Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

11

Fjárstuðningur ríkisins við íþróttahreyfinguna vegna COVID-19

02.04.2020

Fram hefur komið, bæði í fréttum fjölmiðla og einnig í samtölum forystu ÍSÍ við mennta- og menningarmálaráðuneytið og ráðherra, að mennta- og menningarmálaráðherra áætlar að veita umtalsvert fjárframlag til íþróttahreyfingarinnar til að koma til móts við þann kostnað sem hreyfingin, bæði sambönd og félög/deildir, hefur orðið fyrir og mun verða fyrir vegna COVID-19 veirunnar. Frumvarpið var samþykkt 30. mars sl. en beðið er formlegra upplýsinga frá ráðuneytinu um upphæð fjárstyrksins sem renna mun til íþróttamála.

Aðferðarfræðin við dreifingu þessa fjárframlags liggur ekki ljós fyrir þessa stundina en framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur skipað þriggja manna vinnuhóp til að vinna tillögur að útfærslum. Guðrún Inga Sívertsen, fyrrverandi varaformaður KSÍ mun leiða hópinn og með henni verða Hörður Þorsteinsson formaður Badmintonfélags Hafnarfjarðar og fyrrverandi framkvæmdastjóri GSÍ og Sigurjón Pétursson varaforseti Alþjóðakraftlyftingasambandsins sem einnig er fyrrum formaður KRAFT og fyrrum varaformaður HSÍ. Öll búa þau yfir yfirgripsmikilli þekkingu á íþróttahreyfingunni. Einnig er gert ráð fyrir því að fulltrúar stjórna ÍSÍ og UMFÍ muni leggja vinnuhópnum lið eftir þörfum sem og aðrir þeir sem vinnuhópurinn telur þurfa koma að verki. Vinnuhópurinn hefur þegar hafið störf.

Áætlað er að vinna málin hratt um leið og fyrir liggur formleg tilkynning varðandi fjárframlagið frá ríkinu.Vonast er til að fjárstuðningur ríkisins við íþróttahreyfinguna og þau önnur úrræði sem þegar hafa verið boðuð, til dæmis varðandi rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli, muni hjálpa til í rekstri eininga innan vébanda ÍSÍ.