Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28.05.2020 - 28.05.2020

Ársþing ÍS 2020

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja verður...
27

Badmintonfólk ársins 2012

28.12.2012

Badmintonkona og badmintonmaður ársins eru Ragna Ingólfsdóttir, TBR og Kári Gunnarsson, TBR og Københavns Badminton Klub.

Ragna er langfremsta badmintonkona landsins. Hún varð Íslandsmeistari í badminton í mars síðastliðnum í einliðaleik og varð með því fyrsti íslenski badmintonspilarinn til að hampa Íslandsmeistaratitli í einliðaleik níu sinnum en auk þess hefur hún orðið tíu sinnum Íslandsmeistari í tvíliðaleik og einu sinni í tvenndarleik.  Alls hefur hún unnið Íslandsmeistaratitil 20 sinnum.  Þá vann hún öll þau mót sem hún tók þátt í hérlendis á árinu.

Ragna hefur verið í A-landsliði Íslands í badminton um árabil og keppti með landsliðinu fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni kvennalandsliða í Svíþjóð í febrúar og í Evrópukeppni einstaklinga í Englandi í apríl.
Ragna tók þátt í einu til þremur alþjóðlegum mótum í mánuði undanfarin ár til að safna stigum á heimslistanum. Ragna hefur unnið til verðlauna á alþjóðlegum mótum en hún hefur meðal annars unnið Iceland International mótið fimm sinnum en mótið er innan mótaraðar Badminton Europe og gefur stig á heimslista.

Með góðri stöðu á heimslistanum vann hún sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í London í sumar í annað skipti en hún keppti einnig á Ólympíuleikunum í Kína árið 2008. Ragna var í kringum 70. sæti heimslistans allan fyrri hluta ársins og fram að Ólympíuleikum. Ragna komst hæst í 68. sæti heimslistans á árinu.

Ragna stóð sig frábærlega á Ólympíuleikunum í London í sumar. Keppt var í þriggja manna riðlum og Ragna mætti fyrst Akvile Stapusaityte frá Litháen. Ragna vann hana örugglega 21-10 og 21-16. Þá mætti hún Jie Yao frá Hollandi sem var raðað númer 4 inn á leikana en hún er upphaflega kínversk og er fjórða besta badmintonkona heims skv. heimslistanum. Ragna tapaði eftir hörkuspennandi aðra lotu sem endaði með naumum sigri Yao 21-12 og 25-23. Með sigri á Stapusaityte varð Ragna fyrsta íslenska konan til að vinna badmintonleik á Ólympíuleikum.

Eftir Ólympíuleikana í London lagði Ragna Ingólfsdóttir spaðann á hilluna eftir stórglæsilegan feril.

Kári er Íslandsmeistari í einliðaleik en Kári er búsettur í Danmörku og kom til landsins til að keppa á þessu eina móti á þessu ári.

Kári er í A-landsliðinu í badminton. Hann keppti með landsliðinu fyrir Íslands hönd á Evrópumóti karlalandsliða í Svíþjóð í febrúar og á Evrópumóti einstaklinga í Englandi í apríl. Hann hefur verið í unglingalandsliðum Íslands á undanförnum árum og spilaði fyrst með A-landsliðinu árið 2010.

Kári stóð sig best allra íslensku keppendanna í einliðaleik karla á Iceland International mótinu í nóvember síðastliðnum en mótið gefur stig á heimslista og er innan mótaraðar Badminton Europe. Þar komst hann í átta manna úrslit og vann meðal annars Jong Woo Yim frá Suður Kóreu sem flýgur hratt upp heimslistann þrátt fyrir að vera nýfarinn að taka þátt í alþjóðlegum mótum.