Ólafur Þór heiðraður með gullmerki ÍSÍ á ársþingi ÍRB

Ársþing Íþróttabandalags Reykjaness (ÍRB) var haldið þann 27. maí í Íþróttakademíunni í Reykjanesbæ.
Rúnar V. Arnarson, formaður ÍRB setti þingið, og fóru formaður og gjaldkerar yfir ársskýrslur og reikninga, sem voru samþykktir samhljóða. Engar lagabreytingar lágu fyrir þinginu.
Rúnar er áfram formaður ÍRB og stjórnarmenn eru Hjördís Baldursdóttir og Sigurður Sigurðsson. Varamenn eru þeir Ólafur B. Bjarnason og Hámundur Örn Helgason.
Kári Mímisson, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ, flutti kveðju frá forseta ÍSÍ, Willum Þór Þórssyni, og sæmdi Ólaf Eyjólfsson gullmerki ÍSÍ.
Ólafur Þór Eyjólfsson hefur verið virkur þátttakandi í íþróttastarfi í Njarðvík í áratugi og gegnt lykilhlutverkum innan Ungmennafélags Njarðvíkur (UMFN). Ferill hans hófst árið 1989 þegar hann gekk til liðs við stjórn körfuknattleiksdeildarinnar og gegndi formennsku þar frá 1992 til 1996. Hann var einnig stofnandi unglingaráðs deildarinnar árið 1989, sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki í uppbyggingu unglingastarfsins. Árið 2011 tók Ólafur sæti í aðalstjórn UMFN og árið 2014 var hann kjörinn formaður félagsins. Hann hefur sinnt því hlutverki með miklum sóma þangað til hann steig stoltur frá borði á aðalfundi nú í apríl síðastliðnum. Fyrir sitt langa og óeigingjarna starf var Ólafur sæmdur gullmerki UMFN árið 2019, sem er veitt þeim sem hafa starfað eða keppt fyrir félagið í að minnsta kosti 20 ár. Hann fékk starfsmerki UMFÍ 2021 og gullmerki UMFÍ 2024 sem viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu félagsins. Með yfir 30 ára þátttöku í starfi félagsins hefur hann verið félaginu til mikils sóma.