Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Íþróttavika Evrópu enn í fullum gangi

16.09.2015

Íþróttavika Evrópu er enn í fullum gangi og heldur áfram út september. Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Slagorð vikunnar er "BeActive" eða „Vertu virkur“ og með því er verið að hvetja alla Evrópubúa til að hreyfa sig án tillits til aldurs, bakgrunns eða líkamlegs forms.

Fyrsta Íþróttavika Evrópu var sett þann 7. september 2015 í Brussel. Allan septembermánuð hafa hinir ýmsu viðburðir í tengslum við vikuna farið fram um alla Evrópu og nóg er eftir. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur hlotið styrk frá Evrópusambandinu í gegnum Erasmus+ styrkjakerfi þeirra til verkefna sem munu tengjast vikunni, þ.e. Norræna skólahlaupið, Göngum í skólann og Hjólum í skólann.

Myllumerkið #BeActive er slagorð Íþróttaviku Evrópu. Slagorðinu er ætlað að opna augu almennings fyrir mikilvægi hreyfingar, að breiða út boðskapinn og fá alla Evrópubúa til að hreyfa sig. ÍSÍ hvetur fólk til að nota myllumerkið í tengslum við vikuna.

Leiðarljós vikunnar eru þrjú: 
• Upplýsa: Vekja athygli á jákvæðum áhrifum heilbrigðs lífsstíls.
• Hvetja: Sýna fólki hvernig hægt er að hreyfa sig og tileinka sér heilbrigðan lífsstíl.
• Aðstoða: Skapa tækifæri fyrir fólk til að hreyfa sig og vera virkt í hröðu umhverfi nútímans.

Nánari upplýsingar um Íþróttaviku Evrópu er að finna á heimasíðu Evrópusambandsins, http://ec.europa.eu/sport/week/

Göngum í skólann fer fram í níunda sinn dagana 9. september til 7. október 2015. Markmið verkefnisins eru að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða. Á síðasta ári tóku milljónir barna frá yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hefur þátttakan hér á landi vaxið jafnt og þétt í gegnum árin.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðu Göngum í skólann.

Hjólum í skólann – framhaldsskólakeppni fer fram í þriðja sinn dagana 9.-22. september 2015. Markmiðið er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.

Nánari leiðbeiningar um skráningu skóla/liða/ liðsmanna er að finna á vefsíðu Hjólum í skólann.

Fyrir nánari upplýsingar um verkefnin má hafa samband við verkefnastjóra Almenningsíþróttasviðs:

Hrönn Guðmundsdóttir
hronn@isi.is
514-4023