Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Íþróttafólk sérsambanda 2014

Borðtenniskona ársins

Kolfinna Bergþóra Bjarnadóttir

Borðtenniskona ársinsKolfinna Bergþóra komst upp í meistarflokk á þessu ári 14 ára og byrjaði á þvi að vinna Reykjavik International. Hún var ósigrandi í sínum aldursflokki árinu, varð Íslandsmeistari í sínum aldursflokki jafnframt því að vera Íslandsmeistari í sínum fötlunarflokki en Kolfinna er einhent. Kolfinna er Grand Prix meistari árins en hún vann lokamót Grand Prix 2014. Hún fór með íslenska landsliðinu á HM í Japan árinu og lék með landsliðinu á Arctic Open i Færeyjum þar sem hún náði 3.-4. sæti, besta árangri íslenskra kvenna í einstaklingskeppninni. Kolfinna er vel að titlinum komin, hún er mikil keppnismanneskja sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.

Borðtennismaður ársins

Magnús K. Magnússon

Borðtennismaður ársinsMagnús var mjög sigursæll á borðtennismótum vetrarins á síðasta ári og bar höfuð og herðar yfir alla keppinauta. Hann vann öll styrkleikamót sem hann tók þátt í, Grand Prix mót og varð Íslandsmeistari í einliðaleik karla og í tvenndarkeppni með Lilju Rós Jóhannesdóttur. Magnús hefur verið fastamaður í íslenska borðtennislandsliðinu undanfarin ár. Magnús er vel að titlinum kominn en hann hlýtur hann nú annað árið í röð.

Badmintonmaður ársins

Kári Gunnarsson

Badmintonmaður ársinsKári varð á árinu Íslandsmeistari í einliðaleik þriðja árið í röð og í tvíliðaleik ásamt Atla Jóhannessyni. Kári er í A-landsliðinu í badminton. Hann keppti með landsliðinu fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni karlalandsliða í Sviss á árinu og í forkeppni Evrópukeppni landsliða á Íslandi í nóvember síðastliðnum. Hann átti þar mjög góða leiki og vann einliðaleik og tvíliðaleik sem hann lék í keppninni fyrir Íslands hönd. Kári er mikilvægur í landsliði Íslands í badminton og spilar jafnan fyrsta einliðaleik karla. Hann hefur verið í unglingalandsliðum Íslands á undanförnum árum og spilaði fyrst með A-landsliðinu árið 2010, þá aðeins 19 ára gamall. Kári stóð sig best allra íslensku keppendanna í einliðaleik karla á síðasta Iceland International móti en mótið gefur stig á heimslista og er innan mótaraðar Badminton Europe. Þar komst hann, einn íslensku leikmannanna beint inn í aðalkeppni einliðaleiks karla. Kári hefur á árinu keppt á alþjóðlegu móti í Wales og stefnir á að keppa á Alþjóðlega sænska mótinu í janúar.Kári er búsettur í Danmörku og spilar með Københavns Badminton Klub sem er í dönsku þriðju deildinni og er nú í öðru sæti riðilsins en þriðja deildin spilar í fjórum riðlum. Á árinu 2014 kom Kári landsins til að keppa á Meistaramóti TBR og TBR Opið og vann þau bæði auk þess sem hann keppti á Meistaramóti Íslands.

Badmintonkona ársins

Tinna Helgadóttir

Badmintonkona ársinsTinna varð þrefaldur Íslandsmeistari í badminton á árinu 2014, í einliðaleik og tvíliðaleik með Erlu Björgu Hafsteinsdóttur BH og í tvenndarleik með bróður sínum, Magnúsi Inga Helgasyni. Þetta er þriðji Íslandsmeistaratitill Tinnu í einliðaleik, en hún hampaði titlinum árin 2009, 2013 og 2014. Tinna og Erla Björg urðu einnig Íslandsmeistarar í tvíliðaleik árið 2009. Þá hefur Tinna hefur orðið sjö sinnum Íslandsmeistari í tvenndarleik, árið 2005, 2008-2011 og 2013-2014 og með þessum titli urðu þau systkinin sigursælasta parið í tvenndarleik á Íslandsmótum. Tinna varð líka þrefaldur Íslandsmeistari árið 2009 og er ein átján einstaklinga sem hefur náð þessum árangri. Tinna keppti á einu öðru móti á Íslandi á árinu, Meistaramóti TBR. Þar keppti hún í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik og vann allar greinar ásamt meðspilurum sínum. Tinna hefur spilað með danska liðinu Værløse á þessu ári. Hún spilar með Værløse 3 og hefur verið að spila með og á móti mörgum sterkustu badmintonspilurum heims en Værløse 3 spilar í dönsku annarri deildinni og er nú í fjórða sæti riðilsins en spilað er í tveimur riðlum í annarri deild.Tinna hefur keppt með landsliðinu fyrir Íslands hönd um árabil og keppti með landsliðinu fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni kvennalandsliða í Sviss á árinu. Þar vann hún einliðaleik gegn Clara Azurmendi frá Spáni og tvíliðaleik ásamt Snjólaugu Jóhannsdóttur.

Tennismaður ársins

Birkir Gunnarsson

Tennismaður ársinsBirkir átti góðu gengi að fagna árið 2014 og er kjörinn Tennismaður ársins þriðja árið í röð. Hann hóf árið með því að sigra á Meistaramóti TSÍ um áramótin síðustu. Þá fór hann til Graceland University í Iowa þar sem hann lék með háskólaliðinu líkt og hann gerði árið áður. Hann lék þar sem leikmaður nr. 1 fyrir hönd skólans á Amerísku NAIA háskóladeildinni. Hann lék 20 leiki fyrir hönd skólans og sigraði í 16 þeirra eða með 80% vinningshlutfall. Í tvíliðaleik lék hann 18 leiki með félaga sínum og sigruðu þeir í 15 þeirra. Í Mið-austur Ameríku var hann rankaður nr. 1 bæði í einliða- og tvíliðaleik og var að loknu tímabilinu valinn tennisleikari ársins bæði í einliða- og tvíliðaleik á svæðinu. Þá var hann valinn í lið ársins í NAIA háskóladeildinni (ITA All-American) og valinn besti tennisleikari Mið-austur deildarinnar (Male player of the year – Central East Region). Að loknu keppnistímabilinu var Birkir rankaður nr. 11 af 550 tennisleikurum deildarinnar. Þá varð Birkir Íslandsmeistari í tennis utanhúss, bæði í einliða- og tvíliðaleik síðasta sumar.Síðastliðið haust skipti Birkir yfir í Auburn University at Montgomery(AUM) í Alabama en skólinn er með gríðarlega sterkt lið og er 9-faldur NCAA meistari og rankaður nr. 3 í NCAA deildinni núna. Hann keppti fyrir skólann í einliðaleik í svæðiskeppni Suður Ameríku keppninni og endaði í 5-8 sæti af 64 keppendum.Birkir er stigahæstur á ITN styrkleikalista Tennissambands Íslands og stefnir að því að komast á ATP atvinnumannatúrinn í framtíðinni þar sem þeir bestu spila.

Tenniskona ársins

Hjördís Rósa Guðmundsdóttir

Tenniskona ársinsÞetta er í þriðja sinn sem hin 16 ára gamla Hjördís Rósa er kjörin Tenniskona ársins. Hún hefur átt góðu gengi að fagna á árinu og er tvöfaldur Íslandsmeistari utanhúss, bæði í einliða- og tvíliðaleik, í meistaraflokki kvenna. Auk þess varð hún Íslandsmeistari utanhúss í U-16 og U-18, bæði í einliða- og tvíliðaleik. Hún sigraði á Meistaramótinu 2014 í einliðaleik kvenna þar sem 8 bestu tenniskonur landsins etja kappi á móti hvor annarri. Auk þess sigraði hún þrjú af fjórum stórmótum Tennissambands Íslands á árinu. Hjördís Rósa keppti í fyrsta skipti fyrir landslið Íslands á heimsmeistaramóti Fed Cup og spilaði á móti Katrinu Sammut sem spilar númer 1 fyrir Möltu. Hjördís Rósa spilaði mjög vel og sigraði örugglega 6-3 og 6-3. Þetta var jafnframt fyrsti sigur Hjördísar í einliðaleik á Fed Cup. Í tvíliðaleiknum kepptu Hjördís Rósa og Anna Soffia Grönholm á móti Rosanne Dimech og Elaine Genovese sem spila númer 2 og 3 hjá Möltu. Malta vann 2-1. Hjördís Rósa keppti á Evrópumót U14 og U16 ára sem haldið var í Tennishöllinni í Kópavogi, hún sigraði Elisaveta Vaizova frá Rússlandi 6-2 6-4 í flokki 16 ára og yngri í fyrstu umferð. Hún tapaði svo 6-3 6-3 gegn Ekaterina Trashchenko, sterkum keppanda frá Eistlandi.

Blakmaður ársins

Hafsteinn Valdimarsson

Blakmaður ársinsHafsteinn varð danskur bikarmeistari og danskur landsmeistari með liði sínu Marienlyst í Danmörku í á árinu 2014. Hann spilaði með liði sínu í úrslitum Norður-Evrópukeppni félagsliða þar sem liðið endaði í 4. sæti. Hafsteinn hlaut flest stig í kosningu sem besti miðjumaðurinn í dönsku úrvalsdeildinni í blaki í vor og var því kjörinn í lið ársins í deildinni tímabilið 2013-2014.Hafsteinn var einn af burðarásum landsliðs Íslands í undankeppni EM Smáþjóða í vor sem fram fór í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Að auki hlaut hann bronsverðlaun Íslandsmótinu í strandblaki.Hafsteinn lék, ásamt bróður sínum Kristjáni, í landsliðinu í strandblaki sem tók þátt í undankeppni fyrir Ólympíuleikana í Portúgal í júní og í Danmörku í september. Sem fyrr er lið Hafsteins í toppbaráttu í dönsku úrvalsdeildinni og er lið hans komið áfram í undanúrslit í bikarkeppninni þetta leiktímabilið Hafsteinn Valdimarsson er fyrirmyndar blakmaður og æfir af kappi með liði sínu félagsliði. Þátttaka hans í landsliðum Íslands er til fyrirmyndar og hann á svo sannarlega framtíðina fyrir sér.

Blakkona ársins

Elísabet Einarsdóttir

Blakkona ársinsElísabet er bikarmeistari frá því í mars með liði sínu HK þar sem hún var í byrjunarliði og átti frábæra leiki í undanúrslitum og úrslitum. Hún var valin efnilegasti lei kmaður síðustu leiktíðar í úrvalsdeildinni í blaki. Elísabet var valin í A landslið Íslands vorið 2014 og spilaði sinn fyrsta A landsleik í byrjunarliðinu, þá aðeins 15 ára gömul, í undankeppni EM Smáþjóða í Laugardalshöll í Reykjavík. Í mótinu spilaði Elísabet mjög vel fyrir Ísland. Hún lék með U19 ára landsliði Íslands í blaki sem tók þátt í Norður-Evrópumóti í IKAST í Danmörku um miðjan október sl. Liðið endaði í 5. sæti mótsins af 6 þjóðum. Elísabet varð þrefaldur Íslandsmeistari í strandblaki: Fullorðinsflokkur, U19 ára flokkur og U17 ára flokkur. Hún spilaði með Berglindi Gígju Jónsdóttur í dönsku úrvalsdeildinni í strandblaki sumarið 2014. Þær tóku þátt í 10 mótum, unnu 2 mót og náðu bronsverðlaunum í 2 mótum. Elísabet og Berglind voru yngsta liðið til að vinna mót í dönsku úrvalsdeildinni. Elísabet var valin efnilegust í strandblaki af leikmönnum dönsku úrvalsdeildarinnar sumarið 2014 – „Årets rising star“. Elísabet lék fyrir Íslands hönd í tveimur landsliðum í strandblaki með Berglindi Gígju, í undankeppni fyrir Ólympíuleika sem fram fór í Portúgal í júní og í Odense í Danmörku í september. Þær tóku svo einnig þátt í Evrópukeppni U20 ára liða í riðli sem fram fór í Cesenatico á Ítalíu og enduðu í 17. sæti af 32 liðum. Þær tóku einnig þátt í Norður-Evrópu móti fullorðinna í lok ágúst þar sem þær enduðu í 9. sæti af 32 liðum. Elísabet er fyrirmyndar blakkona og stundar sína íþrótt af miklum metnaði. Hún æfir og spilar blak með HK í Kópavogi en þess utan æfir hún strandblak.

Kylfingur ársins

Birgir Leifur Hafþórsson

Kylfingur ársinsBirgir Leifur er Íslandsmeistari í höggleik karla og komst á lokaúrtökumótið fyrir Evrópsku mótaröðina. Hann hefur verið í fremstu röð íslenskra kylfinga um árabil og var eini íslenski kylfingurinn sem náði alla leið í lokaúrtökumótið fyrir Evrópsku mótaröðina.

Kylfingur ársins

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir

Kylfingur ársinsÓlafía Þórunn er Íslandsmeistari í höggleik kvenna og var lykilmaður í landsliði Íslands sem keppti á Heimsmeistaramótinu í Japan þar sem Ísland náði besta árangri kvennaliðs frá upphafi. Ólafía komst á lokaúrtökumótið fyrir Evrópsku mótaröð kvenna.

Skvassmaður ársins

Róbert Fannar Halldórsson

Skvassmaður ársinsRóbert er núverandi íslandsmeistari karla og hefur unnið öll mót sem hann hefur tekið þátt í hér á landi á árinu. Róbert er til fyrirmyndar innan sem utan vallar, og hefur lagt mikið á sig til að miðla reynslu sinni.

Skvasskona ársins

Rósa Jónsdóttir

Skvasskona ársinsRósa er núverandi Íslandsmeistari kvenna. Hún hefur unnið öll kvennamót hér á landi en hún spilar einnig í opnum flokki beggja kynja þar sem topp karlarnir þurfa að taka verulega á því til að vinna hana. Hún ber höfuð og herðar yfir aðrar skvasskonur hér á landi og myndi sóma sér vel í hvaða deild sem er í öðrum löndum.

Karlkeilari ársins

Hafþór Harðarson

Karlkeilari ársinsHelstu afrek Hafþórs á árinu 2014 eru að hann varð Íslandsmeistari Para ásamt Guðnýu Gunnarsdóttur. Hafþór varð í 2. sæti á Íslandsmóti einstaklinga og er efstur íslenskra keilara í allsherjarmeðaltali KLÍ. Hafþór tekur þátt í verkefni landsliðsins í Abu Dhabi nú í desember 2014. Hafþór hefur verið að taka þátt í mótum á Evrópumótaröðinni í keilu og hefur nælt sér í 40 stig á þeirri mótaröð. Hafþór er góð fyrirmynd ungra og efnilegra keilara.

Kvenkeilari ársins

Ástrós Pétursdóttir

Kvenkeilari ársinsHelstu afrek Ástrósar á árinu 2014 eru þau að hún varð Íslandsmeistari einstaklinga, hún varð í 2. sæti á Reykjavíkurmóti einstaklinga og í 2. sæti í Íslandmóti liða með liði sín ÍR-Buff. Hún keppti fyrir hönd Íslands á Evrópumóti einstaklinga, en mótið fór fram á Íslandi að þessu sinni og hafnað Ástrós í 22. sæti. Ástrós setti tvö íslandsmet á árinu í 7 leikjum þann 23.11. 1.467 og einnig í 9 leikjum. Um árabil hefur Ástrós verið fyrirmynd ungra og efnilegra keilara.

Dansarar ársins

Sigurður Már Atlason og Sara Rós Jakobsdóttir

Dansarar ársinsSigurður og Sara eru bæði fædd árið 1992 og hafa dansað saman síðan árið 2000. Þau unnu Íslandmeistaratitil í standard dönsum árið 2014 og fóru á tvö heimsmeistaramót á árinu. Á stigalista WDSF (Alþjóða dansíþróttasambandið) eru þau nr. 316 í latin og nr. 133 í 10 x dönsum.Á þessum mótum 2014 náðu þau eftirfarandi árangri:Íslandsmeistaramót í standard dönsum fullorðinna - 1. sæti.Íslandsmeistaramót í 10 x dönsum fullorðinna - 2. sæti. Íslandsmeistaramót í latin dönsum fullorðinna - 2. sæti.Bikarmeistarar í standard og latin dönsum fullorðinna.HM 10 x dansa sem haldið var í Riga í Lettlandi, hlutu 25. sæti. HM latin sem að haldið var í Ostrava í Tékklandi, hlutu 59. sæti. Sigurður og Sara eru góðar fyrirmyndir fyrir önnur danspör, hvort sem er við þjálfun eða ástundun. Þau eru sannarlega vel að tilnefningunni komin.

Handknattleiksmaður ársins

Guðjón Valur Sigurðsson

Handknattleiksmaður ársinsGuðjón Valur landsliðsfyrirliði er 35 ára, fæddur 8. ágúst 1979. Guðjón Valur er alinn upp í Gróttu og lék þar alla yngri flokkana. Guðjón Valur spilaði með KA á Akureyri um tíma og varð Íslandsmeistari með þeim árið 2001 en hann fór í atvinnumennsku til Þýskalands það sumar.Í Þýskalandi spilaði hann með Essen og varð Evrópumeistari með þeim árið 2005. Seinna það ár gekk hann til liðs við Gummersbach. Árið 2008 gekk hann til liðs við Rein-Neckar Löwen. Það var síðan tímabilið 2011-2012 sem hann söðlaði um og fór til Danmerkur og spilaði þar með AG Köbenhavn. Hann fór aftur til Þýskalands 2012 og gekk þá til liðs við Kiel. Hann varð Þýskalandsmeistari 2014. Guðjón Valur gekk til liðs við Barcelona núna í sumar. Hann er talinn vera einn af bestu vinstri hornamönnum heims.Guðjón Valur spilaði sinn fyrsta A-landsleik 16. desember 1999 í Haarlem í Hollandi á móti Rúmeníu og skoraði þar 2 mörk. Þá hefur hann verið lykilmaður í landsliðinu um langt skeið. Guðjón Valur hefur leikið 302 A-landsleiki og skorað í þeim 1595 mörk. Þá lék hann 14 leiki með yngri landsliðum og skoraði í þeim 23 mörk.

Handknattleikskona ársins

Karen Knútsdóttir

Handknattleikskona ársinsKaren, landsliðsfyrirliði, er 24 ára, fædd 4. febrúar 1990. Karen kemur frá Fram og fer þaðan til Þýskalands í atvinnumennsku árið 2011 er hún gekk til liðs við HSG Blomberg-Lippe. Karen lék í Þýskalandi í 2 ár áður en hún gekk í raðir Sonderjyske í Danmörku sumarið 2013. Karen lék í eitt ár þar en nú í sumar gekk hún í raðir Nice í Frakklandi. Karen hefur verið lykilleikmaður í íslenska kvennalandsliðinu um nokkurt skeið. Hún tók þátt þegar íslenska liðið spilaði sitt fyrsta stórmót á EM í Danmörku 2010, og síðan á HM í Brasilíu 2011 og EM í Serbíu 2012. Karen leikur stöðu leikstjórnanda. Karen spilaði sinn fyrsta A-landsleik 7. júní 2008 gegn Rúmeníu. Karen hefur spilað 70 A-landsleiki og skorað í þeim 245 mörk. Þá á hún 38 landsleiki með yngri landsliðum og skoraði þar 158 mörk.

Mótorhjóla- og snjósleðamaður ársins

Eyþór Reynisson

Mótorhjóla- og snjósleðamaður ársinsEyþór er 21 árs, hann hefur verið keppandi í fremstu röð í mörg ár og hafði hann þó nokkra yfirburði í Moto-Crossinu í sumar en þar stóð hann uppi sem Íslandsmeistari í MX opnum flokki og einnig í MX-2 flokki.

Mótorhjóla- og snjósleðakona ársins

Aníta Hauksdóttir

Mótorhjóla- og snjósleðakona ársinsAníta er 24 ára, hún hefur verið keppandi í Moto-Cross og Enduro í fjölda ára og náði frábærum árangri í sumar, vann fjögur af fimm mótum í Moto-Cross og stóð þar uppi sem Íslandsmeistari.

Kvenkrullari ársins

Svanfríður Sigurðardóttir

Kvenkrullari ársinsSvanfríður er leikmaður Freyja hjá Skautafélagi Akureyrar. Svana hefur stundað krullu lengst allra kvenna hér á landi og verið ötull liðsmaður. Svana hefur stýrt liði sínu Fífunum gegnum súrt og sætt á undanförnum árum og verið dugleg að koma með nýja kvenkyns iðkendur inn í lið sitt og hjálpa þeim að fóta sig á svellinu. Á árinu 2014 lék Svana með Freyjum sem voru eina liðið sem einungis var skipað konum.Svana hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Skautafélagið og Krulludeildina. Hún er ávallt reiðubúin til starfa fyrir félagið og vinnur störf sín af vandvirkni, fórnfýsi og samviskusemi. Þetta er í annað sinn sem Svana hlýtur þann heiður að vera valinn krullukona ársins en hún hlaut einnig titilinn árið 2008.

Krullari ársins

Davíð Valsson

Krullari ársinsDavíð leikmaður Ice Hunt frá Skautafélagi Akureyrar, varð efstur í kjöri um krullumann ársins 2014. Davíð hóf krulluferilinn af alvöru árið 2002 og hefur gegnum tíðina leikið með fjölda liða og unnið hina ýmsu titla m.a. Bikar- og Akureyrarmeistaratitil. Nú í ár varð Davíð Akureyrarmeistari 2014 með félögum sínum í Ice Hunt. Davíð hefur einnig reynt fyrir sér á mótum erlendis. Davíð Valsson er stjórnarmaður í Skautafélagi Akureyrar og einnig í Krulludeildinni þar sem hann hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf gegnum tíðina. Hann hefur verið duglegur að kynna íþróttina út á við og draga að nýja iðkendur.

Knapi ársins

Árni Björn Pálsson

Knapi ársinsÁrna Björn þarf vart að kynna í heimi hestamennskunnar hér heima sem og erlendis en árangur hans í hringvallargreinum, kappreiðum og kynbótasýningum var einstaklega góður á árinu. Stærstu sigrar Árna á árinu voru í tölti á Landsmóti hestamanna Hellu í sumar og á Íslandsmótinu í hestaíþróttum á stóðhestinum Stormi frá Herríðarhóli. Hann var samanlagður sigurvegari í Meistardeildinni í hestaíþróttum og náði mjög góðum árangri í A-flokki gæðinga og öllum skeiðgreinum á Landsmóti sem og á Íslandsmóti. Sýningar hans á Villingi frá Breiðholti og Erlu frá Halakoti á kynbótabrautinni á Landsmóti hestamanna í sumar voru einnig mjög eftirminnilegar. Árni Björn er íþróttamaður af lífi og sál og er til fyrirmyndar fyrir hestaíþróttina bæði innan vallar sem utan.

Skautakona ársins

Agnes Dís Brynjarsdóttir

Skautakona ársinsAgnes Dís keppir í listhlaupi á skautum fyrir hönd Skautafélags Bjarnarins og er á öðru ári í Unglingaflokki A (Junior).Agnes Dís hefur verið á góðri uppsveiflu undanfarin ár í keppnum bæði innanlands og erlendis. Hún byrjaði árið 2014 vel og varð í öðru sæti á RIG. Í kjölfarið tók hún þátt á ISU Dragon Trophy móti í Slóveníu og Norðurlandamótinu í Svíþjóð þar sem hún hafnaði í 17.sæti með 86.71 stig. Agnesi Dís gekk ekki sem skildi á fyrsta móti haustsins en sannaði það svo að hún er vel að titlinum komin á síðustu tveimur mótum ársins er hún varð bæði Bikar- og Íslandsmeistari í Unglingaflokki A. Að auki setti hún persónulegt met sem og að litlu munaði að hún bætti stigametið á nýliðnu Íslandsmóti með 97.20 stig.Agnes Dís er glæsilegur fulltrúi og góð fyrirmynd skautaíþróttarinnar.

Þríþrautarmaður ársins

Hákon Hrafn Sigurðsson

Þríþrautarmaður ársinsHákon Hrafn keppir fyrir 3SH og var afar sigursæll á árinu. Hann náði 6. sæti í Kölnarjárnmanninum og 1. sæti áhugamanna í þeirri alþjóðlegu keppni. Hann varð þrefaldur Íslandsmeistari í þríþraut (sprettþraut, ólympísk þraut og hálfur járnmaður). Íslandsmeistari í tímatökuhjólreiðum (time-trial). Hann varð stigameistari og var ósi graður í þríþraut og tímatökuhjólreiðum (time-trial). Hann bætti íslensk brautarmet í hálfum járnmanni (4:12:26), olympískri þríþraut (1:59:18), Kópavogssprettþraut (36:25) og Heiðmerkurtvíþraut (56:57)

Þríþrautarkona ársins

Birna Björnsdóttir

Þríþrautarkona ársinsBirna keppir fyrir 3SH og var afar sigursæl á árinu, vann 4 af 5 þríþrautarkeppnum sem hún tók þátt í og sigraði einnig Heiðmerkurtvíþraut. Hún varð stigameistari og tvöfaldur Íslandsmeistari í þríþraut (sprettþraut og ólympísk þraut). Hún varð einnig stigameistari og Íslandsmeistari í tímatökuhjólreiðum (time-trial).

Skíðamaður ársins

Sævar Birgisson

Skíðamaður ársinsSævar náði þeim frábæra árangri á árinu að keppa fyrir hönd Íslands á Ólympíuleikunum í Sochi og er það í fyrsta skipti í 20 ár sem Ísland á skíðagöngumann á Ólympíuleikum. Árangur Sævars á Ólympíuleikunum var mjög góður en hann varð í 72. sæti í sprettgöngu og 74. sæti í 15km göngu. Sævar keppti á alþjóðlegum mótum víða erlendis auk þess að æfa af kappi á Íslandi, Ítalíu, Noregi og Svíþjóð. Sævar náði sínum besta árangri á ferlinum á World Cup móti í Toblach á Ítalíu í janúar. Sævar varð þar í 69 sæti aðeins 12 sekúndum á eftir fyrsta manni og fékk fyrir það 92 FIS punkta en lágmarkið fyrir Ólympíuleikana var 120 FIS punktarSævar varð einnig fimmfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu en hann sigraði allar einstaklingsgreinar á Skíðamóti Íslands sem fram fór á Akureyri. Auk þess að verða Íslandsmeistari í 20km skíðagöngu karla sem fram fór fyrr um veturinn. Sævar varð einnig bikarmeistari SKÍ á síðasta tímabili.

Skíðakona ársins

Helga María Vilhjálmsdóttir

Skíðakona ársinsHelga María átti gott ár og bætti punktastöða sína í öllum greinum sem telst frábært, en upp úr stendur að hún náði mjög góðum mótum í stórsvigi. Helga náði 2. sæti á móti í Norefjell þar sem hún fékk 28,23 punkta og svo 13. sæti og 27,92 punkta á móti í Hemsedal. Helga æfði gríðarlega vel á árinu og tók miklum framförum.Hápunktur ársins hjá Helgu var auðvitað að keppa á Ólympíuleiknum í Sochi. Helga keppti í þremur greinum í Sochi þar sem hún varð í 29. sæti í risasvigi sem er góður árangur, 46. sæti í stórsvigi og 34. sæti í svigi.Helga síðan varð íslandsmeistari í stórsvigi og samhliðasvigi, einnig sigraði hún á Icelandair Cup mótaröðinni.

Hjólreiðamaður ársins

Ingvar Ómarsson

Hjólreiðamaður ársinsIngvar varð Íslandsmeistari bæði í fjalla- og götuhjólreiðum árið 2014 og stóð sig frábærlega í öllum keppnum sem hann tók þátt í á keppnistímabilinu. Þetta er í fyrsta skipti sem Ingvar er valinn hjólreiðakarl ársins og ásamt íslandsmeistaratitlunum varð hann einnig bikarmeistari í fjallahjólreiðum. Hann keppti einnig erlendis á tímabilinu og stóð sig frábærlega í þeim keppnum, en meðal annars sigraði hann eina keppnina. Ingvar hefur sýnt það í sumar að hann á mikla framtíð fyrir sér í íþróttinni og með mikilli eljusemi sýnt miklar framfarir.

Hjólreiðakona ársins

María Ögn Guðmundsdóttir

Hjólreiðakona ársinsMaría hefur um árabil verið ein helsta hjólreiðakona Íslands og náð frábærum árangri í að auka þátt kvenna í íþróttinni. Nú árið 2014 var María Ögn kosin hjólreiðakona ársins í fjórða sinn. Hún varð bikarmeistari bæði í götu- og fjallahjólreiðum 2014 og sigraði flestar keppnir sem hún tók þátt í á keppnistímabilinu í þessum greinum. María varð einnig Íslandsmeistari í báðum þessum greinum. María hefur sýnt það síðustu ár að hún er mikil íþróttakona og er sú kona sem hefur náð bestum árangri kvenna hér á landi.

Íshokkíkona ársins

Linda Brá Sveinsdóttir

Íshokkíkona ársinsLinda Brá er sóknarmaður og fyrirliði hjá Ásynju liðs Skautafélags Akureyrar. Hún er fædd 1. júlí 1990 og hóf að leika íshokkí haustið 2007. Hún er að leika núna sitt 8. tímabil. Sjö sinnum hefur Linda Brá hampað íslandsmeistara titli með félögum sínum í SA. Linda hefur í þrígang keppt fyrir íslands hönd á heimsmeistaramótum kvenna, 2011, 2012 og núna síðast i Reykjavík 2014 þar sem hún var með stigahæstu konum. Linda Brá er einstaklega jákvæð og ósérhlífin og dregur fram það besta í liðsfélögum sínum. Hún er frábær fyrirmynd allra íslenskra íhokkí- kvenna og stúlkna og er félagsliði sínu og landsliði ávallt til sóma hvort sem er á ísnum eða utan hans.

Íshokkímaður ársins

Björn Róbert Sigurðarson

Íshokkímaður ársinsBjörn Róbert er leikmaður Aberdeen Wings, sem leikur í NAHL deildinni í Ameríku. NAHL- deildin er elsta og stærsta unglingaliðsdeild í Bandaríkjunum, en alls leika í henni 24 lið í 4 riðlum. Björn Róbert fór vorið 2013 í til prufu í æfingarbúður og var þá sá eini af 80 strákum sem fékk samning við Aberdeen liðið. Björn Róbert dreymdi ungur um að spila íshokkí í Bandaríkjunum. Hann fór fyrst erlendis 14 ára gamall eftir að hafa leikið sína fyrstu meistaraflokki með Skautafélagi Reykjavíkur og þaðan lá leiðin til Svíþjóðar. Þar lék hann með U16 og U18 liðum Malmö Redhawks, nokkrum árum seinna með Hvidovre liðinu í 1.deildinni í Danmörku og í fyrra rætist draumur hans þegar hann gekk til liðs við Aberdeen Wings í Bandaríkjunum. Sl. tímabil lék hann 54 leiki með liðinu var með 38 stig, 13 mörk og 25 stoðsendingar. Björn Róbert hefur verið lykilmaður í öllum landsliðum Íslands síðstliðin ár. Á tímabilinu 2011-2012 lék hann með öllum landsliðum íslands U18, U20 og karlaliðinu. Björn Róbert spilaði sérlega vel í síðustu heimsmeistarakeppni í U20 og var eftir það mót tilnefndur besti maður íslenska liðsins á mótinu. Björn Róbert komst ekki til þess að leika með karlaliðinu á síðasta ári vegna skuldbindinga sinna við Aberdeen Wings. Þetta er síðasta tímabil Björns Róberts með liðinu en hann stefnir að því að komast að hjá háskólaliði í Bandaríkjunum á næsta tímabili. Björn Róbert er einbeittur dugnaðarforkur sem er íslenskum drengjum góð fyrirmynd og hvatning. Hann er að feta leið sem margir töldu langt í að íslenskur íshokkí leikmaður gæti fetað.

Íþróttakona fatlaðra

Thelma Björg Björnsdóttir

Íþróttakona fatlaðraThelma Björg er nemi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og stundar sund með Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík. Á árinu 2014 setti Thelma Björg alls 43 Íslandsmet og vann til bronsverðlauna á Evrópumeistaramótinu í Eindhoven.



Íþróttamaður fatlaðra

Jón Margeir Sverrisson

Íþróttamaður fatlaðraJón Margeir er sundmaður úr Umf. Fjölni. Jón setti 10 Íslandsmet í 25 metra laug og sjö í 50 metra laug á árinu 2014. Árangur Jóns á árinu er einkar glæsilegur þar sem hann setti tvö ný heimsmet og fjögur Evrópumet.

Skylmingamaður ársins

Gunnar Egill Ágústsson

Skylmingamaður ársinsGunnar Egill varð Norðurlandameistari karla og í liðakeppni. Gunnar Egill varð einning Íslandsmeistari í Opna flokknum og í liðakeppni á árinu. Hann hefur verið lykilmaður okkar í karlalandsliðinu. Gunnar Egill varð í 8. sæti á Viking Cup, sterku heimsbikarmóti sem haldið var í Reykjavík í maí 2014.

Skylmingakona ársins

Þorbjörg Ágústsdóttir

Skylmingakona ársinsÞorbjörg varð Norðurlandameistari kvenna í skylmingum með höggsverði árið 2014 í tíunda skiptið, sem er stórglæsilegur árangur sem fáir íslenskir íþróttamenn ná. Þorbjörg stundar PhD nám í jarðeðlisfræði við Cambridge-háskóla (University of Cambridge) einum virtasta háskóli í heimi. Þorbjörg æfir í skylmingaklúbbi Cambridge háskóla (CUFC) þar sem hún er fyrirliði. Liðið er í efsta sæti liða í Bretlandi. Þorbjörg tók þátt í mörgum alþjóðlegum mótum í Bretlandi á árinu og var alltaf í einu af þremur efstu sætunum (1st British Sabre Open – 3. sæti, International Womens' Sabre – 2. sæti, 17th Hamlet Open Sabre – 2. sæti). Hún tryggði sér nýverið þátttöku á Evrópuleikunum í Baku, sem fara fram í júní á þessu ári.

Fimleikamaður ársins

Valgarð Reinhardsson

Fimleikamaður ársinsValgarð 18 ára fimleikamaður úr Gerplu, kom upp úr unglingaflokki á árinu og keppti á sínu fyrsta ári í karlaflokki með miklum glæsibrag. Valgarð stundar fimleika hjá fimleikafélaginu Alta í Kanada, en félagið var kosið besta fimleikafélagið í Kanada árið 2013. Á sínu fyrsta ári varð hann í 12. sæti á kanadíska meistaramótinu og í 11. sæti á Elite Canada, sem er mót þeirra bestu þar í landi og einungis þeir sem hljóta boð fá þátttökurétt.Valgarð toppaði svo gott gengi á árinu, þar sem hann náði einn lágmörkum í karlaflokki frá Íslandi, á Heimsmeistaramótið í Kína. Þar bætti hann um betur og náði sinni hæstu einkunn á árinu sem jafnframt er hæsta einkunn sem íslenskur fimleikamaður hefur náð í þessum Ólympíuhring.Með áframhaldandi vinnusemi og metnaði má ætla að þessi ungi afreksmaður sé til alls líklegur á næstu árum, við hvetjum alla til að fylgjast með Valgarð á vegferð sinni þar sem hann hefur sett sér að skrifa nýjan kafla í íslenka fimleikasögu á leið sinni á Ólympíuleikana í RÍÓ.

Fimleikakona ársins

Sif Pálsdóttir

Fimleikakona ársinsSif vann til silfurverðlauna á Evrópumótinu í hópfimleikum sem fram fór í glæsilegri umgjörð Fimleikasambandsins í október. Sif gegndi lykilhlutverki í kvennalandsliðinu bæði innan vallar sem utan. Sif sýndi mikla áræðni og einurð þegar hún vann sig upp úr erfiðum meiðslum sem hún lenti í á undirbúningstímabili mótsins og skilaði æfingum sínum frábærlega á öllum áhöldum. Hún var valin fyrirliði liðsins af liðsfélögum sínum og sinnti því hlutverki af strakri prýði.Sif hefur á undanförnum árum verið einn af máttarstólpum íslenska landsliðsins og unnið með því til tveggja gullverðlauna á Evrópumótum, enda ein reyndasta og sigursælasta fimleikakona landsins, í bæði áhalda-og hópfimleikum, frá upphafi.Á árinu varð hún einnig Íslands- og bikarmeistari félagsliða með kvennaliði Íþróttafélagsins Gerplu.Sif er frábær fyrirmynd, góður og traustur liðsmaður og algjör lykilmanneskja í íslenska landsliðinu.

Sundmaður ársins

Anton Sveinn Mckee

Sundmaður ársinsAnton Sveinn er 21 árs sundmaður úr Sundfélaginu Ægi en hann stundar nám í The University of Alabama í Bandaríkjunum og er á styrk vegna sundiðkunnar. Hann nýtur B-styrks Afrekssjóð ÍSÍ.Hann fékk 917 FINA stig fyrir 200m bringusund í Los Angeles í júlí á þessu ári. Hann synti ekki á ÍM50 né ÍM25, en meiðsli settu m.a. strik í reikninginn seinni hluta árs.Anton setti 3 Íslandsmet á árinu. Öll voru sett í 50m laug en þar bætti hann metið í 400m skriðsundi og tvíbætti metið í 200m bringusundi. Hann kemur inn á heimslista í 50m laug nr. 22 í 200m bringusundi en þar sem hann á ekki tíma í 25m laug á árinu á það ekki við að þessu sinni.Anton tók ekki þátt í landsliðsverkefni á árinu vegna aðstæðna í námi sínu og áðurnefndra meiðsla.Anton er gríðarlega metnaðarfullur og duglegur, hvort sem er í æfingum eða í keppni. Þetta sést helst í staðfestu hans í endurkomu til æfinga eftir meiðsli sem hann hlaut í haust. Hann mætir vel til æfinga og tekur leiðsögn, lagar sig einkar vel að aðstæðum, sýnir íþróttamannslega hegðun og er leiðtogi í hópnum.

Sundkona ársins

Eygló Ósk Gústafsdóttir

Sundkona ársinsEygló Ósk er 19 ára sundkona úr Sundfélaginu Ægi. Hún stundar nám í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og nýtur A-styrks Afrekssjóðs ÍSÍ.Hún fékk 862 FINA stig fyrir 200m baksund á Opna Danska meistaramótinu í mars á þessu. Þá hlaut hún 890 FINA stig fyrir 200m baksund á Íslandsmeistaramótinu í 25m laug í nóvember sl. Hún synti 4 greinar til úrslita á ÍM50 í apríl og sigraði 3 þeirra. Í þeirri fjórðu hafnaði hún í öðru sæti. Á ÍM25 í nóvember synti hún 6 einstaklingsgreinar og sigraði þær allar. Eygló setti 9 Íslandsmet á árinu og jafnaði 1. Í 50m laug bætti hún eigið met í 50, 100m og 200m baksundi. Í 25m laug bætti hún eigið met í 100m fjórsundi tvisvar, 200m fjórsundi, 200m baksundi og 100m baksundi tvisvar. Þá jafnaði hún metið í 50m baksundi.Hún er í 14. sæti á heimslista í 25m laug í 200m baksundi og í sömu grein í 28. sæti á heimslista í 50m laug. Þetta er töluverð bæting frá því í fyrra en þá var hún í 24. og 45. sæti í þessum greinum.Eygló Ósk tók þátt í HM25 í Doha, Qatar á þessu ári og stóð sig þar með prýði. Þar ber helst að nefna árangur hennar í 200m baksundi. Þar hafnaði hún í 10. sæti og er það einn besti árangur íslenskrar sundkonu á heimsmeistaramóti frá upphafi.Hún er reglusöm og dugleg við æfingar, fylgir leiðsögn og mætir vel. Eygló er góð fyrirmynd hvar sem hún kemur fyrir, við æfingar sem og keppni.

Knattspyrnumaður ársins

Gylfi Þór Sigurðsson

Knattspyrnumaður ársinsGylfi Þór var sem fyrr einn lykilmanna íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem hefur byrjað undankeppni EM frábærlega. Gylfi lék 6 landsleiki á árinu og skoraði í þeim fjögur mörk en öll mörkin voru í undankeppni EM. Hann skoraði gegn Tyrkjum hér á Laugardalsvelli, gegn Lettum ytra og loks tvö mörk í glæstum sigri gegn Hollandi í Laugardalnum. Hann hefur nú leikið 28 landsleiki og skorað í þeim 9 mörk. Gylfi lék með Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en var seldur til Swansea í sumar þar sem hann gegnir lykilhlutverki. Hann hefur skorað 2 mörk í 16 leikjum í deildinni en hefur gefið flestar stoðsendingar allra í liðinu og er í öðru sæti yfir flestar stoðsendingar allra í ensku úrvalsdeildinni.

Knattspyrnukona ársins

Harpa Þorsteinsdóttir

Knattspyrnukona ársinsHarpa átti frábært keppnistímabil, líkt og síðasta ár. Hún var í fararbroddi Stjörnustúlkna sem vörðu Íslandsmeistaratitilinn á árinu með glæsibrag og bættu um betur og urðu einnig bikarmeistarar eftir sigur á Selfossi í úrslitaleik. Harpa varð markahæst í Pepsi-deild kvenna og skoraði 27 mörk í 18 leikjum. Hún gerði svo einnig fjögur mörk í bikarkeppninni. Harpa var einn af fjögurra leikmanna sem lék í öllum 12 landsleikjum Íslands á árinu og varð markahæst, ásamt Dagnýju Brynjarsdóttur, með 7 mörk.

Akstursíþróttamaður ársins

Baldur Haraldsson

Akstursíþróttamaður ársinsBaldur keppti fyrst í ísakstri hjá Bílaklúbbi Skagafjarðar veturinn 1990 – 1991.Baldur dró fram ökuhanskana að nýju fyrir aðeins 4 árum síðan og ákvað að keppa í 4x4 non turbo flokki. Þá hóf hann keppni með ágætisárangri. Baldur var að berjast um sigur í sínum flokk á síðasta ári en missti reyndar af möguleikanum í lok ársins. Baldur keyrði gríðarlega hratt og af miklu öryggi í sumar og stendur uppi sem Íslandsmeistari í ralli 2014. Þessum árangri hefur hann náð með 4 ára vinnu þar sem hann hefur með markvissum hætti bætt árangur sinn og stefnt að settu markmiði. Athygli vekur að í öllum þessum keppnum hefur hann lokið keppni og staðið í endamarki með óskemmdan bíl, sem er sennilega einsdæmi í íslensku ralli.Baldur er einstakur vinur, félagi og íþróttamaður í sönnum skilningi þess orðs. Baldur nýtur hvarvetna virðingar fyrir framgöngu sína, samstarf og einstaka aksturshæfileika.

Akstursíþróttakona ársins

Ásta Sigurðardóttir

Akstursíþróttakona ársinsÁsta keppti í sínu fyrsta ralli nýorðin 16 ára og fagnaði sigri með bróður sínum, Daníel. Sú sigurganga hélt áfram hér heima en fljótlega fóru þau systkin að keppa í Bretlandi. Ásta varð tvöfaldur Íslandsmeistari í ralli sem aðstoðarökumaður 2006 og 2007. Árið 2009 vann Ásta meistaratitillinn í Evo challenge mótaröðinni sem er ein af virtustu mótaröðunum í ralli, næst á eftir WRC. Ásta hefur keppt sem aðstoðarökumaður af hörku í sumar. Eftir að keppnisbíllinn bilaði þrjár keppnir í röð sýndi Ásta hvað í henni býr með glæsilegum sigri í Rallý Reykjavík, sem er alþjóðlegt mót og sterkasta mót ársins í rally. Ásta var í 3-4 sæti í Íslandsmótinu 2014 sem aðstoðarökumaður.

Frjálsíþróttamaður ársins

Guðmundur Sverrisson

Frjálsíþróttamaður ársinsGuðmundur kastaði spjótinu lengst 78,29 m á Vormóti HSK 17. maí, sem er 5. besti árangur í spjótkasti frá upphafi.Guðmundur náði 4 af 5 bestu köstum sínum á árinu, aðeins árangur hans á MÍ 2013 er betri árangur (80,66 m sem er 3. besti árangur Íslendings í greininni). Hann er í 75. sæti á heimsafrekaskránni 2014 með þennan árangur.

Frjálsíþróttakona ársins

Aníta Hinriksdóttir

Frjálsíþróttakona ársinsBesti árangur Anítu í 800 m hlaupi innanhúss var 2:01,81 mín. á Reykjavík International Games 19. janúar 2014, sem er íslenskt met, Evrópumet 19 ára og yngri innanhúss og 13. besti árangur innanhúss í fyrra í kvennaflokki.Besti árangur utanhúss var 2:01,23 mín. á Young Diamon League móti í Zürich í Sviss 28. ágúst, 4. sæti á heimslista unglinga 2014, og 57. sæti í kvennaflokki.Komst í úrslit á HM 19 ára og yngri í Eugene í Oregon.

Skotíþróttakona ársins

Jórunn Harðardóttir

Skotíþróttakona ársinsJórunn er landsliðskona í riffli og skammbyssu.Jórunn bætti Íslandsmetið í 60 skotum liggjandi riffli á árinu.Hún varð Íslandsmeistari í 60 skota liggjandi riffli. Einnig varð hún Reykjavíkurmeistari í loftskammbyssu.Hún náði Ólympíulágmarki (MQS) í þremur greinum hérlendis á árinu, í loftskammbyssu 7 sinnum, í loftriffli 6 sinnum og í 60 skotum liggjandi riffli 2 sinnum.

Skotíþróttamaður ársins

Ásgeir Sigurgeirsson

Skotíþróttamaður ársinsÁsgeir er landsliðsmaður í loftskammbyssu og frjálsri skammbyssu. Hann vann öll mót sem hann tók þátt í hérlendis. Hann keppti víða erlendis á liðnu ári. Á Evrópumeistaramótinu í Moskvu í febrúar varð hann í 12. sæti í loftskammbyssu, á heimsbikarmótinu í Peking varð hann í 20. sæti í frjálsri skammbyssu og í 29. sæti í loftskammbyssu. Einnig sigraði hann tvíveigis á alþjóðamótinu InterShoot í Hollandi.Á heimsbikarmótinu í Munchen endaði hann í 23. sæti í frjálsri skammbyssu og í 37. sæti í loftskammbyssu. Hann hefur þegar tryggt sér sæti á fyrstu Evrópuleikunum sem haldnir verða í Baku í júní þar sem hann er í 24. sæti í frjálsri skammbyssu og í 28.sæti í loftskammbyssu á styrkleikalista Skotsambands Evrópu, en aðeins 30 bestu skotmenn Evrópu fá keppnisrétt á þeim.Ásgeir náði Ólympíulágmarki (MQS) í tveimur greinum árinu, í loftskammbyssu 15 sinnum og í frjálsri skammbyssu 6 sinnum.

Kayakmaður ársins

Eymundur Ingimundarson

Kayakmaður ársinsEymundur varð Íslandsmeistari á árinu í fyrsta sinn. Hann sigraði í ferðabátaflokki í öllum keppnum ársins. Eymundur er öflugur ræðari og setti til dæmis brautarmet í lengstu keppni ársins, hálfmaraþoninu og var þar á undan ræðurum á hraðskreiðari keppnisbátum.Eins og Klara er Eymundur mjög virkur og hjálpsamur klúbbmeðlimur, í félagsróðrum, ferðum, keppni og æfingum.

Kayakkona ársins

Klara Bjartmarz

Kayakkona ársinsKlara varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn á sjókayak árið 2014. Hún sigraði í ferðabátaflokki í tveimur keppnum af þremur á árinu og hafnaði í öðru sæti í þeirri þriðju. Klara er öflugur ræðari og hefur gaman að því að takast á við krefjandi aðstæður á sjó.Klara er einnig mjög virk í klúbbstarfinu og er formaður Kayakklúbbsins. Klara er vel að tilnefningu til Kayakkonu ársins 2014 komin.

Kraftlyftingamaður ársins

Júlían J. K. Jóhannsson

Kraftlyftingamaður ársinsJúlían er fæddur 1993 en er þrátt fyrir ungan aldur í 12.sæti á heimslista í sínum flokki. Hann á mjög gott keppnistímabil að baki þar sem hann hefur sýnt stöðugar framfarir og bætt Íslandsmetin í sínum flokki í öllum greinum. Júlían hefur náð eftirtektarverðum árangri á alþjóðamótum á árinu. Helstu afrek 2014:Evrópumót unglinga +120,0 kg flokki: 3. sæti og bronsverðlaun samanlagt. Evrópumót unglinga +120,0 kg flokki: 3. sæti og bronsverðlaun í hnébeygju.Heimsmeistaramót unglinga +120,0 kg flokki: 3. sæti og bronsverðlaun samanlagt.Heimsmeistaramót unglinga +120,0 kg flokki: 2. sæti og silfurverðlaun í réttstöðulyftu.

Kraftlyftingakona ársins

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir

Kraftlyftingakona ársinsRagnheiður er stigahæsta kona Íslands í kraftlyftingum á árinu. Ragnheiður er Íslandsmeistari í kraftlyftingum og í réttstöðulyftu og Norðurlandameistari í -57 kg flokki. Ragnheiður hefur bætt Íslandsmetin í öllum greinum í sínum flokki. Helstu afrek 2014: Norðurlandamót í kraftlyftingum -57,0 kg flokki: 1. sæti og gullverðlaunNorðurlandamót í kraftlyftingum: 3. sæti á stigum Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum -52,0 kg flokki: 1. sæti Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum: 1. sæti á stigumÍslandsmeistaramót í réttstöðulyftu – 57,0 kg flokki: 1. sæti Íslandsmeistaramót í réttstöðulyftu: 1. sæti á stigum

Lyftingamaður ársins

Andri Gunnarsson

Lyftingamaður ársinsÞetta í fyrsta sinn sem Andri hlýtur titilinn Lyftingamaður ársins. Andri vann bronsverðlaun í stigakeppninni á Smáþjóðleikunum í ólympískum lyftingum sem fram fóru í San Marino. Þar snaraði hann 143kg og jafnhenti 170kg eða samanlagt 313kg sem gáfu honum 326,8 Sinclair stig.

Lyftingakona ársins

Anna Hulda Ólafsdóttir

Lyftingakona ársinsAnna Hulda er stigahæsta lyftingakonan á árinu með 236,2 Sinclair stig sem hún náði þegar hún varð Norðurlandameistari í ólympískum lyftingum í -58kg flokki kvenna, fyrst íslenskra kvenna. Hún keppti einnig á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum á árinu og endaði í 14.sæti í -63kg flokki kvenna. Hún setti 8 íslandsmet á árinu, eitt í -63kg flokki kvenna og sjö -58kg flokki kvenna.

Taekwondokona ársins

Ástrós Brynjarsdóttir

Taekwondokona ársinsÁstrós er ein efnilegasta taekwondokona heims og eini Íslendingurinn sem hefur keppt bæði á heimsmeistaramóti í bardaga og í formum á árinu, með eftirtektarverðum árangri, en greinarnar eru það ólíkar að það má líkja þeim við mismunandi greinar í frjálsum íþróttum. Á heimsmeistaramóti unglinga í bardaga í Tævan tapaði hún naumlega fyrir þeim keppanda sem stóð síðan uppi sem heimsmeistari á því móti. Á heimsmeistaramótinu í Mexicó í formum varð Ástrós í 10. sæti í afar fjölmennum flokki eftir að hafa slegið út m.a. ríkjandi Evrópumeistara. Á Norðurlandamótinu í maí varði Ástrós Norðurlandameistaratitilinn í bardaga með glæsibrag er hún sigraði bestu keppendur Noregs og Danmerkur með miklum mun, eða samtals með 33 stig skoruð gegn einungis 6 sem hún fékk á sig. Í tækni stóð hún sig einnig mjög vel en Ástrós var aðeins 0.05 í einkunn frá gullinu sem er ótrúlega lítill munur á henni og einum besta keppanda Evrópu í greininni og þurfti því að láta sér silfrið duga. Hún fékk einnig silfur í hópatækni. Á Reykjavík Interntional Games vann Ástrós til fjögurra gullverðlauna, sigraði í öllum greinum sem hún keppti í, og var ennfremur valin keppandi mótsins. Ástrós keppti á Íslandsmótinu í tækni og sigraði allar keppnisgreinarnar; einstaklings, hópa og paratækni. Ástrós er enn ósigruð á íslenskum vettvangi í tækni eftir yfir 35 framkomur. Hún var einnig valin keppandi mótsins á Íslandsmótinu. Þess utan er Ástrós margfaldur bikarmeistari bæði í bardaga og formum.Ástrós er einstaklega ákveðinn og einbeittur íþróttamaður sem hefur sýnt fram á mikinn vilja til að ná langt í sinni íþrótt. Hún tileinkar sér venjur marga bestu íþróttamanna heims og sættir sig ekki við neitt nema fyrsta flokks frammistöðu á öllum sviðum.

Taekwondomaður ársins

Meisam Rafiei

Taekwondomaður ársinsMeisam er vel að titilinum kominn. Hann er fæddur og uppalinn í Íran en fluttist til Íslands árið 2010 og hlaut íslenskan ríkisborgararétt árið 2012.Meisam hóf keppnisárið 2014 með því að keppa á stórum topp styrkleika mótum eins og Ameríska opna, Kanadíska opna og svo í Svíþjóð á Trelleborg Open þar sem hann náði 3. sæti. Með því náði hann sér í stig inn á heimslistann sem hann hafði ekki gert í 2 ár vegna meiðsla. Meisam keppti á nokkrum topp styrkleika mótum út árið og vakti umtalsverða athygli og náði að vinna sterka andstæðinga. Því miður náði hann ekki á verðlaunapall á þessum mótum þó að oft hafi munað mjög litlu enda er þessi flokkur með þeim erfiðari vegna fjölda keppenda. Meðal annars keppti hann á Evrópumeistaramótinu í Baku og lenti í 16. sæti eftir að hafa tapað fyrir keppanda frá Portugal sem síðan stóð uppi sem sigurvegari mótsins og er núna númer 1 á styrkleikalista heimssambandsins. Í október keppti Meisam á Serbneska opna, sem er topp styrkleika mót og endaði þar í 5-8 sæti af 29 keppendum. Þar var hann einnig sleginn út af sigurvegara mótsins, núna frá Mexikó og bardagi þeirra tapaðist með minnsta mun 7-8 fyrir Mexikóanum. Meisam keppti á Norðurlandamótnu í maí og sigraði þar sinn flokk með yfirburðum, og var áberandi sterkasti keppandi mótsins.Meisam var í nóvember einn af 8 íþróttamönnum til þess að hljóta styrk frá Ólympíusamhjálpinni til þess að reyna að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Rio 2016. Aðeins 16 keppendur úr öllum heiminum komast inn í Ólympíuleikana í hverjum þyngdarflokki. Sex efstu á heimslista komast beint til Ríó en 16 bestu keppendur Evrópu þurfa að keppa á sérstöku móti um 2 laus sæti til viðbótar. Meisam er sem stendur í 16.sæti Evrópulistans.

Karatemaður ársins

Kristján Helgi Carrasco

Karatemaður ársinsKristján Helgi hefur verið afburða karatemaður síðustu ár. Þetta er 5 árið í röð sem Kristján Helgi er valinn Karatemaður ársins. Kristján Helgi hefur vaxið sem karatemaður hvert ár og var árið 2014 engin undantekning. Kristján Helgi keppir aðallega í kumite, sem hann hefur einbeitt sér að síðustu ár en auk þess keppir Kristján Helgi einnig í kata hér á landi sem sýnir hversu fjölhæfur karatemaður hann er. Kristján Helgi er fjórfaldur Íslandsmeistari á þessu ári auk þess að vera Bikarmeistari karla, eini karlmaðurinn í sögu Karatesambandsins sem hefur afrekað að vera handhafi allra titla sem í boði eru á sama árinu. Kristján Helgi hefur verið fastur landsliðsmaður í karate síðustu ár og tók m.a. þátt í Evrópumeistaramóti U21 í febrúar og Evrópumeistaramóti fullorðinna í maí síðastliðnum.Helstu afrek Kristjáns Helga á árinu 2014 voru;1. Bikarmeistari karla 20142. Íslandsmeistari í kumite, opnum flokki3. Íslandsmeistari í kumite -75kg4. Íslandsmeistari í kumite, sveitakeppni karla5. Íslandsmeistari í kata karla6. Gull í -67kg flokki í kumite á Opna sænska meistaramótinuKristján Helgi er því verðugur fulltrúi karatehreyfingarinnar og mikil fyrirmynd fyrir ungt íþróttafólk.

Karatekona ársins

Telma Rut Frímannsdóttir

Karatekona ársinsAnnað árið í röð er Telma Rut valin karatekona ársins enda hefur hún verið fastur meðlimur landsliðs Íslands í kumite undanfarin ár og tekið þátt í fjölda móta á erlendis með góðum árangri. Fremst ber að telja árangur hennar á fyrsta Smáþjóðamótinu í karate sem haldið var í haust þar sem hún hafnaði í 2. sæti í opnum flokki. Að auki þá náði Telma mjög góðum árangri á Opna Sænska meistaramótinu þar sem hún lenti í 2. sæti í opnum flokki kvenna. Þá keppti Telma á Evrópumeistaramótinu í maí og á Heimsmeistaramótinu í nóvember þar sem hún endaði í 10-11. sæti í -68kg flokki. Á heimavelli hefur Telma verið ósigrandi enda er hún tvöfaldur Íslandsmeistari og bikarmeistari kvenna. Telma Rut er nú í 108. sæti á heimslista WKF yfir keppendur í kumite kvenna í -68 kg. flokki (af 298 skráðum keppendum).Helstu afrek Telmu Rutar á árinu 2014 voru;1. Íslandsmeistari í kumite, opnum flokki2. Íslandsmeistari í kumite, 61kg flokki3. Bikarmeistari kvenna 20144. Silfur í opnum flokki kvenna á Smáþjóðamóti í karate5. Silfur í opnum flokki kvenna á Opna sænska meistaramótinu6. Silfur í opnum flokki kvenna á RIG7. 10-11.sæti í kumite kvenna -68kg á HeimsmeistaramótiTelma Rut er því verðug fyrirmynd fyrir stúlkur í karateíþróttinni.

Siglingamaður ársins

Magnús Arason

Siglingamaður ársinsMagnús er seglastillari á seglskútunni Dögun úr Siglingafélagi Reykjavíkur–Brokey. Áhöfnin á Dögun náði í ár þeim merka áfanga að tryggja sér sinn sjöunda íslandsmeistaratitil í röð. Auk þess að vinna Íslandsbikarinn í bikarmótaröð Siglingasambands Íslands. Árangur Magnúsar og áhafnarinnar á Dögun er einstakur og því er hann vel að tilnefningunni kominn.

Siglingakona ársins

Hulda Lilja Hannesdóttir

Siglingakona ársinsHulda Lilja var hlutskörpust kvenna á Laser Radíal á síðasta Íslandsmeistaramót. Hún hefur í gegnum árin sýnt mikinn eldmóð, kraft og áhuga á íþrótt sinni sem meðal annars skilaði henni á Heimsmeistaramótið í siglingum sem haldið var í Santander á Spáni nú í haust. Hulda Lilja keppir fyrir hönd Brokeyjar - Siglingafélags Reykjavíkur.

Júdómaður ársins

Þormóður Jónsson

Júdómaður ársinsÞormóður sem keppir í þungavigt (+100 kg) var valinn Júdómaður ársins 2014. Hann lét mikið að sér kveða í ár eins og síðastliðin ár. Hann vann öll þau mót sem hann tók þátt í hér heima og varð einnig Íslandsmeistari með félagi sínu í sveitakeppni JSÍ. Hann tók þátt í fjórum alþjóðlegum mótum á árinu auk æfingabúða. Bestur árangur hans á árinu eru tvenn silfurverðlaun á Evrópubikarmótum í London og Helsingborg. Helsti árangur 2014: EC Seniors í London2. sætiEC Seniors í Helsingborg2. sætiEC Seniors í Tallinn16. sætiReykjavík Judo Open2. sætiÍslandsmeistaramót 1. sætiÍslandsmeistaramót Opinn fl.1. sætiÍslandsmeistaramót Sveitakeppni1. sæti

Júdókona ársins

Daníela Rut Daníelsdóttir

Júdókona ársinsDaníela Rut sem keppir í +78kg flokki var valin Júdókona ársins 2014. Hún var erlendis við júdóæfingar hluta ársins svo hún missti nokkrum mótum hér heima en þrátt fyrir það varð hún punktahæst júdókvenna þetta árið.Helsti árangur 2014:Íslandsmeistaramót1. sætiReykjavík Judo Open2. sæti

Glímumaður ársins

Pétur Eyþórsson

Glímumaður ársinsPétur er 36 ára gamall og hefur stundað glímu í yfir tuttugu ár. Pétur var sigursæll á árinu líkt og undanfarin á en helsta afrek hans var þegar hann sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Grettisbeltið í níunda sinn sem gerir hann að einum sigursælasta glímukappa Íslands frá upphafi. Pétur hefur ótvírætt verið fremsti glímumaður Íslands undanfarin ár. Hann glímir vel og er góð fyrirmynd jafnt innan vallar sem utan.

Glímukona ársins

Eva Dögg Jóhannsdóttir

Glímukona ársinsEva Dögg er 19 ára gömul og átti góðu gengi að fagna á glímuvellinum árið 2014. Eva tók þátt í öllum glímumótum á árinu 2014 og var ávallt í verðlaunasæti. Eva keppti einnig á Evrópumeistaramótinu í keltneskum fangbrögðum þar sem hún hlaut ein silfurverðlaun og tvö bronsverðlaun í -63 kg flokki. Eva sigraði svo einnig nokkur alþjóðleg mót á árinu og varð meðal annars skoskur meistari í backhold. Eva Dögg er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan.

Körfuknattleiksmaður ársins

Jón Arnór Stefánsson

Körfuknattleiksmaður ársinsJón Arnór hefur hlotið nafnbótina Körfuknattleiksmaður ársins alls 11 sinnum frá því að hann hlaut hana fyrst árið 2002. Jón Arnór skipti yfir frá CAI Zaragoza til Unicaja Malaga í spænsku úrvalsdeildinni, sem óhætt er að segja að sé besta deild Evrópu, og hefur lið Malaga verið eitt af stóru liðunum í deildinni undanfarin ár.Fyrrum lið Jóns Arnórs, CAI Zaragoza, lék í úrslitakeppninni í lok tímabilsins. Eftir tímabilið tóku við æfingar með landsliðinu en þar sem samningsmál Jóns voru ekki frágengin var útlit fyrir að hann myndi ekki leika með lansliðinu af þeim sökum. Þegar á hólmin var komið sýndi Jón Arnór hvar íslenska hjartað slær og tók þátt í seinni tveim leikjum liðsins. Óhætt er að segja að öðrum ólöstuðum að frammistaða hans fór langt með að senda íslenska landsliðið á lokamót Evrópukeppninnar í fyrsta sinn en gríðarlega mikilvægur sigur vannst á útivelli gegn Bretlandi þar sem hann var stigahæsti maður leiksins með 23 stig og gegn Bosníu hér heima í Laugardalshöll átti hann magnaða spretti, meðal annars skoraði hann fyrstu 12 stig Íslands, og með frammistöðu íslenska liðsins í heild náði það tilsettum markmiðum og komst áfram á lokamótið næsta haust.

Körfuknattleikskona ársins

Helena Sverrisdóttir

Körfuknattleikskona ársinsÞetta er í 10. sinn sem Helena er kjörin körfuknattleikskona ársins en hún hefur haldið þessu titli núna í 10 ár samfellt. Helena lék á fyrri hluta ársins með Miskolc frá Ungverjalandi.Miskolc endaði sem deildarmeistari í Ungverjalandi en datt út í undanúrslitum og endaði að lokum í fjórða sæti deildarinnar eftir lokaslag um bronsið. Helena var fyrirliði íslenska landsliðsins sem lék í evrópukeppni smáþjóða s.l. sumar þar sem Ísland lenti í öðru sæti. Töpuðu þær úrslitaleiknum gegn heimastúlkum í Austurríki. Þrátt fyrir tapið var Helena valin besti leikmaður mótsins. Eftir sumarið samdi hún við pólska liðið CCC Polkowice og hefur hún leikið þar við góðan orðstír núna í vetur.

Bogfimimaður ársins

Sigurjón Atli Sigurðsson

Bogfimimaður ársinsSigurjón Atli er fæddur 26. júlí 1972. Hann byrjaði í bogfimi í febrúar 2013 og hefur náð undraverðum árangri á stuttum tíma. Í janúar 2014 sigraði Sigurjón á Reykjavik International Games, í apríl Íslandsmótið innanhúss þar sem hann setti Íslandsmet (60 örvar innanhúss) og í júlí Íslandsmótið utanhúss. Í nóvember keppti Sigurjón svo á heimsbikarmóti Alþjóðabogfimisambandsins í Marokkó og setti þar þrjú Íslandsmet (30 örvar innanhúss, 60 örvar innanhúss (bætti eigið met), besti árangur í undankeppni á erlendu stórmóti (8. sæti)). Sigurjón er í karlalandsliðinu í Ólympískri bogfimi sem er að æfa fyrir Heimsmeistaramót Alþjóða-bogfimisambandsins í Danmörku næsta sumar. Þar er markið sett hátt - að öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Bogfimikona ársins

Helga Kolbrún Magnúsdóttir

Bogfimikona ársinsHelga Kolbrún er fædd 6. febrúar 1980. Hún byrjaði í bogfimi í janúar 2013 og heillaðist þá að trissuboganum. Helga Kolbrún er fjórfaldur Íslandsmeistari í innan og utandyra bogfimi. Hún er fyrsta íslenska konan sem keppt hefur á alþjóðlegu móti en hún hefur einu sinni keppt á heimsmeistaramóti og einu sinni á heimsbikarmóti með mjög góðum árangri. Hún keppti í Nimes í Frakklandi og í Marrakesh í Marokkó. Í Marokkó varð hún í fjórða sæti. Helga stefnir á heimsbikarmótin í Nimes og í Las Vegas og heimsmeistaramót í Kaupmannahöfn árið 2015.
0067