Síðustu dagar Ólympíumóts fatlaðra
Einn keppnisdagur er eftir hjá íslensku þátttakendunum á Ólympíumóti fatlaðra í London. Helgi Sveinsson frjálsíþróttakappi keppir í spjótkasti og 100 m hlaupi á morgun, þann 7. september. Góður árangur hefur náðst hjá íslensku keppendunum og þar ber auðvitað hæst árangur Jóns Margeirs Sverrissonar gullverðlaunahafa í 200 m skriðsundi í flokki S1, flokki þroskahamlaðra, en Jón Margeir setti, eins og alkunna er, bæði heimsmet og Ólympíumótsmet í sundinu. Frábær árangur hjá þessum unga og efnilega sundmanni sem þarna vann sitt fyrsta gull á Ólympíumóti en Ísland hefur ekki náð gullverðlaunum á slíku móti síðan árið 2004, þegar Kristín Rós Hákonardóttir sundkona og Jón Oddur Halldórsson frjálsíþróttamaður unnu til verðlauna. Frekari upplýsingar um árangur íslensku keppendanna og lífið í Ólympíuþorpinu er að finna á www.ifsport.is .
Frábær stemming hefur verið á mótinu og gríðarlega góð aðsókn á viðburði. Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ er nú stödd í London til að fylgjast með síðustu keppnisdögum mótsins. Myndin sem hér fylgir er af íslenska hópnum ásamt velferðarráðherra, Guðbjarti Hannessyni og Sveini Áka Lúðvíkssyni formanni Íþróttasambands fatlaðra.