Auður og Atli Már sæmd gullmerki ÍSÍ á ársþingi DSÍ

Ársþing Dansíþróttasambands Íslands (DSÍ) var haldið 28. maí og var þingið vel sótt.
Helga Björg Gísladóttir, formaður DSÍ, fór yfir skýrslu stjórnar en Helga Björg var jafnframt endurkjörinn formaður á þinginu. Tvö úr stjórn DSÍ gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, þau Þórunn Anna Ólafsdóttir og Árni Sigurgeirsson, en Atli Már Sigurðsson og Ólafur Már Hreinsson gáfu kost á sér áfram og hlutu endurkjör og skipa því stjórn DSÍ ásamt þeim Köru Arngrímsdóttur og Sigurði Hrannari Hjaltasyni. Nýir varamenn í stjórn eru þau Helga Dögg Helgadóttir og Hreggviður Símonarson.
Kári Mímisson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sat þingið og sæmdi, fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ, þau Atla Má Sigurðsson og Auði Haraldsdóttur gullmerki ÍSÍ fyrir sín þörf í þágu dansíþróttarinnar á Íslandi.
Atli Már Sigurðsson, varaformaður DSÍ, var sæmdur silfurmerki ÍSÍ árið 2016. Hann hefur lagt mikið af mörkum til starfsemi DSÍ allt frá upphafi sambandsins, setið í stjórnum sambandsins um langt árabil, í flestum embættum, þar á meðal formannsembættinu. Atli hefur verið virkur fulltrúi dansíþróttarinnar á þingum ÍSÍ og formannafundum og er alltaf til í að grípa boltann þegar honum er kastað í átt að honum. Hann stofnaði Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar ásamt konu sinni Auði Haraldsdóttur en Auður hefur rekið dansskóla í Hafnarfirði í um 30 ár. Auður hefur setið í mótanefnd DSÍ í mörg ár og skilað frábæru starfi. Hún hefur starfað í klæða- og sporaeftirliti á dansmótum DSÍ til margra ára. Auður hefur verið hvatamanneskja í kynningu á dansíþróttinni í gegnum árin. Hún er formaður Danskennarasambands Íslands ásamt því að hafa setið í stjórn Danskennarasambandsins í mörg ár. Hún er búin að halda Lottó Open dansíþróttamót í um 30 ár sem hefur styrkt dansíþróttina mikið.