Sigur fyrir sjálfsmyndina
10.10.2025
Íþrótta- og kvikmyndagerðarmaðurinn Magnús Orri Arnarson frumsýndi nýverið heimildarmynd sína, Sigur fyrir sjálfsmyndina, í Bíó Paradís. Í myndinni fylgir Magnús Orri fimm íslenskum keppendum í undirbúningi og þátttöku á vetrarleikum Special Olympics sem fram fóru á Ítalíu í mars á þessu ári.
Magnús Orri, sem sjálfur keppti í fimleikum á Special Olympics árið 2019, er enginn nýgræðingur þegar kemur að dagskrárgerð en hann hefur undanfarin ár verið einn af þáttastjórnendum Með okkar augum sem sýnt er á RÚV. Þá hefur hann einnig verið öflugur í að koma íþróttum fatlaðra að í fréttatíma sjónvarpsins.
Á Special Olympics í mars unnu þeir Magnús Orri og Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarstjóri UMFÍ, saman við efnisöflun og mynduðu þeir svokallað „unified media“ teymi, hugmyndafræði sem byggir á samstarfi fatlaðra og ófatlaðra. Metnaðarfull efnisöflun þeirra félaga varð til þess að Bíó Paradís samþykkti að sýna heimildarmyndina og var frumsýningarkvöldið þann 30. september einstaklega vel heppnað.
Saga Magnúsar Orra sýnir hversu mikilvægt það er að gefa öllum tækifæri til að blómstra. Í umfjöllun á vef Íþróttasambands fatlaðra segir meðal annars:
„Magnús Orri er mikil fyrirmynd, sér björtu hliðarnar, lætur ekkert stoppa sig og hefur skýr markmið. Hann segist hafa verið þunglyndur, kvíðinn og félagslega einangraður áður en hann gegnum íþróttastarfið fékk tækifæri 2019 til að láta ljós sitt skína. Hann hefur mátt þola einelti, stríðni, áreiti og vanvirðingu og hefur talað af einlægni um þá upplifun og hvaða áhrif það hefur haft. Það hefur tekið á að vera með tourette, þar sem hljóðkækir eru stundum miklir og fólk hefur stundum brugðist illa við, jafnvel sagt honum að halda kjafti. Magnús er kominn með góðan skráp og í dag snýr hann sér oft að fólki og útskýrir að hann sé með tourette. Það sem upp úr stendur í þeim árangri sem Magnús hefur náð er að hann nýtir hvert tækifæri sem honum býðst til að vaxa og eflast og skref fyrir skref tekst hann á við stærri og stærri verkefni. Hann hefur sýnt hve mikilvægt það er að allir nýti þau tækifæri sem þeir fá og horft sé á styrkleika hvers og eins.“
ÍSÍ óskar Magnúsi Orra til hamingju með heimildarmyndina!
