byggði á afar veikum fjárhagslegum grunni – sem leiddi til þess að niðurskurður og forsendur fjárlagagerðar ríkisvaldsins bitnaði margfalt verr á framlögum til íþróttamála en nokkrum sambærilegum geira samfélagsins.

Menn komust að því að stoðir atvinnulífsins gátu hrunið á einni nóttu – að bakgrunnur heimila til greiðslu félagsgjalda hyrfi á skömmum tíma – að auknir skattar yrðu lagðir á starfsemina – að gengisþróun nær tvöfaldaði kostnað við afreksstarf á nokkrum mánuðum – að  tímabundin framlög til Ólympískra verkefna yrðu hreinlega þurrkuð út af fjárlögum – að undirritaðir samningar um ferðakostnað innanlands og föst framlög til sérsambanda yrðu ekki efndir samkvæmt efni sínu – og að þrátt fyrir þessi áföll yrðu opinber framlög til íþróttarheyfingarinnar á fjárlögum skorin niður.

Það sem kannski er alvarlegast í þessari stöðu er að sú mikla samfélagslega forvarnarstarfsemi  sem íþróttahreyfingin stendur fyrir hefur orðið að tekjustofni fyrir ríkissjóð – í ljósi þeirra opinberru gjalda sem íþróttahreyfingin greiðir fer einungis hluti til baka í framlögum á fjárlögum.

Getur það verið eðlilegt að ríkissjóður hagnist á slíkri starfsemi?  Er ekki ljóst að eitthvað hefur farið úrskeiðis og gefa þurfi spilin upp á nýtt?

Við þurfum að líta til framtíðar og marka okkur nýja stefnu frá grunni varðandi fjármál íþróttahreyfingarinnar.  Við þurfum að ræða raunverulega fjárþörf – sem fjárfestingu samfélagsins í starfsemi sem skilar margfalt meiru en hún kostar – margfalt meiru – og gefur þjóðinni sem viðbót sínar stærstu gleði- og sigurstundir sem efla þjóðarstolt og sameiningu þjóðarinnar.  

Við höfum bent á að stjórnmálamönnum hefur ekki þótt leiðinlegt að standa í kastljósi athygli við heimkomu okkar glæsilega afreksfólks eftir góðan árangur á alþjóðavettvangi.  Fyrir það erum við þakklát, en við teljum skyldu þeirra að taka þátt að skapa slíkar gleðistundir til framtíðar.

Sú fjárþörf sem um ræðir  er nokkrum sinnum stærri en þær fjárhæðir sem nú er að finna á fjárlögum  – og þær fjárhæðir þurfa að nást á næstu árum.  Hækkun heildarframlaga ríkissjóðs í milljarð á næsta kjörtímabili er út af fyrir sig ekki óeðlilegt skref. 

Við þurfum ennfremur að skoða upptöku skattaívilnana – svo sem endurgreiðslu virðisaukaskatts og tryggingargjalds– líkt og þekkist m.a. á Norðurlöndunum.  Þetta er eðlilegt í ljósi þess sjónarmiðs að íþróttahreyfingin sé ekki tekjustofn fyrir ríkisvaldið.  Það er staðreynd sem ráðuneytið hefur þegar viðurkennt að við stöndum nágrannaríkjum okkar langt að baki í opinberum framlögum.

Við þurfum að fylgja eftir vilyrðum stjórnvalda – þar með talið mennta- og menningarmálaráðherra að okkar fremsta afreksfólk í íþróttum skuli njóta sambærilegra tekjukjara og til að mynda okkar ágæta listafólk eða stórmeistarar í skák – „afreksmannalaun“ – og njóti auk þess viðeigandi persónu- og lýðréttinda vegna íþróttaiðkunar sínar, hvort heldur það lýtur að aðgangi að Lánasjóði námsmanna, heilbrigðiskerfi eða öðru aðgengi að samfélagsþjónustu vegna langdvalar erlendis.

Við þurfum að verja hugverkaréttindi íþróttahreyfingarinnar og efla þær tekjur  – raunar þvert gegn þjóðnýtingarhugmyndum stjórnvalda á grundvelli tilskipunar ESB um útsendingu íþróttaviðburða í ólæstri dagskrá.  Við höfum fordæmi STEF gjalda varðandi tónlist, og hljótum að gera sambærilegar kröfur um hugverkaréttindi íþróttaviðburða – í stað þess að þróa þau mál í þveröfuga átt.

Við þurfum þó ávallt að gæta þess að sjálfstæði – sjálfsforræði – og gildi íþróttahreyfingarinnar verði aldrei lögð að veði við slíkar úrbætur á hinum fjárhagslega ramma.

En ríkisvaldið er einungis annar angi hins opinbera...samskipti íþróttahreyfingarinnar við sveitarfélög í landinu hafa ávallt verið umfangsmikil.

Halda skal því til haga að fyrir efnahagshrun hafði uppbygging íþróttastarfs  í nærumhverfi þegnanna verið vaxandi – hvort heldur í formi uppbyggingar íþróttamannvirkja eða niðurgreiðslu æfingagjalda yngstu iðkenda – sem líklega er ásamt ferðakostnaðarsjóði helsta jafnréttismál fjölskyldna í landinu á síðasta áratug.

Samskipti íþróttahreyfingarinnar í heild við sveitarfélög ættu og gætu verið meiri.  Breytingar sem urðu á tilflutningi grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga fyrir hálfum öðrum áratug hefðu átt að leiða til meira samstarfs – einkum á sviði mannvirkjamála og skipulagi íþrótta innan skólastarfs.

Íþróttamannvirki – sem reyndar eru í mörgum tilvikum skólamannvirki sem íþróttahreyfingin tekur við að afloknum skóladegi til þess að standa fyrir endurgjaldslausri samfélagsstarfsemi – hafa verið á forræði sveitarfélaga síðan þá.

Hönnun, staðsetning og fyrirkomulag þeirra íþróttamannvirkja sem tilheyra skólum hafa almennt verið reist án samráðs við íþróttahreyfinguna.  Skólalóðir og vettvangur æskulýðsstarfs hafa of oft tekið mið af útlitshönnun frekar en notagildi hollrar hreyfingar, leikja og íþrótta.  Úr því þarf að bæta, og þar með nýtingu og hagkvæmni þeirra kostnaðarsömu mannvirkja – öllum til hagsbóta.

Jafnframt er það skylda íþróttahreyfingarinnar að gæta þess að kröfur hennar um byggingu íþróttamannvirkja séu byggðar á skynsömum hagkvæmnissjónarmiðum – og að notagildi ráði för umfram útlitshönnun og jafnvel íburð.  Gæta skal að hagkvæmni með samnýtingu yfir landamæri sveitarfélaga þar sem það er skynsamlegt – og að ekki sé ráðist í óhagkvæmar framkvæmdir á grundvelli „það er komið að mér“ reglunnar einnar saman.

Hér getur komið til kasta þróunar á hlutverki íþróttahéraða í okkar stjórnskipulagi.

Þá er að lokum afar mikilvægt að vinna á komandi árum að því að tryggja þjóðarleikvanga fyrir okkar afreksíþróttir – og tryggja landsliðum okkar sómasamlegan aðgang að æfinga- og keppnisaðstöðu.  Hér koma vissulega til vanræktar skyldur ríkisvaldsins í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög.

Íþróttaleg þróun – sú starfsemi sem fram fer innan veggja íþróttamannvirkjanna – er hinsvegar sú kjarnastarsemi íþróttahreyfingarinnar sem við þurfum að hlúa að umfram annað.
Þeirri starfsemi er almennt vel gerð skil í skýrslum sambandsaðila og félaga í grasrótarstarfinu, þar sem kjarni þeirrar starfsemi fer fram – en Ólympísk verkefni – sem nú eru 10 talsins á hverri fjögurra ára Ólympíuöðu – eru á hendi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, og finna má upplýsingar um í fyrirliggjandi ársskýrslu.

Almenningsíþróttir hafa fengið aukið vægi í starfsemi ÍSÍ – og má segja að með ólíkindum sé hversu mikill árlegur vöxtur hefur verið í föstum verkefnum Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ – svo sem Hjólað í vinnuna, Lífshlaupinu, Göngum í skólann, Kvennahlaupinu og öðrum verkefnum.  Þjóðin hefur með afgerandi hætti tekið í útrétta hönd íþróttahreyfingarinnar og hrifist með í hollri hreyfingu.

Á þessu græðum við öll.

Afreksíþróttir og almenningsíþróttir hafa átt góða samleið innan vébanda ÍSÍ, og án efa liggja sóknarfæri í því að samþætta sjónarmið afreksstarfs og almenningsíþrótta betur í framtíðinni.  Má þar sem dæmi nefna skólaíþróttir og samstarf við skólayfirvöld, en einnig má þar nefna vaxandi kröfur um reglulega og skipulega iðkun íþróttastarfsemi þar sem kröfur um keppni eru minni en í skilgreindum afrekspýramída sérsambanda.

Við breyttum nafni Fræðslusviðs ÍSÍ í „Fræðslu- og þróunarsvið ÍSÍ“ fyrir tveimur árum síðan – og undir merkjum þess sviðs hefur verkefnið um fyrirmyndarfélög ÍSÍ verið í fararbroddi þess að þróa starfsemi íþróttafélaga að samfélagslegum kröfum og ábyrgð.

Samfélagslegar kröfur á íþróttahreyfinguna hafa aukist í beinu samhengi við umfjöllun og viðfangsefni í samfélaginu. Samfélagsleg mein á borð við einelti,  kynferðislegt ofbeldi, áfengis- og fíkniefnaneyslu eru allt viðfangsefni sem við getum ekki lokað augum fyrir að kunni að fyrirfinnast í nokkrum mæli innan okkar hreyfingar – sem er þverskurður samfélagsins með þriðjung þjóðarinnar sem meðlimi.

Ennfremur eru vaxandi kröfur – bæði hérlendis og erlendis – um vitund gagnvart umhverfinu og að íþróttastarfsemi sé líkt og önnur starfsemi rekin í góðri sátt við umhverfið.  

Íþróttahreyfingin hefur – þótt stundum af litlum mætti sé – reynt að bregðast við þessum kröfum með fræðslu, með því að setja sér siðareglur, semja viðbragðsáætlanir, taka þátt í forvarnarverkefnum og vinna að því t.d. að setja sér markmið í umhverfismálum.  Vandinn felst gjarnan í því að þessi viðfangsefni eru býsna fjarri hefðbundinni kjarnastarfsemi hreyfingarinnar – og enn fjær þeim veruleika sem fórnfúsir sjálfboðaliðar hreyfingarinnar hafa gefið kost á sér til að sinna.
Þessa staðreynd er mikilvægt að horfast í augu við þegar raunveruleikinn er metinn.

Það er því ámælisvert að stjórnvöld skuli – á sama tíma og þau gera meiri kröfur til sjálfboðaliða á þessu sviði – ekki verða við óskum um viðunand fjárframlög til að framfylgja þeim verkefnum.  Þvert á móti hefur niðurskurður undanfarinna ára verið miskunnarlaus.  Slík verkefni verða ekki fjármögnuð með niðurskurði – og stundum veltir maður því fyrir sér hvort sumir hafi ruglað saman debet og kredit í því samhengi.

Að lokum vil ég hér nefna ný aðkallandi viðfangsefni sem kalla munu á meiri úrræði á komandi árum, en það er ógnin sem felst í hagræðingu úrslita leikja í tengslum við ólöglega veðmálastarfsemi.  Getur sú ógn – með tilkomu skipulegrar glæpastarfsemi – útrýmt íþróttum eins og við þekkjum þær í dag á tiltölulega skömmum tíma.  Áhorfendur munu ekki mæta á kappleiki ef úrslit eru fyrirfram ákveðin, foreldrar munu ekki senda börn sín í íþróttir, stuðningsaðilar munu leita annað og samfélagslegur ávinningur af íþróttastarfsemi mun minnka.  Gegn þessu þurfum við að berjast öll í sameiningu.

Ég vil þakka mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, fyrir gott samstarf síðastliðin fjögur ár.  Þótt finna megi í ávarpi þessu harða ádeilu á stjórnvöld þá hefur ekki allt verið alvont.  Samskipti hafa verið mikil og góð, og við höfum fundið vilja hjá ráðherra til að öðlast skilning á starfsemi íþrótthreyfingarinnar og vilja til úrbóta. 

Á síðasta ári var kynnt ný Íþróttastefna ríkisins – sem á ýmsan hátt er gagnlegt og merkilegt pagg – og góður grunnur að sáttmála stjórnvalda og íþróttahreyfingarinnar samfélaginu til hagsbóta – en er sannarlega einungis innihaldslaus pappír ef ekki fylgja því viðeigandi fjárhagsleg úrræði til að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram.  Ég vona að okkur beri gæfa til að komast lengra á þeim vegi.

Ég þakka Forseta Íslands og verndara íþróttahreyfingarinnar, Ólafi Ragnari Grímssyni,  fyrir stöðugan og einlægan stuðning við okkar starfsemi – en fáir hafa verið jafn duglegir við að mæta á viðburði og tala máli íþrótta og æsku landsins.  Fyrir það kunnum við honum og Dorritt okkar bestu þakkir.

Ég vil þakka okkar góðu fyrirtækjum Ólympíufjölskyldunnar – Íslandsbanka – Valitor – Sjóvá – Icelandair – sem staðið hafa með okkur í blíðu og stríðu um langt skeið, og gerðu okkur kleyft að senda 27 manna keppnishóp með sómasamlegum hætti á Ólympíuleikana í London á síðasta ári.

Þá vil ég þakka eignaraðilum og stjórnendum Íslenskrar Getspár og Íslenskra Getrauna fyrir afar gott samstarf og mikilvægan rekstrarárangur á erfiðum tímum.  Þau fyrirtæki hafa sætt miklum árásum og fjölmargir sem vilja með ómaklegum hætti klifra upp á bakið á þeim árangri sem þau hafa náð, og þeirri áhættu og uppbyggingu sem eignaraðilar hafa lagt af mörkum á undanförnum áratugum.

Ég þakka stjórn og starfsfólki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands fyrir frábært samstarf á undanförnum árum.  Ég hygg að flest ykkar geri sér grein fyrir hversu dugmikið fólk þar er á ferð – og að skipið er vel mannað.  Samstarf okkar Líneyjar Rutar Halldórsdóttur er mikið og náið, og hlaupa netpóstar, símtöl og fundir á þúsundum á hverju ári.

Að lokum færi ég ykkur þingfulltrúum mínar sérstöku persónulegu þakkir.  Þið eruð það fólk sem starfar frá degi til dags í grasrót hreyfingarinnar.  Við hjá ÍSÍ njótum þess að starfa með ykkur – að mæta til ársþinga ykkar og viðburða um allt land – og þess á milli að fá að koma fram fyrir ykkar hönd og taka heiðurinn af ykkar störfum.

Ég segi 71. Íþróttaþing sett.