Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

11

Áttundi nóvember er tileinkaður baráttunni gegn einelti

11.11.2024

 

Á hverju ári er 8. nóvember haldinn hátíðlegur því sá dagur er tileinkaður baráttunni gegn einelti. Dagurinn hefur verið kallaður „Dagur gegn einelti” en markmið hans er að minna okkur á mikilvægi þess að sporna við og stoppa einelti þegar við verðum þess vör, en einnig að efna til umræðu, fræðslu og viðburða og hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu.

Á föstudagsmorgun bauð Heimili og skóli til athafnar í Tækniskólanum í Sjómannahúsinu og var aðaltilefnið afhending hvatningarverðlauna til þess einstaklings eða hóps sem þótti hafa borið af í baráttunni gegn einelti. Skólameistari Tækniskólans Hildur Ingvarsdóttir stýrði dagskrá, en ávörp fluttu Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Sigrún Garcia Thorarensen, formaður fagráðs eineltismála og Ali Mukhtar Ahmed nemandi á íslenskubraut Tækniskólans. Fjölmargar tilnefningar bárust en það var Freyja Rós Haraldsdóttir, kennari við Menntaskólann á Laugarvatni sem hlaut verðlaunin að þessu sinni. Henni var þakkað vel fyrir hennar framlag til baráttunnar gegn einelti.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) er aðili að þjóðarsáttmála gegn einelti þar sem allir eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að einelti fái ekki þrifist í samfélaginu. ÍSÍ hvetur alla, jafnt í íþróttahreyfingunni sem og annars staðar, til að vanda til verka og hjálpast að við að koma í veg fyrir eða stoppa einelti, verði þeir þess varir.

ÍSÍ bendir sambandsaðilum og íþrótta- og ungmennafélögum innan þeirra vébanda á samræmda viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf þar sem finna má greinargóðar upplýsingar varðandi málaflokkinn og þá ekki síst hvernig bregðast skal við tilkynningum er varða samskiptavanda eða einelti.

Þú getur nálgast viðbragðsáætlunina hér!

 

Myndir með frétt