Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Íþróttafólk sérsambanda 2015

Akstursíþróttakona ársins

Anna María Sighvatsdóttir

Akstursíþróttakona ársinsAnna María keppir sem aðstoðarökumaður í rallýi.Hún hóf keppni í rallýi árið 2014 sem aðstoðarökumaður með Sighvati föður sínum. Hún þykir ákveðin og tók hlutverkið strax alvarlega. Árið 2015 undirstrikaði hún svo hvaða keppnismanneskju hún hefur að geyma þegar hún hampaði Íslandsmeistaratitli í jeppaflokki í rallýi þrátt fyrir að hafa þurft að fá annan ökumann í haustrallýið í fjarveru föður hennar.

Akstursíþróttamaður ársins

Snorri Þór Árnason

Akstursíþróttamaður ársinsSnorri Þór keyrir Kórdrenginn í flokki sérútbúinna bíla í torfæru. Hann hefur átt sigursælan feril en hann var búinn að næla sér í Íslandsmeistaratitilinn þegar þrjár umferðir af sex voru búnar. Snorri Þór hefur tekið þátt í Norður-Evrópumeistaramótinu þar sem hann hefur verið á palli síðustu þrjú ár. Árið 2013 lenti hann í þriðja sæti, árið 2014 í öðru sæti og í ár leiddi hann keppnina en tapaði fyrsta sætinu í síðustu brautinni með 40 stigum, sem er minnsti munur sem sést hefur í þessum keppnum. Snorri Þór ætlar sér mikið í íþróttinni og er alltaf tilbúinn að leggja sérstaklega mikið á sig til að ná þeim árangri sem hann hefur sett sér. Hann er mikill keppnismaður og hans mottó í torfæru er að mæta alltaf tilbúinn í slaginn og með bílinn í lagi.

Blakkona ársins

Elísabet Einarsdóttir

Blakkona ársinsElísabet er 17 ára gömul og leikur með Íslandsmeistaraliði HK í Kópavogi. Helstu afrek hennar á árinu 2015 eru: o Íslandsmeistari í blaki kvenna með liði HK árið 2015. o Gull á Smáþjóðaleikunum í Strandblaki í landsliði Íslands í strandblaki ásamt Berglindi Gígju Jónsdóttur. o Fjöldi verðlauna á mótaröð í Danmörku sumarið 2015 ásamt Berglindi Gígju Jónsdóttur. 20. júní – Aarhus Grand Slam 2. sæti 27. júní – Copenhagen Challenger 6. sæti 4. júlí – Design City Kolding Grand Slam 1. sæti 11. júlí – Ishoj Challenger 3. sæti 18. júlí – Bellevue Grand Slam 3. sæti 27. júlí – Kerteminde Semi Final 2. sæti 2. ágúst – Cuxhaven open 2. sæti – (Þýskaland) 8. ágúst – Bellevue Final 2. sæti o Íslandsmeistari í strandblaki í þremur flokkum; fullorðinsflokki, U21 og U17. o Lék fyrir Íslands hönd í landsliðinu í strandblaki með Berglindi Gígju, í NEVZA móti fullorðinna í maí og í Evrópumóti U22 í Portúgal í ágúst þar sem þær enduðu í 17. sæti af 32 liðum. o Elísabet er nr. 304 á Evrópulistanum í strandblaki af 821 einstaklingi. o Silfurverðlaun í NEVZA móti U17 í Kettering á Englandi í október. o Valin í draumalið NEVZA U17 í Kettering á Englandi í október.o Valin verðmætasti leikmaður (MVP) NEVZA U17 í Kettering á Englandi í október. o Tilnefnd sem besti leikmaðurinn í strandblakmótaröðinni í Danmörku sumarið 2015 – 1 af 4 sem tilnefndar voru af danska Blaksambandinu. Elísabet er fyrirmyndar blakkona og stundar sína íþrótt af miklum metnaði. Hún æfir og spilar blak með HK í Kópavogi en þess utan æfir hún tvisvar til þrisvar í viku strandblak.

Blakmaður ársins

Hafsteinn Valdimarsson

Blakmaður ársinsAfrek Hafsteins, sem er 26 ára gamall, á árinu 2015 eru eftirfarandi: o 3. sæti í dönsku úrvalsdeildinni í blaki árið 2015.o Spilaði með liði sínu í úrslitum Norður-Evrópukeppni félagsliða þar sem liðið endaði í 5. sæti. o Silfurverðlaun í dönsku bikarkeppninni í blaki árið 2015. o Hafsteinn var einn af burðarásum landsliðs Íslands á Smáþjóðaleikunum í sumar sem fram fór í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Liðið vann til silfurverðlauna á leikunum. o Silfurverðlaun á Íslandsmóti í strandblaki með Kristjáni Valdimarssyni. o Lið Hafsteins er sem fyrr í toppbaráttu í dönsku úrvalsdeildinni og er lið hans komið áfram í undanúrslit í bikarkeppninni þetta leiktímabilið og er komið í úrslit Norðurlandamóts félagsliða. o Hafsteinn er stigahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar í hávörn sem stendur. Hafsteinn Valdimarsson er fyrirmyndar blakmaður og æfir af kappi með liði sínu Marienlyst. Þátttaka hans í landsliðum Íslands er til fyrirmyndar og hann á svo sannarlega framtíðina fyrir sér.

Badmintonkona ársins

Tinna Helgadóttir

Badmintonkona ársinsTinna varð tvöfaldur Íslandsmeistari í badminton á árinu 2015, í einliðaleik og í tvíliðaleik með Drífu Harðardóttur. Þetta er fjórði Íslandsmeistaratitill Tinnu í einliðaleik, en hún hampaði titlinum einnig árin 2009, 2013 og 2014. Tinna keppti á einu öðru móti á Íslandi á árinu, Meistaramóti TBR. Þar keppti hún í tvíliðaleik og tvenndarleik og vann báðar greinar ásamt meðspilurum sínum. Tinna hefur keppt með landsliðinu fyrir Íslands hönd um árabil og spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2004, þá tvítug að aldri. Tinna á 51 A-landsleik að baki. Áður spilaði hún með unglingalandsliðum.Tinna hefur spilað með danska liðinu Værløse á þessu ári. Hún spilar með Værløse 2 og hefur verið að spila með og á móti mörgum sterkustu badmintonspilurum heims en Værløse 2 spilar í dönsku fyrstu deildinni og er nú í fjórða sæti deildarinnar.Tinna er nýráðin landsliðsþjálfari Íslands í badminton en hún tók við þeirri stöðu nú í desember.

Badmintonmaður ársins

Kári Gunnarsson

Badmintonmaður ársinsKári er Íslandsmeistari í einliðaleik fjórða árið í röð og í tvíliðaleik ásamt Atla Jóhannessyni annað árið í röð. Kári er í A-landsliðinu í badminton. Hann keppti með landsliðinu fyrir Íslands hönd í Heimsmeistaramóti landsliða í Kína á árinu. Hann átti þar mjög góða leiki og vann einliðaleik og þeir Atli unnu tvíliðaleiki í keppninni. Kári er mikilvægur í landsliði Íslands í badminton og spilar jafnan fyrsta einliðaleik karla. Hann var í unglingalandsliðum Íslands áður og spilaði fyrst með A-landsliðinu árið 2010, þá aðeins 19 ára gamall. Kári hefur spilað 17 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.Kári vann sér inn þátttökurétt á fyrstu Evrópuleikana í Baku í sumar en staða á heimslista sagði til um þátttökurétt. Kári hefur keppt á fjölda alþjóðlegra móta á mótaskrá evrópska- og alþjóða badmintonsambandsins á árinu. Hann hefur unnið sig hratt upp heimslistann en í upphafi ársins var hann í 627. sæti listans en er nú í 254. sæti. Tíu bestu mót innan mótaraðar alþjóða badmintonsambandsins mynda listann. Kári er að reyna að öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Ríó á næsta ári.Kári er alinn upp í Danmörku og spilaði með Københavns Badminton Klub en fluttist til Íslands í lok ársins og mun keppa hérlendis sem og erlendis á vorönn 2016. Auk Meistaramótsins keppti hann hérlendis á Meistaramóti BH og SETmóti KR og vann hann einliðaleikinn í báðum þessum mótum.

Borðtenniskona ársins

Guðrún G. Björnsdóttir

Borðtenniskona ársinsGuðrún varð Íslandsmeistari 2015 í meistaraflokki kvenna í 5. sinn og Íslands- og deildarmeistari með liði sínu KR á árinu. Hún lék með landsliðinu á HM í Kína og einnig á Smáþjóðaleikunum 2015 á Íslandi.

Borðtennismaður ársins

Daði Freyr Guðmundsson

Borðtennismaður ársinsDaði Freyr er Íslandsmeistari 2015 með liði sínu Víkingi, deildarmeistari og Íslandsmeistari i tvílíðaleik með félaga sínum Magnúsi K. Magnússyni. Hann hefur verið fastamaður í landsliði Íslands undanfarin ár.Daði Freyr lék með landsliðinu á HM í Kína og einnig á Smáþjóðaleikunum 2015 á Íslandi.

Dansarar ársins

Hanna Rún Óladóttir og Nikita Bazev

Dansarar ársinsHanna Rún og Nikita keppa í samkvæmisdönsum, latin dönsum. Þau hafa dansað saman frá byrjun ársins 2013. Árangur þeirra á árinu 2015 er eftirfarandi:24. janúar Íslandsmeistaramót – 1. sæti24. janúar RIG Open – 1. sæti14. febrúar WDSF World Open Copenhagen Open – 5. sæti af 46 pörum21. mars DSÍ Open – 1. sæti25. apríl Bikarmeistaramót – 1. sæti13. ágúst German Open Grand Slam Þýskaland – 29. sæti af 314 pörum5. september Wdsf World Open Tékklandi - 7. sæti af 88 pörum19. september Wdsf World Open Luxemborg 13. sæti26. september Wdsf World Open Poland – 3. sæti af 49 pörum 3. október Wdsf Open Swiss – 3. sæti18. október UMSK -1. sæti1. nóvember World Open Spain – 9. sæti af 62 pörum7. nóvember Evrópubikar Ítalía – 6. sæti14. nóvember Wdsf World Open Ítalía – 11. sæti af 124 pörum21. nóvember Heimsmeistaramót Austurríki – 25. sæti5. desember Heimsbikar Þýskaland – 4. sæti12. desember Wdsf World Open Noregur - 11. sæti af 57 pörum19. desember Norður Evrópumeistaramót Lettland - 2. sæti af 30 pörum.Nikita og Hanna eru númer 50 á heimslista WDSF í dag og hefur ekkert annað íslenskt par náð eins langt á þeim lista.

Frjálsíþróttakona ársins

Ásdís Hjálmsdóttir

Frjálsíþróttakona ársinsÁsdísi þekkja allir Íslendingar sem fylgst hafa með frjálsíþróttum síðastliðinn áratug. Hún hefur borið höfuð og herðar yfir aðra kastara landsins um margra ára skeið og öðlast keppnisrétt á sterkustu frjálsíþróttamótum sem haldin hafa verið í heiminum undanfarin ár. Árið 2015 varð engin undantekning á því hjá Ásdísi og hún sýndi í verki að hún var í sínu besta líkamlega ástandi og líkleg til að setja Íslandsmet í spjótkasti hvenær sem var. Og það á getustigi í fremstu röð í heiminum. Ásdís Hjálmsdóttir náði hæst allra íslenskra frjálsíþróttakvenna á heimslista Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins á árinu 2015 og hafnaði 26. sæti í spjótkasti. Ásdís var eini íslenski frjálsíþróttamaðurinn sem keppti á Demantamóti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins á árinu 2015. Hún vann til tveggja verðlauna á World Challenge mótum IAAF á árinu - hlaut silfurverðlaun í Madrid og bronsverðlaun í Dakar í Senegal. Ásdís vann til gullverðlauna á Riga Cup í Lettlandi 31. maí með kasti upp á 62,14m sem er annað lengsta kast hennar á keppnisferlinum. Samhliða tryggði hún sér keppnisrétt á HM 2015 og á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Árangur Ásdísar á árinu 2015 undirstrikaði að hún var í sínu besta líkamlega ástandi og er líkleg til að bæta árangur sinn enn frekar á komandi Ólympíuári. Á árinu 2015 sigraði Ásdís jafnframt í kringlukasti og kúluvarpi á Meistaramóti Íslands og svissneska meistaramótinu og bætti samhliða sinn persónulega árangur í báðum greinum- í kringlukasti 49,31m og í kúluvarpi 15,68m á árinu.

Frjálsíþróttamaður ársins

Þorbergur Ingi Jónsson

Frjálsíþróttamaður ársinsÞorbergur Ingi náði þeim einstaka árangri í íslenskri íþróttasögu á árinu 2015 að hafna í 9. sæti á heimsmeistaramóti í ofurfjallahlaupi sem haldið var í Annesy í Frakklandi í lok maí 2015. Á heimsmeistaramótinu var keppt á 86 km fjallaleið með 5200 m hæðaraukningu. Þátttakendur voru alls 229 í hlaupinu frá 37 löndum. Óþarft er að tíunda að orðið „ofur“ rímar vel við þá braut sem keppt var á á heimsmeistaramótinu 2015. Það er með ólíkindum að Íslendingar hafi átt 9. manninn í mark í þeirri þrekraun sem hér um ræðir þar sem ofurhlaup, fjallahlaup og utanvegahlaup af ýmsum gerðum hafa verið stunduð um áratuga skeið af hundruðum þúsunda hlaupara um allan heim. Árlega eru haldin tugir þúsunda keppna í mismunandi gerðum utanvegahlaupa víðsvegar um heiminn. Þorbergur Ingi Jónsson hefur með árangri sýnum 2015 brotið blað í íslenskri frjálsíþróttasögu.Þorvaldur Ingi sigraði og setti glæsilegt brautarmet á Laugarveginum ( 3:59;13 klst.) á árinu og rauf þar með 4 klst. múrinn fyrstur manna á þeirri hlaupaleið. Hann hafnaði í 39. sæti í hálfmaraþoni í Berlín og var nálægt Íslandsmeti í greininni. Einnig sigraði hann í 3000m hlaupi á Meistaramóti Íslands innanhúss og sigraði í Þorvaldsdalsskokkinu á besta tíma sem náðst hefur í því hlaupi frá upphafi 1:47:12 Þorbergur Ingi sýndi á árinu 2015 að hann er kominn í hóp bestu ofurhlaupara heims.

Fimleikakona ársins

Irina Sazonova

Fimleikakona ársinsÁrangur Irinu á árinu 2015 var mjög góður og framúrskarandi í keppni í fjölþraut áhaldafimleika en hún náði hæst 53,850 stigum í fjölþraut á Íslandsmóti (keppti sem gestur). Á Norður- Evrópumótinu á Írlandi í haust varð hún í 4. sæti í fjölþraut með 50,95 stig. Í úrslitum náði hún svo þeim frábæra árangri að sigra á tvíslá og náði Norður-Evrópumeistaratitli og varð í 3. sæti í gólfæfingum. Irena varð einnig bikarmeistari með liði Ármanns og var lykilmanneskja í liðinu. Á Meistaramóti FSÍ sigraði hún í æfingum á slá og gólfi.Á heimsmeistaramótinu sem haldið var í október í Glasgow hlaut Irina 50,398 stig í fjölþraut og náði þannig þeim einstaka árangri að tryggja Íslandi sæti í undankeppni Ólympíuleikanna á næsta ári. Þetta er sögulegur árangur og er hún fyrst íslenskra fimleikakvenna að ná þeim árangri. Irina sýndi á árinu að hún er besta fimleikakona Íslands í fjölþraut og er íþróttakona á heimsmælikvarða. Með árangri sínum hefur hún komið íslenskum fimleikum á nýjan stað á alþjóðlegum vettvangi. Árangur hennar veitir fimleikafólki mikla hvatningu og er þeim góð fyrirmynd.

Fimleikamaður ársins

Valgarð Reinhardsson

Fimleikamaður ársinsValgarð er Íslandsmeistari í fjölþraut 2015, ásamt því að vinna titilinn á gólfi og á tvíslá. Hann hefur tekið miklum framförum undanfarið ár og náði þeim frábæra árangri að verða í 3. sæti á Elite Canada fyrr á árinu, en á það mót er einungis bestu fimleikamönnum Kanada boðin þátttaka. Á Smáþjóðaleikunum stóð hann sig best íslensku karlkeppendanna. Hann varð þriðji í fjölþraut og komst í úrslit á fimm áhöldum af sex þar sem hann vann til silfurverðlauna á gólfi, stökki og tvíslá. Valgarð keppti á Evrópuleikunum í Baku, þar stóð hann sig vel í fjölþrautarkeppninni en mótið var góður undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið í Glasgow sem fram fór í október. Því miður meiddist Valgarð í aðdraganda heimsmeistaramótsins og tók því ekki þátt á mótinu. Hann hefur með eljusemi og dugnaði unnið sig vel úr þeim áskorunum sem hann stóð frammi fyrir í lok árs og er farinn að æfa af fullum krafti á ný, hefur sett sér ný markmið og stefnir hátt á næsta ári.

Glímukona ársins

Eva Dögg Jóhannsdóttir

Glímukona ársinsEva Dögg er 20 ára gömul og átti góðu gengi að fagna á glímuvellinum árið 2015. Eva tók þátt í nánast öllum glímumótum á árinu 2015 en helsta afrek hennar var þegar hún sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Freyjumenið í fyrsta sinn. Eva keppti einnig á alþjóðlegum mótum í keltneskum fangbrögðum þar sem hún var ávallt í verðlaunasæti og varð meðal annars skoskur meistari í backhold. Eva Dögg er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan.

Glímumaður ársins

Sindri Freyr Jónsson

Glímumaður ársinsSindri er 25 ára gamall og hefur stundað glímu í um 15 ár. Sindri var mjög sigursæll á árinu en helsta afrek hans var þegar hann sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Grettisbeltið í fyrsta sinn. Sindri var einnig eini glímumaður landsins sem tapaði ekki glímu á árinu. Sindri hefur verið einn fremsti glímumaður Íslands undanfarin ár. Hann glímir vel og er góð fyrirmynd jafnt innan sem utan vallar.

Kylfingur ársins

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir

Kylfingur ársinsÓlafía Þórunn náði frábærum árangri nú rétt fyrir jól þegar hún tryggði sér þátttökurétt í Evrópumótaröð kvenna, og mun því keppa meðal þeirra fremstu í heiminum á næsta ári. Hún lék frábært golf á árinu þar sem hún endaði tímabilið í 14. sæti. Ólafía Þórunn er glæsilegur fulltrúi íslenskra kylfinga á erlendum vettvangi og mjög góð fyrirmynd fyrir þann mikla fjölda ungra kylfinga sem keppa hér á landi.

Kylfingur ársins

Birgir Leifur Hafþórsson

Kylfingur ársinsBirgir Leifur hefur verið fremstur íslenskra kylfinga mörg undanfarin ár og sýndi að hann er enn í stöðugri framför. Hann náði góðum árangri á evrópsku áskorendamótaröðinni, þar sem besti árangur hans var 5. sæti. Birgir Leifur komst alla leið á lokastig úrtökumóta fyrir Evrópumótaröðina, en þó ekki hafi tekist að tryggja sér sæti þar, þá hefur hann fest sig í sessi í áskorendamótaröðinni. Birgir Leifur er öðrum íþróttamönnum mikil fyrirmynd hvað varðar elju og þrautseigju.

Handknattleikskona ársins

Íris Björk Símonardóttir

Handknattleikskona ársinsÍris Björk er 28 ára gömul. Hún er uppalin í Gróttu og hefur alla tíð leikið með félaginu ef frá eru talin tímabilin 2009-2012 er hún lék með Fram. Íris lék sinn fyrsta meistaraflokks leik með Gróttu-KR í september 2003. Íris hefur um árabil verið einn besti markvörður efstu deildar kvenna og hefur hún verið valin besti markvörður efstu deildar kvenna tímabilin 2010-2011, 2013-2014 og 2014-2015. Þá var hún valin efnilegasti leikmaður efstu deildar kvenna tímabilið 2005-2006.Íris var í lykilhlutverki í liði Gróttu sem fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli nú í vor ásamt því að Grótta varð einnig bikarmeistari í fyrsta sinn.Íris lék sinn fyrsta landsleik gegn Færeyjum 21. maí 2005 og lék alls 67 landsleiki ásamt því að skora fjögur mörk þar til hún lagði landsliðsskóna á hilluna sumarið 2014.

Handknattleiksmaður ársins

Guðjón Valur Sigurðsson

Handknattleiksmaður ársinsGuðjón Valur er 36 ára gamall. Hann er alinn upp í Gróttu og lék þar upp alla yngri flokka. Guðjón Valur spilaði með KA á Akureyri um tíma og varð Íslandsmeistari með þeim árið 2001, en hann fór í atvinnumennsku til Þýskalands það sumar. Í Þýskalandi spilaði hann með Essen og varð Evrópumeistari með þeim árið 2005, seinna það ár gekk hann til liðs við Gummersbach. Árið 2008 gekk hann til liðs við Rein-Neckar Löwen. Það var síðan tímabilið 2011-2012 sem hann söðlaði um og fór til Danmerkur og spilaði þar með AG Köbenhavn. Hann fór aftur til Þýskalands 2012 og gekk þá til liðs við Kiel. Hann varð Þýskalandsmeistari og þýskur bikarmeistari með Kiel 2013 og Þýskalandsmeistari 2014. Guðjón Valur gekk til liðs við Barcelona sumarið 2014. Með Barcelona varð hann Spánarmeistari í vor með fullt hús stiga ásamt því að sigra Meistaradeild Evrópu og verða spænskur bikarmeistari. Hann hefur um árabil verið einn af bestu vinstri hornamönnum heims. Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik 16. desember 1999 í Haarlem í Hollandi á móti Rúmeníu og skoraði þar tvö mörk. Þá hefur hann verið lykilmaður í landsliðinu um langt skeið. Guðjón Valur hefur leikið 316 A-landsleiki og skorað í þeim 1677 mark. Þá lék hann 14 leiki með yngri landsliðum og skoraði í þeim 23 mörk.

Íþróttakona fatlaðra

Thelma Björg Björnsdóttir

Íþróttakona fatlaðraThelma Björg keppir í fötlunarflokki S6-SB5. Staða hennar á heimslista í sínum flokki er 50 skrið 21/66 – 100 skrið 15/59 – 400 skrið 10/37 - 50 bak 9/14 – 100 bak 28/53 – 100 bringa 12/38. Þjálfari hennar í dag er Tomas Hajek. Á árinu 2015 setti Thelma alls 30 Íslandsmet, varð Norðurlandameistari í 400m skriðsundi og hafnaði í 5. sæti á heimsmeistaramótinu í Glasgow í 100m bringusundi. Thelma er aðeins önnur konan í sögunni til þess að vera útnefnd Íþróttakona fatlaðra þrisvar sinnum eða oftar. Hin er Kristín Rós Hákonardóttir sem hlaut nafnbótina alls 12 sinnum þegar hún vann 12 ár í röð!

Íþróttamaður fatlaðra

Helgi Sveinsson

Íþróttamaður fatlaðraHelgi keppir í flokki F42 og er hann í efsta sæti á heimslista í þeim flokki. Þjálfari hans í dag er Kári Jónsson. Helgi var ungur og efnilegur handknattleiksmaður en aflima þurfti vinstri fót ofan við hné á unglingsárum. Helgi tók þátt í sínu fyrsta stórmóti sumarið 2012 á Evrópumeistaramótinu í Hollandi og náði þar öðru sæti. Hann er í dag Evrópumeistari frá 2014 í Swansea, heimsmethafi og heimsmeistaramótsmetshafi í spjótkasti F42. Helgi vann til bronsverðlauna á árinu á HM í frjálsum sem fram fór í Doha í Katar þar sem keppt var í sameinuðum flokki F42, 43, og 44 en þannig verður málum háttað á Paralympics í Ríó De Janeiro 2016. Helgi kastaði yfir heimsmet Kínverjans Fu Yanlong í greininni 52,79m á fjórum mótum á árinu, 54,62m á JJ-móti Ármanns, 57,36 á kastmóti FH, 56,04m á Bislet í Osló og 55,18m á HM í Doha þar sem hann setti heimsmeistaramótsmet í flokki F42. Helgi á lengsta kast ársins í flokkunum þremur, 57,36m. Þetta er í annað sinn sem Helgi hlýtur titilinn Íþróttamaður fatlaðra.

Íshokkíkona ársins

Guðrún Marín Viðarsdóttir

Íshokkíkona ársinsGuðrún Marín er fædd 26. nóvember 1993 og hefur leikið íshokkí í sjö ár. Guðrún Marín varð í vor Íslandsmeismeistari með Skautafélagi Akureyrar og var það sjötti Íslandsmeistaratitillinn sem Guðrún hampar. Guðrún Marín hefur verið fastamaður í landsliði Íslands í íshokkí frá 2011 og lék stórt hlutverk með liðinu í 2. deild HM sem haldið var í Jaca á Spáni í mars síðastliðnum. Guðrún leikur um þessar mundir með Göteborg Hockey Club í Svíþjóð en áður hafði hún leikið með Lukko í Finnlandi keppnistímabilið 2012 – 13. Góð skautatækni ásamt góðum hraða og langskotum gerir Guðrúnu Marín að góðum alhliða íshokkíleikmanni.

Íshokkímaður ársins

Úlfar Jón Andrésson

Íshokkímaður ársinsÚlfar Jón er fæddur 2. apríl 1983 og er því 32 ára að aldri.Úlfar Jón hefur alla sína tíð búið í Hveragerði og sótt æfingar þaðan síðan hann hóf að æfa íshokkí sex ára að aldri með Skautafélagi Reykjavíkur. Undanfarin ár hefur Úlfar leikið með Birninum ásamt því að starfa að þjálfun yngri flokka fyrir félagið. Úlfar spilaði 42 unglingalandsleiki á sínum tíma. Sextán ára var Úlfar valinn í karlalandslið Íslands og hefur frá þeim tíma leikið 46 landsleiki, en síðast lék hann með landsliðinu í undankeppni Ólympíuleikanna í nóvember síðastliðnum. Úlfar hefur allan sinn leikferil verið þekktur fyrir baráttu sína og vinnusemi inn á ísnum ásamt því að vera góður liðsfélagi.

Skautakona ársins

Emilía Rós Ómarsdóttir

Skautakona ársinsEmilía Rós er á sínu fyrsta ári í unglingaflokki A (Junior). Hún byrjaði árið af krafti bæði á RIG og eins á Norðurlandamótinu í Noregi. Hún fylgdi eftir góðu gengi á NM og sló stigametið í stutta prógraminu á Vetrarmótinu sem og heildarstigametið í stúlknaflokki A. Á sínu síðasta móti í flokknum, Hamar Trophy, sem er mót innan Alþjóðaskautasambandsins (ISU), hafnaði hún svo í 2. sæti. Beðið var með eftirvæntingu að sjá hvernig Emilía Rós myndi standa sig í nýjum keppnisflokki nú í haust og hversu mikla pressu hún myndi setja á þær sem fyrir voru í unglingaflokki A. Emilía Rós gerði sér lítið fyrir og vann öll þrjú mótin í haust og var krýnd Bikar- og Íslandsmeistari í unglingaflokki A. Emilía Rós bætti stigametið í langa prógraminu á Bikarmótinu og fór yfir hinn langþráða 100 stiga múr á Íslandsmótinu, með 102.31 í heildarstig, en engum öðrum íslenskum skautara hefur tekist það hingað til. Emilía Rós er glæsilegur fulltrúi og góð fyrirmynd skautaíþróttarinnar.

Júdókona ársins

Hjördís Erna Ólafsdóttir

Júdókona ársinsHjördís Erna sem keppir í -70kg flokki var valin júdókona ársins 2015. Hún varð Íslandsmeistari -70 kg flokki og í öðru sæti í opnum flokki. Reykjavíkurmeistari, sigraði á Haustmóti JSÍ og Íslandsmeistari með félagi sínu í sveitakeppni JSÍ. Keppti á Smáþjóðaleikunum í 63kg flokki og hreppti silfrið með kvennasveit Íslands í liðakeppni leikanna. Helsti árangur 2015: Íslandsmeistaramót1. sætiÍslandsmeistaramót opinn flokkur2. sætiHaustmót JSÍ1. sætiSveitakeppni JSÍ1. sætiSmáþjóðaleikarnir 2015 (Liðakeppni)2. sætiReykjavíkurmeistaramót1. sæti

Júdómaður ársins

Þormóður Jónsson

Júdómaður ársinsÞormóður keppir í þungavigt (+100 kg) var valinn júdómaður ársins 2015. Hann keppti nokkuð víða um heim á árinu og er hér stiklað á því helsta. Hann vann gullverðlaun á Reykjavík Judo Open sem er alþjóðlegt mót sem haldið er árlega samhliða RIG, hann varð Norðurlandameistari í þungavigt, vann til bronsverðlauna á Continental Open í Glasgow, keppti um bronsverðlaunin á Oceania Open í Ástralíu en varð fimmti og hann komst í sextán manna úrslit á Grand Prix í Kóreu. Hér heima bar Þormóður höfuð og herðar yfir keppinauta sína og varð bæði Íslandsmeistari í þungavigt og í opnum flokki. Á heimslistanum er Þormóður núna í 72. sæti. Helsti árangur 2015: Reykjavík Judo Open1. sætiNorðurlandamót1. sætiContinental Open Glasgow3. sætiOceania Open Ástralía 4. sætiGrand Prix Jeju Kóreu 16. sætiÍslandsmeistaramót 1. sætiÍslandsmeistaramót opinn flokkur.1. sæti

Karatekona ársins

Svana Katla Þorsteinsdóttir

Karatekona ársinsSvana Katla er ein fremsta karatekona landsins, eins og sést á árangri hennar á árinu, tvöfaldur Íslandsmeistari og Bikarmeistari á sama árinu. Svana Katla hefur verið fastur meðlimur landsliðs Íslands í kata undanfarin ár og tekið þátt í fjölda móta erlendis. Hún er virkur keppandi á alþjóðlegum mótum, keppir ýmist í U21 árs flokki eða fullorðinsflokki og hefur unnið til verðlauna á Norðurlandameistaramóti frá 2011, m.a. Norðurlandameistaratitil í hópkata 2012. Svana Katla er núna í 54. sæti á heimslista Alþjóða Karatesambandsins (WKF) í kata kvenna U21, af 245 skráðum keppendum.Helstu afrek Svönu Kötlu á árinu 2015 voru:Íslandsmeistari í kata kvennaÍslandsmeistari í hópkata kvennaBikarmeistari kvenna 2015Brons í hópkata á Norðurlandameistaramóti9.-16. sæti í kata kvenna á Evrópumeistaramóti U21Brons í kata kvenna, á Reykjavik International Games (RIG)Þátttakandi á Heimsbikarmóti fullorðinna í kata kvenna.

Karatemaður ársins

Ólafur Engilbert Árnason

Karatemaður ársinsÓlafur Engilbert er vaxandi karatemaður sem er að stíga sín fyrstu skref í fullorðinsflokkum. Hann varð tvöfaldur Íslandsmeistari í kumite og vann m.a. opna flokkinn á sínu fyrsta ári sem hann hefur aldur til að keppa í honum. Ólafur er margfaldur Íslandsmeistari unglinga og hefur unnið sína flokka frá árinu 2010 ásamt því að vera bikarmeistari unglinga óslitið frá 2010. Ólafur hefur verið fastamaður í landsliðinu í karate síðustu ár, þrátt fyrir ungan aldur.Ólafur er í 99. sæti á heimslista Alþjóða Karatesambandsins (WKF) í kumite Junior -68kg, af 278 skráðum keppendum.Helstu afrek Ólafs Engilberts á árinu 2015 voru:Íslandsmeistari í kumite karla -75kgÍslandsmeistari í kumite karla, opinn flokkurRIG, 17. jan 3. sæti kumite junior karla -76kg9.-16. sæti í kumite karla junior -68kg á Evrópumeistaramót Junior/U21Bikarmeistaramót, 2. sæti í karlaflokkiBikarmeistari í kumite 16-17ára pilta

Körfuknattleikskona ársins

Helena Sverrisdóttir

Körfuknattleikskona ársinsHelena er körfuknattleikskona árins 2015 með fullt hús stiga. Þetta er í 11. sinn sem Helena er kjörin körfuknattleikskona ársins en hún hefur haldið þessum titli í 11 ár samfellt. Helena lék á fyrri hluta ársins með CCC Polkowise í Póllandi og samdi við Hauka fyrir upphaf þessa tímabils. Helena er lykilleikmaður og fyrirliði íslenska landsliðsins sem leikur í undankeppni EM kvenna um þessar mundir og eftir tvo leiki leiðir hún liðið í skoruðum stigum, fráköstum og stoðsendingum. Að auki leiðir hún Domino´s deildina hér í stoðsendingum og er efst Íslendinga í tölfræðiflokkunum fráköst, stig og framlag.

Körfuknattleiksmaður ársins

Jón Arnór Stefánsson

Körfuknattleiksmaður ársinsJón Arnór er körfuknattleiksmaður ársins 2015. Jón hefur hlotið nafnbótina alls 12 sinnum frá því að hann hlaut hana fyrst árið 2002. Jón Arnór skipti frá Unicaja Malaga í spænsku úrvalsdeildinni yfir til Valencia í sömu deild s.l. sumar, sem óhætt er að segja að sé besta deild Evrópu. Hefur lið Valencia verið eitt af stóru liðunum í deildinni undanfarin ár.Jón Arnór var lykilleikmaður íslenska landsliðsins þegar liðið tryggði sér þátttökurétt á EM í körfuknattleik, EuroBasket 2015, í fyrsta sinn á síðasta ári. Í ár var svo komið að stóru stundinni þegar íslenska liðið hélt til Berlínar og lék í B-riðli á mótinu gegn mörgum af sterkustu þjóðum álfunnar. Jón Arnór var lykilleikmaður liðsins og leiddi liðið í skoruðum stigum, stoðsendingum og var einn af betri leikmönnum liðsins. Að móti loknu gerði Jón Arnór samning eins og áður segir við Valencia og hefur spilað stórt hlutverk í jöfnu liði og var liðið taplaust í upphafi desembermánaðar í öllum keppnum, bæði í spænsku deildinni og Evrópukeppnninni og er liðið á toppi spænsku deildarinnar um þessar mundir.

Kvenkeilari ársins

Dagný Edda Þórisdóttir

Kvenkeilari ársinsHelstu afrek Dagnýjar Eddu á árinu 2015 eru þau að hún varð Íslandsmeistari para með Hafþóri Harðarsyni, hún varð Íslandsmeistari í tvímenningi með Ástrós Pétursdóttur og hún varð Reykjavíkurmeistari einstaklinga. Á árinu 2015 setti Dagný ný Íslandsmet í 2, 3 og 4 leikjum auk mets í tvímenningi kvenna með Ástrós Pétursdóttur. Um árabil hefur Dagný verið fyrirmynd ungra og efnilegra keilara.

Karlkeilari ársins

Hafþór Harðarson

Karlkeilari ársinsHelstu afrek Hafþórs á árinu 2015 eru að hann varð Íslandsmeistari, Reykjavíkurmeistari og Íslandsmeistari para ásamt Dagnýju Eddu Þórisdóttur. Hafþór varð í 69. sæti af 185 keppendum á Evrópumóti landsliða sem fram fór í Álaborg á árinu og í 20. sæti af 38 keppendum á Evrópumóti landsmeistara 2015. Í sumar tók Hafþór þátt fyrir Íslands hönd í Heimsbikarmóti skipulögðu af Japönum, en mótið var hluti af umsókn Japana um að keila verði keppnisgrein á Ólympíuleikunum í Tokyo 2020. Í mótinu í Japan hafnaði Hafþór í 17.-19. sæti einungis fjórum pinnum frá því að komast áfram en 16 efstu kepptu til úrslita. Hafþór sigraði í forkeppni AMF World Cup á Íslandi og í nóvember mánuði tók Hafþór, sem fulltrúi Íslands, þátt á AMF World Cup í Las Vegas og varð þar í 27. sæti af 86 keppendum. Við útgáfu á síðasta meðaltali Keilusambands Íslands kom í ljós að Hafþór er með næst hæsta meðaltal íslenskra karla 205,64 að meðaltali. Hafþór er góð fyrirmynd ungra keilara.

Knattspyrnukona ársins

Sara Björk Gunnarsdóttir

Knattspyrnukona ársinsSara Björk varð sænskur meistari í fjórða sinn á síðustu fimm árum með félagsliði sínu, Rosengård, eftir harða baráttu allt fram í lokaumferðina við Eskilstuna, og skoraði eitt marka síns liðs í lokaleiknum. Rosengård lék jafnframt til úrslita í sænsku bikarkeppninni, en beið þar lægri hlut. Sara er algjör lykilmaður í sínu félagsliði og á stóran þátt í því að liðið er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar kvenna. A landslið kvenna er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki í undankeppni EM 2017 og þar gegnir Sara Björk lykilhlutverki, bindur saman vörn og sókn liðsins, og er mikill leiðtogi á velli.

Knattspyrnumaður ársins

Gylfi Þór Sigurðsson

Knattspyrnumaður ársinsGylfi Þór var sem fyrr í stóru hlutverki hjá sínu félagsliði á árinu, Swansea, lék flesta leiki þess á síðasta keppnistímabili, skoraði 7 mörk og átti 10 stoðsendingar, þegar Swansea hafnaði í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Gylfi hefur leikið alla deildarleiki Swansea á yfirstandandi tímabili og skorað tvö mörk. Gylfi lauk undankeppni EM 2016 sem markahæsti leikmaður íslenska liðsins með sex mörk, í 11.-16. sæti yfir markahæstu leikmenn undankeppninnar og var lykilmaður í vörn og sókn íslenska liðsins, sem tryggði sér þátttökurétt í úrslitakeppni stórmóts í fyrsta sinn.

Knapi ársins

Guðmundur Friðrik Björgvinsson

Knapi ársinsGuðmundur Friðrik á að baki breiðan árangur á árinu sem er að líða og var tilnefndur til verðlauna í flokkunum kynbótaknapi ársins og íþróttaknapi ársins á Uppskeruhátíð hestamanna í nóvember. Hann var einnig valinn knapi ársins 2013.Hann virðist vera jafnvígur í öllum greinum hestamennskunnar, hvort sem það er gæðingakeppni, íþróttakeppni eða sýningar af ýmsum toga.Guðmundur varð Íslandsmeistari í fjórgangi á stóðhestinum Hrímni frá Ósi en stærsti sigur þeirra félaga á árinu var heimsmeistaratitill í fjórgangi á Heimsmeistaramótinu í Herning í ágúst. Að auki sigruðu þeir félagar fleiri mót hér heima og einnig náði Guðmundur frábærum árangri með aðra hesta á árinu. Hann sýndi fjölmörg kynbótahross á árinu og mörg þeirra til æðstu viðurkenninga í sínum flokki, eins og sex vetra hryssuna Garúnu frá Árbæ sem Guðmundur sýndi til gullverðlauna á heimsmeistaramótinu í Herning en Garún er jafnframt hæst dæmda sex vetra hryssan í heiminum í ár og hlaut 8,62 í aðaleinkunn. Guðmundur sýndi einnig næst hæstu fimm vetra hryssuna á heimsmeistaramótinu, Ríkey frá Flekkudal til silfurverðlauna og hlaut hún í aðaleinkunn 8,42.Guðmundur er fyrirmyndarknapi og íþróttamaður af lífi og sál, prúður innan vallar sem utan og frábær fyrirmynd ungra knapa. Hann er frábær liðsfélagi í landsliði Íslands í hestaíþróttum og á stóran þátt í samheldni og velgengni liðsins á HM2015. Hann er mikill fagmaður, kemur fram með vel þjálfaða og undirbúna hesta, fer afar vel á hesti, er jákvæður, sanngjarn og einbeittur reiðmaður og skipar sér í röð allra fremstu reiðmanna í heimi á íslenskum hestum.

Lyftingakona ársins

Þuríður Erla Helgadóttir

Lyftingakona ársinsÞuríður Erla varð stigahæst íslenskra kvenna á árinu þegar hún snaraði 81kg og jafnhenti 100kg í -58kg flokki á Heimsmeistaramótinu í lyftingum sem fram fór í Houston í Texas. Sá árangur tryggði henni einnig svokallaðan Elite pin Lyftingasambands Norðurlanda og er hún fyrst íslenskra kvenna og fjórði Íslendingurinn til að hljóta þann heiður. Hún varð einnig Norðurlandameistari í -58kg flokki. Stigahæsta konan á Íslandsmeistaramótinu 2015 og sigurvegari RIG 2015. Hún setti alls 14 Íslandsmet á árinu í -58kg og -63kg flokki kvenna og var með 249,72 Sinclair stig að meðaltali í þeim fjórum mótum sem hún keppti á.

Lyftingamaður ársins

Andri Gunnarsson

Lyftingamaður ársinsAndri er stigahæsti lyftingamaður ársins en sá árangur náðist á Íslandsmeistaramótinu 2015 þegar hann snaraði 150kg og jafnhenti 180kg í 105kg flokki. Það er þyngsta jafnhending og samanlagði árangur Íslendings undanfarin 10 ár.

Mótorhjóla- og snjósleðakona ársins

Gyða Dögg Heiðarsdótir

Mótorhjóla- og snjósleðakona ársinsGyða er Íslandsmeistari í motocrossi kvenna árið 2015 og sigraði allar keppnir í mótaröðinni með nokkrum yfirburðum. Gyða er ung að aldri en hefur æft stíft undanfarin ár og á framtíðina fyrir sér í íslensku motocrossi.

Mótorhjóla- og snjósleðamaður ársins

Ingvi Björn Birgisson

Mótorhjóla- og snjósleðamaður ársinsIngvi Björn hefur verið við keppni í Evrópu síðan í vor og tók þátt í yfir 20 stórmótum m.a. í Evrópumótaröðinni sem er afar sterk. Ingvi Björn er ungur keppnismaður og fyrirmynd - sú ástundun á sportið sem hann hefur lagt á sig síðastliðin þrjú ár er einsdæmi í íslenskri mótorsport sögu.

Siglingakona ársins

Hulda Lilja Hannesdóttir

Siglingakona ársinsHulda Lilja hefur sýnt það og sannað að hún er ein besta siglingakona landsins. Hún hefur verið stigahæst íslenskra kvenna undanfarin ár auk þess að keppa fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótum. Hulda siglir á Laser Radial seglbát.

Siglingamaður ársins

Gunnar Geir Halldórsson

Siglingamaður ársinsGunnar Geir er margfaldur Íslandsmeistari í siglingum kjölbáta. Í ár mætti hann fílelfdur til keppni og gerði sér lítið fyrir og sigraði ásamt áhöfn sinni á Skegglu öll stigamót Siglingasambands Ísands og hlaut að launum Íslandsbikarinn. Að auki sýndi áhöfnin á Skegglu góða takta á Íslandsmeistaramóti kjölbáta undir stjórn Gunnars Geirs.

Kayakkona ársins

Björg Kjartansdóttir

Kayakkona ársinsBjörg varð í fyrsta sinn Íslandsmeistari i ferðabátaflokki 2015, eftir að hafa unnið allar keppnir sumarsins, fyrir utan eina keppni þar sem hún endaði í öðru sæti. Björg hefur stundað róður í nokkur ár en á undanförnum árum hefur hún lagt aukinn metnað í markvissar æfingar sem skilað hafa henni Íslandsmeistaratitli í ár.

Kayakmaður ársins

Ólafur Einarsson

Kayakmaður ársinsÓlafur er Íslandsmeistari karla í sjókayak 2015. Hann sigraði allar sjókayakkeppnir í ferðabátaflokki. Ólafur keppir á surfskíði sem er opinn kayak. Ólafur er sá einstaklingur sem hefur oftast allra orðið Íslandsmeistari í sjókayak.

Skíðakona ársins

María Guðmundsdóttir

Skíðakona ársinsÍ febrúar 2014 missti María af Ólympíuleikunum í Sochi er hún sleit krossband einungis nokkrum dögum fyrir brottför til Sochi og um sumarið 2014 tilkynnti María að hún væri búin að leggja skíðin á hilluna. Um síðastliðin áramót ákvað María að byrja aftur eftir vel heppnaða aðgerð og endurhæfingu. María byrjaði af krafti strax í janúar og vann meðal annars tvö alþjóðleg FIS mót í Svíþjóð og bætti punktastöðu sína á heimslistanum. Hápunktur vetrarins var án efa Heimsmeistaramótið sem fór fram í Vail í Bandaríkjunum, en þar gerði María sér lítið fyrir og endaði í 36. sæti í svigi. Á Skíðamóti Íslands varð María svo fjórfaldur Íslandsmeistari og vann allar greinar til að kóróna frábæran vetur og endurkomu.

Skíðamaður ársins

Einar Kristinn Kristgeirsson

Skíðamaður ársinsEinar Kristinn stóð sig vel á árinu, keppti á mörgum alþjóðlegum FIS mót víðsvegar um Evrópu. Í byrjun mars náði hann 2. sæti á svigmóti í Jolster í Noregi, ásamt því að vera nokkrum sinnum í einu af tíu efstu sætunum. Á Heimsmeistaramótinu stóð Einar sig frábærlega í undankeppninni í svigi þar sem hann endaði í 16. sæti. Á Skíðamóti Íslands varð hann svo fjórfaldur Íslandsmeistari er hann vann allar greinar á mótinu.

Skylmingakona ársins

Þorbjörg Ágústsdóttir

Skylmingakona ársinsÞorbjörg varð Norðurlandameistari kvenna í skylmingum með höggsverði árið 2015 í ellefta skiptið, sem er stórglæsilegur árangur! Þorbjörg stundar PhD nám í jarðeðlisfræði við Cambridge háskóla, (University of Cambridge) einum virtasta háskóla í heimi. Þorbjörg æfir í skylmingaklúbbi Cambridge háskóla (CUFC) þar sem hún er fyrirliði. Liðið er í efsta sæti liða í Bretlandi.

Skylmingamaður ársins

Ragnar Ingi Sigurðsson

Skylmingamaður ársinsRagnar Ingi varð Norðurlandameistari í liðakeppni. Hann varð einnig Íslandsmeistari í Opna flokknum og í liðakeppni á árinu. Ragnar Ingi hefur verið lykilmaður okkar í karlalandsliðinu síðustu 15 árin, auk þess að starfa sem landsliðsþjálfari.

Sundkona ársins

Eygló Ósk Gústafsdóttir

Sundkona ársinsEygló Ósk er tvítug að aldri. Hún komst í úrslit á HM50 í Kazan, setti fjögur Íslandsmet í 100m og 200m baksundi og eitt í boðsundi í 4x100m fjórsundi kvenna. Hún setti einnig tvö Norðurlandamet í 200m baksundi. Eygló átti einnig frábært Evrópumeistaramót í 25m laug nú í desember. Þar hafnaði hún tvisvar í 3. sæti og er það besti árangur sundkonu til þessa. Eygló Ósk setti einnig Íslandsmet í 100m og 200m baksundi á EM25. Hún er sem stendur í 27. sæti á heimslista FINA í 100m baksundi og í 8. sæti í 200m baksundi.Eygló Ósk hefur tryggt sér A-lágmark á ÓL 2016 í 100m og 200m baksundi. Íslandsmetin í einstaklingsgreinum eru orðin 51 og í boðsundum 36. Hún bætti við sjö Íslandsmeistaratitlum í ár og eru þeir þá orðnir 72 talsins.

Sundmaður ársins

Anbton Sveinn Mckee

Sundmaður ársinsAnton Sveinn er 22 ára. Hann stóð sig vel á HM50 í Kazan og komst í undanúrslit í 200m bringusundi þar sem hann endaði í 13. sæti. Hann setti tvö Íslandsmet í 100m og 200m bringusundi. Anton Sveinn er sem stendur númer 24 á heimslista FINA í 200m bringusundi og númer 3 í 100m bringusundi. Anton Sveinn stóð sig einnig afar vel á Smáþjóðaleikunum á Íslandi í júní sl. Hann hefur tryggt sér A-lágmark á ÓL 2016 í 100m og 200m bringusundi.

Skotíþróttakona ársins

Jórunn Harðardóttir

Skotíþróttakona ársinsJórunn er landsliðskona í riffli og skammbyssu.Jórunn jafnaði Íslandsmetið í loftskammbyssu og setti einnig nýtt Íslandsmet í loftskammbyssu með final. Hún varð Íslandsmeistari í 50m liggjandi riffli, þríþraut með riffli og í loftskammbyssu. Hún vann til silfurverðlauna í loftskammbyssu á Smáþjóðaleikunum í Reykjavík og varð einnig í 5. sæti í loftriffli á sömu leikum. Hún varð í 34. sæti af 59 keppendum á Evrópumeistaramótinu í Hollandi. Jórunn er sem stendur í 107. sæti á Evrópulistanum en hún fór þar hæst í 75. sæti á árinu.

Skotíþróttamaður ársins

Ásgeir Sigurgeirsson

Skotíþróttamaður ársinsÁsgeir er landsliðsmaður í loftskammbyssu og frjálsri skammbyssu. Hann vann öll mót sem hann tók þátt í hérlendis en keppti auk þess víða erlendis. Hann komst í úrslit á fjórum stórmótum á árinu. Hann hlaut bronsverðlaun á Opna IWK mótinu í München í janúar, varð í 8. sæti á fyrri degi IWK mótsins í München, varð í 5. sæti á fyrstu Evrópuleikunum í Baku í Azerbaijan og varð einnig í 5. sæti af 85 keppendum á Heimsbikarmótinu í Changwon í Kóreu. Ásgeir er sem stendur í 25. sæti á heimslistanum en hann fór þar hæst í 13. sæti á árinu. Hann er í 12. sæti á Evrópulistanum en þar fór hann hæst í 5. sæti á árinu.

Taekwondokona ársins

Ingibjörg Erla Grétarsdóttir

Taekwondokona ársinsIngibjörg Erla hefur náð einstökum árangri á mótum erlendis á árinu en þó báru hæst silfurverðlaun hennar á gríðarlega sterku móti, Serbian Open, sem er hluti af stigamótaröð Alþjóða Taekwondosambandsins, WTF. Er þetta í fyrsta skipti sem Íslendingur vinnur til verðlauna á þessari mótaröð, en þar sem kemur saman sterkasta taewkondofólk heimsins hverju sinni. Önnur afrek Ingibjargar á árinu eru m.a. þau að hún varð Íslands- og Norðurlandameistari. Ingibjörg er okkar allra besta bardagakona í taekwondo um þessar mundir og mun hún keppa á lokaúrtökum fyrir Ólympíuleikana sem haldnar verða í Tyrklandi um miðjan janúar.

Taekwondomaður ársins

Ágúst Kristinn Eðvarðsson

Taekwondomaður ársinsÁgúst Kristinn hefur sannað sig sem einn allra færasti taekwondomaður landsins þrátt fyrir ungan aldur. Ágúst er margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari, auk þess að vera ósigrandi á öðrum mótum innanlands undanfarin ár. Árið 2015 hreppti Ágúst bronsverðlaun á Evrópumóti ungmenna og var einungis hársbreidd frá því að fara í úrslit á þessu gríðarsterka móti. Er þetta í fyrsta sinn sem Íslendingur vinnur til verðlauna á Evrópumóti í ólympísku taekwondo. Ágúst keppti sl. sumar á heimsmeistaramóti ungmenna í S-Kóreu þar sem hann stóð sig mjög vel, sigraði sinn fyrsta bardaga en varð að játa sig sigraðan í þeim næsta. Árangur hans á heimsmeistaramótinu var sá næstbesti hjá Íslendingi á slíku móti.

Tenniskona ársins

Anna Soffía Grönholm

Tenniskona ársinsAnna Soffía vann Íslandsmót innan- og utanhúss á árinu í meistaraflokki kvenna bæði í einliða- og tvíliðaleik þrátt fyrir ungan aldur en hún er aðeins 16 ára. Anna Soffía er efst á stigalista TSÍ vegna ársins 2015. Hún stóð sig einnig mjög vel í flokki 16 ára og yngri í Evrópumótaröðinni á Íslandi þar sem hún komst í átta manna úrslit bæði í Wow Air Open og Capital Inn Reykjavík Open. Með þeim árangri komst hún í 851. sæti í 16 ára og yngri flokknum í Evrópu. Hún sigraði líka nýlega á Hillerød Head Cup í Kaupmannahöfn sem er sterkt mót í meistaraflokki kvenna. Anna Soffía stefnir á að verða fyrsta íslenska tennisstúlkan til að komast inn á heimslista alþjóða tennissambandsins (ITF) 18 ára og yngri á næstu tveimur árum.

Tennismaður ársins

Rafn Kumar Bonifacius

Tennismaður ársinsSnemma árs sigraði Rafn Kumar Meistaramót TSÍ í meistaraflokki. Hann vann Íslandsmót innan- og utanhúss á árinu í meistaraflokki, bæði í einliða- og tvíliðaleik. Hann spilaði fyrir hönd Íslands á Davis Cup (Heimsmeistaramóti landsliða) í júlí og vann þar tvo leiki. Með góðum árangri á árinu tryggði hann sér sigur sem stigameistari TSÍ og einnig er hann efstur á stigalista TSÍ. Rafn Kumar hefur verið ósigraður hérlendis síðan í ágúst 2014. Hann stefnir á að taka þátt á mótaröð atvinnumanna frá febrúar 2016 og að vera á meðal 500 bestu spilara heims í lok árs 2018.

Hjólreiðakona ársins

Björk Kristjánsdóttir

Hjólreiðakona ársinsBjörk var afar sigursæl á árinu sem er að líða. Þrátt fyrir harða samkeppni hampaði hún Íslandsmeistaratitli í götu-, fjalla- og cyclocrosshjólreiðum. Jafnframt varð hún bikarmeistari í fjalla- og götuhjólreiðum.

Hjólreiðamaður ársins

Ingvar Ómarsson

Hjólreiðamaður ársinsIngvar á glæsilegt ár að baki. Hann varð Íslandsmeistari í götu-, fjalla og cyclocrosshjólreiðum auk þess að verða bikarmeistari í götu- og fjallahjólreiðum með fullt hús stiga. Einnig tók Ingvar þátt í alþjóðlegum mótum erlendis (USA og Evrópu) í fjallahjólreiðum, þar sem hann stóð sig með miklum ágætum.

Kraftlyftingakona ársins

Fanney Hauksdóttir

Kraftlyftingakona ársinsFanney er fædd 1992. Hún hefur sérhæft sig í bekkpressu og er þriðja á heimslista í bekkpressu í sínum þyngdarflokki. Helstu afrek 2015: EM í bekkpressu í opnum flokki: 1. sæti og Evrópumeistaratitill í -63 kg flokkiHM ungmenna í bekkpressu: 1. sæti og Heimsmeistaratitill í -63 kg flokkiHM ungmenna í bekkpressu: stigahæsti keppandi í kvennaflokkiÍM í bekkpressu: Íslandsmeistari í -63 kg flokki stigahæst í kvennaflokkiFanney hefur tvíbætt heimsmet ungmenna í -63 kg flokki á árinu og sett Norðurlandamet ungmenna í klassískri bekkpressu í flokknum.

Kraftlyftingamaður ársins

Viktor Samúelsson

Kraftlyftingamaður ársinsViktor er fæddur 1993. Hann á mjög gott keppnistímabil að baki þar sem hann hefur bætt árangur sinn verulega. Hann er stigahæsti kraftlyftingamaður landsins á árinu og hefur sigrað á öllum mótum sem hann hefur tekið þátt í innanlands. Viktor vann til verðlauna á EM og HM ungmenna og hefur sett Norðurlandamet ungmenna á árinu, en auk þess hefur hann sett mörg Íslandsmet í opnum flokki og flokki ungmenna á árinu. Helstu afrek 2015:HM ungmenna -120,0 kg flokki: 3. sæti og bronsverðlaun samanlagt HM ungmenna -120,0 kg flokki: 3. sæti og bronsverðlaun í bekkpressu EM ungmenna -120,0 kg flokki: 2. sæti og silfurverðlaun í bekkpressu.ÍM í kraftlyftingum: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokkiÍM í klassískum kraftlyftingum: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokkiÍM í bekkpressu: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokkiÍM í réttstöðulyftu: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokkiBikarmót KRAFT: bikarmeistari í karlaflokkiNorðurlandamet samanlagt í -120 kg flokki ungmennaÍslandsmet samanlagt í -120 kg opnum flokki. Íslandsmet í bekkpressu í -120 kg opnum flokki Íslandsmet samanlagt og í öllum greinum í klassískum kraftlyftingum -120 kg opnum flokki.

Kvenkrullari ársins

Svanfríður Sigurðardóttir

Kvenkrullari ársinsSvanfríður hefur gegnum tíðina leikið með fjölda liða og unnið hina ýmsu titla. Svana hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Skautafélagið og Krulludeildina og er ávallt reiðubúin til starfa fyrir félagið. Hún vinnur störf sín af vandvirkni, fórnfýsi og samviskusemi og er góður fulltrúi íþróttarinnar. Þetta er í þriðja sinn sem Svana hlýtur þann heiður að vera valin krullukona ársins en hún hlaut einnig titilinn árið 2008 og 2014.

Krullari ársins

Jón Rögnvaldsson

Krullari ársinsJón hefur í gegnum tíðina leikið með fjölda liða og unnið hina ýmsu titla.Jón er fyrirmyndar íþróttamaður, yfirvegaður, vandvirkur og samviskusamur. Hann leggur sig ávallt allan fram, bæði í leik og starfi fyrir félagið. Jón hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum, bæði fyrir Skautafélag Akureyrar og einnig Krulludeildina þar sem hann hefur unnið mikið og óeigingjarnt verk. Hann hefur verið duglegur að kynna íþróttina út á við og draga að nýja iðkendur.

Skvasskona ársins

Rósa Jónsdóttir

Skvasskona ársinsRósa er margfaldur Íslandsmeistari kvenna og vinnur öll skvassmót í kvennaflokki hér á landi. Hún spilar einnig í opnum flokki og stendur sig jafnan mjög vel á móti körlunum.Rósa er enn að bæta sig og myndi sóma sér vel í hvaða deild sem er í öðrum löndum.Rósa er til fyrirmyndar innan vallar sem utan.

Skvassmaður ársins

Gunnar Þórðarson

Skvassmaður ársinsGunnar hefur spilað mjög vel á árinu og er greinilega að uppskera fyrir þá vinnu og ástundun sem hann hefur lagt í íþróttina undanfarin ár. Gunnar hefur náð fyrsta eða öðru sæti í þeim mótum sem hann hefur tekið þátt í á árinu. Hann er stöðugt að bæta sig og verður skemmtilegt að fylgjast með honum á skvassvellinum á næstu árum.Gunnar er til fyrirmyndar innan vallar sem utan.

Þríþrautarkona ársins

Sarah Cushing

Þríþrautarkona ársinsSarah keppir fyrir Ægir3, þríþrautardeild Sundfélagsins Ægis og var afar sigursæl á árinu, vann þrjár af fjórum keppnum sem hún tók þátt í innanlands og varð þar með stigameistari í þríþraut. Sarah varð númer 38 (7. í aldursflokki) í Escape from Alcatraz þríþrautinni (California, US), númer fjögur í ITU Stockholm sprettþraut og númer 41 í sínum aldursflokki á ITU Olympic Distance heimsmeistaramóti í Chicago.

Þríþrautarmaður ársins

Hákon Hrafn Sigurðsson

Þríþrautarmaður ársinsHákon Hrafn keppti fyrir 3SH, þríþrautardeild Sundfélags Hafnarfjarðar og var afar sigursæll á árinu. Hann varð tvöfaldur Íslandsmeistari í þríþraut (ólympísk þraut og hálfur járnmaður). Íslandsmeistari í tímatökuhjólreiðum (time-trial). Hann varð stigameistari í þríþraut og tímatökuhjólreiðum. Hann bætti íslensk brautarmet í hálfum járnmanni (4:02:22) og hálf-ólympískri þríþraut (58:48).

Bogfimikona ársins

Helga Kolbrún Magnúsdóttir

Bogfimikona ársinsHelga hefur stundað bogfimi síðan 2013 og er fyrsta konan á Íslandi til að keppa með trissuboga. Helga setti fyrsta Íslandsmetið í trissubogaflokki kvenna 2013 og hefur síðan þá verið ósigraður Íslandsmeistari, bæði innan- og utanhúss. Helga hefur náð góðum árangri á erlendum mótum, þar má nefna 5. sæti á Heimsbikarmóti í nóvember síðastliðnum og stefnir hún langt í íþróttinni á næstu árum.

Bogfimimaður ársins

Sigurjón Atli Sigurðsson

Bogfimimaður ársinsSigurjón Atli byrjaði í bogfimi í ársbyrjun 2013 og hefur náð feiknagóðum árangri á skömmum tíma. Árið 2015 vann Sigurjón Íslandsmeistaratitil í bogfimi í ólympískum flokki innanhúss, einnig til gullverðlauna á RIG leikunum í bogfimi í ólympískum flokki. Þá tvíbætti hann sitt eigið Íslandsmet í bogfimi utandyra, í fyrra skiptið á Grand Prix móti á Grikklandi í maí og síðar á Evrópuleikunum í Baku í júní. Sigurjón stefnir hátt og er markið sett á að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í Ríó á næsta ári.
0067