Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Ljós í þjóðarsálina

10.09.2012

Nú þegar þetta er ritað er annasöm helgi að baki þar sem íslensk landslið hafa staðið í ströngu og borið hróður lands og þjóðar um víða veröld.  Tímamótasigur karlalandsliðsins í knattspyrnu á Norðmönnum virðist vera í takt við áralangt og skipulagt uppbyggingarstarf innan Knattspyrnusambands Íslands, og góður leikur karlalandsliðsins í körfuknattleik markar vonandi spor í sömu átt eftir fjarveru frá Evrópukeppni landsliða um skeið.
 
Fyrir nokkrum vikum síðan komu Ólympíufararnir okkar heim þar sem fleiri íþróttastjörnur þjóðarinnar skinu skært en oft áður – og afar vel heppnaðar útsendingar á hinni nýju Ólympíurás RÚV varð til þess að þorri almennings, hvar í stétt, stöðu, kyni eða aldri sem er, fylgdist klukkustundum saman með badminton og skotfimi, íþróttagreinum sem fram að því mun færri höfðu upplifað áður að fylgjast með heilli keppni.

Ekki má auðvitað gleyma handknattleikslandsliðinu okkar, og er það ef til vill til marks um meiri getu og auknar kröfur þegar allir eru bullandi óánægðir með að koma ekki með verðlaunagripi heim.  En ekki má gleymast að liðið varð að nokkru fórnarlamb keppnisfyrirkomulagsins eftir að hafa unnið sinn riðil með fullu húsi stiga, og þar með talið bæði liðin sem síðar léku til úrslita um Ólympíugullið.  Þrátt fyrir lokastöðu íslenska liðsins er rétt að hafa þessar staðreyndir í huga, og að árangur liðsins var þrátt fyrir allt frábær.
 
Og nú er að koma heim annar hetjuhópur sem skráð hefur nöfn sín í hjörtu íslensku þjóðarinnar, keppendurnir okkar fjórir á Ólympiumóti fatlaðra, hlaðnir verðlaunum og Íslandsmetum.  Þau Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir, Helgi Sveinsson, Kolbrún Alda Stefánsdóttir, og síðast en ekki síst Ólympíumeistarinn okkar Jón Margeir Sverrisson – sem vart virðist mega stinga sér í sundlaug án þess að setja Íslandsmet – hafa öll staðið sig frábærlega og verið Íslandi til sóma.
 
Það er varla ofsögum sagt að íþróttahetjur þjóðarinnar hafi fært ljós og gleði í hjörtu landsmanna, og átt þátt í því að efla samstöðu meðal þjóðarinnar – og vonandi samhliða því orðið ungu fólki hvatning til að taka upp iðkun íþrótta, og landsmönnum öllum hvati til hollrar hreyfingar og lífshátta.
 
Ekki verður skilið við þennan málaflokk án þess að hrósa íslenskum fjölmiðlum, sem í senn af miklum dugnaði og ósérhlífni, en ekki síður mikilli fagmennsku, hafa borið þessar fréttir og skilaboð inn á hvert heimili í landinu – og með góðri framsetningu átt sinn þátt í áhuga þjóðarinnar.  Ég veit af eigin raun hversu langir vinnudagar hafa verið hjá fulltrúum íslenskra fjölmiðla á Ólympíuleikum og Ólympíumóti fatlaðra.  Fyrir það erum við öll þakklát.
 
Ég hef tekið við ótrúlegum fjölda hamingjuóska með íþróttafólkið okkar á undanförnum vikum, en hef jafnan brugðist við með því að segja „sömuleiðis“.  Þetta eru nefnilega allt keppendurnir okkar – þjóðarinnar allrar.  Við erum öll  sama liði.
 
Ólafur E. Rafnsson,
forseti ÍSÍ