Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

23

ÍSÍ úthlutar afreksstyrkjum – Breyttar áherslur

30.01.2013

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands samþykkti, fimmtudaginn 24. janúar 2013,  tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ og Styrktarsjóðs ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna fyrir árið 2013. 

Styrkveitingar ÍSÍ að þessu sinni nema samtals rúmlega 81 milljónum króna en úthlutað er rúmlega  71 m.kr. úr Afrekssjóði ÍSÍ og 10 m.kr. úr Sjóði ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna (sjá nánar hér)

Til Afrekssjóðs ÍSÍ bárust umsóknir frá 23 sérsamböndum vegna 55 einstaklinga og vegna 28 verkefna/liða.  22 sérsambönd ÍSÍ hljóta styrk vegna verkefna 21 einstaklinga og 25 verkefna/liða. 

Fyrir 2013 eru töluverðar breytingar á listum þeirra sem hljóta A, B og C styrki sjóðsins og þeim fækkar er hljóta þessa styrki sjóðsins.  Alls eru 15 íþróttamenn skilgreindir á þeim styrkjum:  5 á A-styrk, 1 á B-styrk og 9 á C-styrk.  Þá eru 6 aðilar á eingreiðslustyrkjum sjóðsins.

Stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ hefur ákveðið að breyta áherslum í styrkveitingum fyrir árið 2013 þannig að ákveðin verkefni sérsambanda eru styrkt úr sjóðnum og á það jafnt við verkefni landsliða, hópa og einstaklinga.  Allir styrkir sjóðsins eru þannig veittir til sérsambanda ÍSÍ vegna ákveðinna verkefna sem sótt er um.  Styrkir sem voru áður skilgreindir á einstaklinga verða færri og hærri upphæð verður þannig veitt til sérsambanda til að ráðstafa í skilgreind verkefni.  Nánara fyrirkomulag þessa verður skilgreint í samningum sérsambanda við Afrekssjóð ÍSÍ.

Styrkupphæðir A, B og C styrkja, sem sérsamband hlýtur vegna einstaklinga eru hækkaðar.  A-styrkur fer þannig úr kr. 160 þúsund á mánuði í kr. 200 þúsund á mánuði, B-styrkur úr kr. 80 þúsund í kr. 120 þúsund á mánuði og C-styrkur úr kr. 40 þúsund í kr. 60 þúsund á mánuði.  Með þessum hækkunum er verið að breyta skilgreindum upphæðum sem hafa haldist óbreyttar til fjölda ára og ekki breyst í samræmi við vísutöluþróun.  Það ber að ítreka að styrkir sjóðsins eru fyrst og fremst vegna kostnaðar við þátttöku í mótum og keppnum og undirbúnings vegna þeirra.

Sjóðsstjórnin leggur líka áherslu á að efla þjónustu fagteymis og fræðslu fyrir íþróttamenn sérsambanda.  Þannig hljóta sérsambönd ÍSÍ 5 m.kr. sem skulu nýttar í fræðslu og fyrirbyggjandi þætti frá skilgreindu fagteymi sérsambands eða ÍSÍ.  Samhliða því eru sérsambönd hvött til þess að koma sér upp fagteymi sem skipað er fagaðilum á sviði læknisfræða, sjúkraþjálfunar, sálfræði, næringarfræði o.fl. fagstétta, sem sérþekkingu hafa á viðkomandi íþrótt.  Afrekssjóður mun einnig styrkja þjónustuþætti vegna þeirra íþróttamanna sem skilgreindir eru á A, B og C styrkjum sjóðsins og er með þessari úthlutun verið að efla þennan þátt íþróttastarfsins.  Þá verða haldnir fræðsluviðburðir á vegum sjóðsins þar sem fjölmennur hópur íþróttamanna sérsambanda og íþróttanefnda ÍSÍ mun fá boð um þátttöku sem og þjálfarar þeirra og landsliðsþjálfarar sérsambanda ÍSÍ.

Breytingar á áherslum Afrekssjóðs ÍSÍ ná einnig til Styrktarsjóðs ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna.  Þannig eru sérsambönd styrkt sérstaklega vegna fræðslu og fagteymisþátta á sama hátt og hjá Afrekssjóði ÍSÍ.  Styrkir til sérsambanda og íþróttanefnda ÍSÍ eru verkefnatengdir og styrkjum sem eru skilgreindir vegna einstaklinga er fækkað.  Á sama tíma er fjölgað í þeim hópi sem mun hafa aðgang að fræsluviðburðum sjóðsins og er ætlunin að efla þann þátt enn frekar á þessu ári.  Fjöldi styrkþega sjóðsins telur þann 70 einstaklinga sem munu njóta þessa þáttar sem og aðgengis að sérfræðingum í fagteymi ÍSÍ.

Þrátt fyrir að úthlutað sé að þessu sinni rúmlega 80 milljónum króna, sem er hækkun frá styrkjum undanfarinna ára (undantekning þó árið 2012) er enn langt í land að styrkir ÍSÍ standi undir afreksstarfi sérsambandanna.

Þegar skoðaðar eru umsóknir sérsambandanna í sjóði ÍSÍ, sést eftirfarandi:

-       Kostnaðaráætlanir þeirra 20 sérsambanda/séríþróttanefnda sem sóttu um styrk vegna íþróttamanna og verkefna til Afrekssjóðs ÍSÍ 2013 nema rúmlega 482 m.kr. Framlag Afrekssjóðs ÍSÍ til sérsambanda kr. 71,820 m.kr. nemur um 14,9% af kostnaðaráætlun þeirra vegna þessara verkefna.  Þess ber að geta að ekki er sótt um styrk vegna allra landsliðsverkefna sambanda. 

-       Kostnaðaráætlanir 19 sambandsaðila vegna umsókna í Sjóð ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna nam rúmlega 212 m.kr. Framlag sjóðsins að þessu sinni er 10 m.kr. eða um 4,7% af kostnaðaráætlunum. 

-       Þessi hlutföll af kostnaðaráætlunum eru nánast í sömu prósentutölu og í janúar 2012.

Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2013 hækkaði í 55 m.kr., en var árið 2012 34,7 m.kr. auk þess sem að sérstyrkur vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í London að upphæð 25 m.kr. var úthlutað til sérsambanda ÍSÍ í gegnum Afrekssjóð ÍSÍ.  Afrekssjóður ÍSÍ er annars fjármagnaður með hlutdeild úr tekjum íþróttahreyfingarinnar frá Íslenskri Getspá samkvæmt ákvörðun Íþróttaþings.

Auk styrkja Afrekssjóðs ÍSÍ og Styrktarsjóðs ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna mun íslenskt íþróttafólk njóta styrkja frá Ólympíusamhjálpinni á árinu.  Skíðasamband Íslands (SKÍ) mun hljóta styrki vegna fimm íslenska skíðamanna í tengslum við undirbúning þeirra fyrir Vetrarólympíuleikana í Sochi 2014.  Eru þetta þau: María Guðmundsdóttir, Brynjar Jökull Guðmundsson, Sævar Birgisson, Helga María Vilhjálmsdóttir og Einar Kristinn Kristgeirsson, en þau stefna ásamt fleirum á að vinna sér þátttökurétt á leikana sem fara fram í febrúar 2014.  Styrkur Ólympíusamhjálparinnar er áætlaður rúmar 19 m.kr. til SKÍ vegna þessa einstaklinga og verður hann kynntur nánar á næstunni, þegar gengið verður frá samningum vegna þessara styrkja.

Íslenskt afreksíþróttafólk eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir íslenska æsku og þjóðfélagið í heild sinni.  Þegar vel gengur styðja Íslendingar vel við sína fremstu íþróttamenn en þegar á móti blæs er stutt í gagnrýnisraddir.  Líkt og áður er mjög mikilvægt að hlúa enn betur að þessu fólki með því að gefa því tækifæri á að taka þátt í verðugum verkefnum og styðja við bakið á því með fræðslu og faglegri þekkingu.

Frekari styrkjum mun verða úthlutað á árinu 2013 og mun stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ fylgjast náið með framvindu og árangri á árinu.  Ljóst er að A-lið kvenna í knattspyrnu mun taka þátt í lokakeppni EM næsta sumar og er verið að skoða kostnaðarliði þess verkefnis.  Þá eru fjölmargir ungir og efnilegir íþróttamenn líklegir til afreka á árinu og er hlutverk afrekssjóða ÍSÍ að styðja við það öfluga starf sem á sér stað á vegum sérsambanda og íþróttanefnda ÍSÍ.

Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ, Örn Andrésson formaður Afrekssjóðs ÍSÍ, Friðrik Einarsson formaður Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afrekssviðs ÍSÍ og starfsmaður Afrekssjóða ÍSÍ kynntu úthlutun ÍSÍ.

Fréttin í heild sinni sem pdf.