Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

3

Kveðja frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands

17.10.2012

Það er ávallt sárt þegar símtal með tilkynningu um andlát berst.  Þótt Gísli Halldórsson hafi staðið nærri tíræðu þegar hann féll frá þá verður hans saknað af íslenskri íþróttahreyfingu.  Hann var heiðursforseti ÍSÍ, og hafði á sínum ferli gegnt stöðu forseta Íþróttasambands Íslands í 18 ár frá 1962-1980, og formanns Ólympíunefndar Íslands í 22 ár frá 1972-1994 eftir rúmlega fjögurra áratuga setu í nefndinni, auk ótal annarra trúnaðarstarfa hérlendis sem erlendis sem útilokað er að útlista í stuttri grein.  Ævisaga Gísla Halldórssonar var samtvinnuð aldarsögu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi, og ef til vill táknrænt að hann falli frá á 100 ára afmælisári samtakanna sem hann unni svo mikið og þjónaði svo dyggilega.  Þakklæti okkar til Gísla Halldórssonar verður vart með orðum lýst. 

Viðburðarrík saga ÍSÍ í 100 ár hefur aðeins að geyma fimm fyrrum forseta samtakanna.  Það var því stór stund fyrir forystu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi þegar tveir  þeirra gátu mætt á afmælisdegi samtakanna í Bárubúð í Ráðhúsi Reykjavíkur í janúar síðastliðinn, og tekið þar þátt í athöfn við afhjúpun minnisskjaldar um stofnun ÍSÍ á þeim stað 100 árum áður, og setið í kjölfarið hátíðarfund með framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og erlendum gestum frá Samtökum Evrópskra Ólympíunefnda.  Sá fundur verður öllum sem hann sátu ógleymanlegur fyrir hnyttna og leiftrandi ræðu Gísla Halldórssonar.

Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast Gísla Halldórssyni persónulega, og líklega er öllum okkar sem á eftir koma hollt að fræðast um lífshlaup frumherja sem einkennst hefur af slíkum dugnaði og ósérhlífni.  Hann var afkastamikill og farsæll í starfi sínu sem virtur arkitekt, og hannaði ýmsar þekktar byggingar hér á landi þar á meðal þekktustu íþróttamannvirki landsins.  Hann sinnti trúnaðarstörfum sem borgarfulltrúi og forseti borgarstjórnar í Reykjavík.  Eftir hann liggja jafnframt merkileg ritverk sem meðal annars hafa átt ríkan þátt í að varðveita sögu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. 

En ekki síst verður Gísla minnst fyrir ákaflega háttvísa framkomu og hversu auðveldlega honum tókst að leysa mál og sætta málsaðila í umfangsmiklum og krefjandi viðfangsefnum íþróttahreyfingarinnar.  Hann var sannur leiðtogi, og hafði ávallt heiðarlega hagsmuni íþróttahreyfingarinnar að leiðarljósi.  Gísli naut ennfremur mikillar virðingar erlendis, og enn spyrja forystumenn íþróttamála erlendis um Gísla Halldórsson – þótt meira en þrír áratugir séu síðan hann lét af embætti forseta ÍSÍ.

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands – og fyrir hönd allra félaga í íþróttahreyfingunni á Íslandi – færi ég fjölskyldu og aðstandendum Gísla Halldórssonar dýpstu samúðarkveðjur.  Blessuð sé minning Gísla Halldórssonar.

Ólafur E. Rafnsson,
forseti ÍSÍ