Ársþing EOC 2025

Ársþing Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC) fór fram í Frankfurt í Þýskalandi dagana 28. febrúar til 1. mars síðastliðinn.
Lárus L. Blöndal forseti og Andri Stefánsson framkvæmdastjóri sóttu þingið ásamt Líneyju Rut Halldórsdóttur ráðgjafa sem situr í stjórn samtakanna. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu ÍSÍ þá var Líney Rut endurkjöin í stjórn EOC til næstu fjögurra ára. Fékk Líney Rut frábæra kosningu og var með næst flestu atkvæðin af þeim sem hlutu kjör í stjórnina að þessu sinni. Líney Rut hefur þá hafið þriðja og síðasta starfstímabil í stjórn EOC en samkvæmt lögum EOC þá er einungis hægt að sitja í stjórn samtakanna samtals í 12 ár.
Þingið sækja fulltrúar frá öllum ólympíunefnum í Evrópu ásamt háttsettra gesta frá IOC og Heimssambands Ólympíunefnda (ANOC).
Á þinginu voru 13. Piotr Nurowski verðlaunin afhent, undirritaður var samningur um gestgjafa fjórðu Evrópuleikanna, skýrslur fluttar af helstu verkefnum EOC og stjórnarkjör, svo eitthvað sé nefnt. Líney Rut flutti skýrslu varðandi nýliðna Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Georgíu sem og skýrslu um undirbúning næstu hátíða, sem formaður EOC EYOF Commission. Sumarólympíuhátið verður í Skopje í júlí næstkomandi og búið er að fastsetja hátíðir ársins 2027 sem hér segir: Vetrarólympíuhátið í Brasov í Rúmeníu og Sumarólympíuhátíð í Lignano Sabbiadoro á Ítalíu.
Spyros Capralos frá Grikklandi var endurkjörinn forseti samtakanna til næstu fjögurra ára, Daina Gudzinevičiūtė frá Litháen var endurkjörin varaforseti og Peter Mennel frá Austurríki sem gjaldkeri. Ítalinn Carlo Mornati var kosinn sem nýr framkvæmdastjóri EOC. Sex úr stjórn voru endurkjörin og sex kjörin ný inn og er hlutfall karla og kvenna í stjórninni hnífjafnt. Meðstjórnendur eru:
Mihai Covaliu (Rúmenía), Líney Rut Halldórsdóttir (Ísland), Danka Hrbekova (Slóvakía), Victoria Cabezas (Spánn), Annamarie Phelps (Bretland), Jean Michel Saive (Belgía), Franjo Bobinac (Slóvenía), Thomas Weikert (Þýskaland), Emma Terho (Finnland), Zlatko Matesa (Króatía), Jose Manuel Araujo (Portúgal), Anneke Van Zanen-Nieberg (Holland). Að auki eru þrír meðlimir skipaðir í stjórn, án kjörs: Alistair Brownlee (Bretland), formaður Íþróttamannanefndar EOC, Gunilla Lindberg (Svíþjóð), forseti Heimssambands Ólympíunefnda (ANOC) og Hasan Arat frá Ólympíunefnd Tyrklands vegna næstu Evrópuleika sem fara fram í Tyrklandi.