Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

13

Góður gangur í undirbúningi ÓL í París

04.10.2022

 

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ og Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri sóttu nýverið fundi skipulagsnefndar Ólympíuleikanna í París 2024, í höfuðstöðvum nefndarinnar. Farið var yfir stöðuna í öllum helstu þáttum undirbúningsins fyrir leikana, svo sem aðstöðu og aðbúnað í Ólympíuþorpinu, keppnisdagskrá, gistingu, samgöngur, þjónustu, mannvirki og margt fleira.

Undirbúningur fyrir leikana gengur vel en spurningar fulltrúa Ólympíunefndanna á fundinum snerust helst um samgöngumál, hita og loftgæði, keppnisstaði utan Parísar, gistirými og nýtt fyrirkomulag á miðasölu. Farið var í vettvangsferð í Ólympíuþorpið, sem verður blanda af nýbyggingum og húsnæði sem var þegar á staðum og skoðuð mannvirki á flestum keppnissvæðum leikanna. Hröð uppbygging er í þorpinu þessa dagana og var svæðið undirlagt af byggingarkrönum. Lögð er áhersla á að nýta sem mest mannvirki sem þegar eru til staðar, bæði sem keppnismannvirki sem og húsnæði fyrir þjónustuþætti í þorpinu, ásamt því að byggja tímabundin mannvirki sem verða tekin niður að loknum leikum og efnið endurnýtt. Mikil áhersla er lögð á sjálfbærni í öllum undirbúningi og framkvæmd leikanna.

Ljóst er að mikill hugur er í Frökkum að standa vel að leikunum þannig að upplifun allra verði sem ánægjulegust. Parísarborg hefur alla burði til að verða stórkostleg umgjörð fyrir leikana og brotið verður blað í sögu leikanna með því að færa setningarhátíðina í París niður að ánni Signu þar sem gert er ráð fyrir því að allt að 600 þúsund manns geti sótt viðburðinn. Líkt og á Ólympíuleikunum í London þá verður keppt í nokkrum íþróttagreinum í miðborginni, nálægt frægum kennileitum borgarinnar sem verða án efa stórkostleg umgjörð og aðdráttarafl fyrir viðburðina.

Myndir með frétt