Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Tímamót er Vésteinn Hafsteinsson hættir eftir farsæl 25 ár í þjálfun

06.03.2023

 

Eftir farsælan 25 ára þjálfaraferil hjá Vésteini Hafsteinssyni, nýráðnum Afreksstjóra ÍSÍ, kom loks að endalokum hans um helgina. Hans síðasta mót var Evrópumeistaramót, innanhúss í frjálsum íþróttum í Istanbúl í Tyrklandi en þangað fór hann ásamt kúluvörpurunum Marcus Thomsen frá Noregi og Fanny Roos frá Svíþjóð.  Bæði stóðu þau sig með miklum sóma.   
Marcus Thomsen hafnaði í 6. sæti, en markmið hans fyrir mót var að enda í hópi átta efstu. Fanny Roos, nældi sér í 3ja sætið þrátt fyrir að hafa ekki átt sinn besta dag en bronsverðlaunin krækti hún í með sínu síðasta kasti á mótinu. Frábær endir á frábærum þjálfaraferli Vésteins!

Að sögn Vésteins skilur hann sáttur við þjálfaraferilinn sinn en verðlaunapeningurinn sem Fanny Roos vann sér til um helgina var sú tuttugasta sem Vésteinn á hlut í sem þjálfari ef talin eru öll stórmót sem hann hefur farið á, þ.e. EM, HM og Ólympíuleikar. Hann hefur farið á 58 stórmót og þjálfað 57 einstaklinga frá 10 löndum. Hápunktar ferils hans voru þegar Gerd Kanter, kringlukastari frá Eistlandi, vann gullverðlaun á Ólympíuleikunum árið 2008, gullverðlaunin sem Daniel Ståhl, kringlukastari frá Svíþjóð vann á Ólympíuleikunum árið 2021 og silfurverðlaunin sem Simon Petterson, kringlukastari frá Svíþjóð, vann á sömu leikum.  

Nú taka við nýjir tímar þar sem Vésteinn mun byrja á kærkomnu fríi áður en hann tekur við starfi Afreksstjóra ÍSÍ í maí.  Miklar vonir eru bundnar við þá ráðningu og það er von allra að með kunnáttu og áratuga reynslu Vésteins verði hægt að stórefla íslenskt afreksíþróttastarf og koma því á heimsmælikvarða með góðri samvinnu á milli ÍSÍ, ráðuneytis og sérsambanda.

Meðfylgjandi myndir eru frá liðinni helgi og eru af Vésteini, Fanny Roos og Marcus Thomsen. 

Myndir með frétt