Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

71. Íþróttaþing var sett í Reykjavík í dag.

19.04.2013

71. Íþróttaþing ÍSÍ var sett á Icelandair Hótel Natura í dag.  Á setningarathöfn þingsins voru fjórir einstaklingar kjörnir heiðursfélagar í Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands en það voru þau Björg S. Blöndal, Logi Kristjánsson, Ríkharður Jónsson og Stefán Runólfsson.  Það voru þeir Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ og Lárus Blöndal varaforseti sem veittu þeim viðurkenningar af þessu tilefni.  Þrír einstaklingar voru einnig sæmdir heiðurskrossi ÍSÍ en það voru þau Bjarni Felixson, Jensína Magnúsdóttir og Lovísa Sigurðardóttir.

Setningarathöfn þingsins var með hefðbundnum hætti þar sem forseti ÍSÍ flutti setningarávarp og minntist þar sérstaklega látinna félaga.  Í kjölfarið af ávarpi forseta flutti Sigríður Thorlacius söngkona tvö lög við undirleik Guðmundar Óskars Guðmundssonar.  Formaður UMFÍ, Helga Guðrún Guðjónsdóttir, flutti þingfulltrúum kveðju ungmennafélagshreyfingarinnar og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ færði þinginu kveðjur frá Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands, Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningamálaráðherra og Ellert B. Schram heiðursforseta ÍSÍ en ekkert þeirra gat verið við þingsetninguna.

Að lokinni setningarathöfn tóku við almenn þingstörf þar sem Daníel Jakobsson, bæjarstjóri á Ísafirði, var kjörinn þingforseti og Steinn Halldórsson var kjörinn 2. þingforseti.  Í samræmi við lög ÍSÍ voru fulltrúar íþróttamanna voru kosnir á þingið en það eru þau Þormóður Árni Jónsson júdómaður, Árni Þorvaldsson skíðamaður, Ásgeir Sigurgeirsson skotíþróttamaður og Stefanía Valdimarsdóttir frjálsíþróttakona.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, kynnti því næst skýrslu framkvæmdastjórnar og Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ, kynnti endurskoðaða reikninga.  Reikningar sambandsins voru samþykktir án umræðu.  Kjörnefnd íþróttaþings kynnti framboð til framkvæmdastjórnar ÍSÍ en kjör fer fram á morgun.  Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ gefur kost á sér til áframhaldandi setu en ekki bárust önnur framboð til forseta sambandsins.  Þrettán einstaklingar gefa kost á sér til starfa í framkvæmdastjórn og þar af eru tveir einstaklingar sem ekki hafa setið í stjórninni áður.  Í framhaldi af því kynnti þingforseti kynnti að lokum tillögur sem liggja fyrir þinginu en umræður standa nú yfir um þær í fundarsölum í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, í þremur þingnefndum, og má búast við að nefndastörf standi fram eftir kvöldi.

Þingstörfum verður svo framhaldið á morgun þar sem þingmál verða afgreidd og kosningar til embætta fara fram.

Myndir frá íþróttaþinginu er hægt að sjá neðarlega á forsíðu heimasíðunnar.  Myndirnar tók Arnaldur Halldórsson ljósmyndari.