Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
24

Fyrsti keppnisdagurinn góður á EYOF - íslenskur sigur í handknattleik

25.07.2022

 

Fyrsti keppnisdagur á EYOF 2022 fór fram í dag í miklum hita í Banská Bystrica í Slóvakíu.

Dagurinn byrjaði á í sundhöllinni þar sem sundstelpurnar kepptu í sínum fyrstu greinum. Nadja Djurovic keppti í 100m skriðsundi á tímanum 1:00,40 og varð í 33. sæti og einungis 0,41 sekúndu frá sínum besta tíma. Ylfa Lind Kristmannsdóttir keppti einnig í 100m skriðsundi og synti hún á 1:00,99 og varð í 36. sæti. Sunna Arnfinnsdóttir keppti í 200m baksundi og synti á 2:32,20 og varð í 32. sæti. Sundfólkið heldur áfram keppni í fyrramálið þegar þau taka þátt í blönduðu boðsundi.

Í badminton spilaði Máni Berg Ellertsson tvo spennandi leiki í dag. Fyrsti leikur var við Nicolae Enachi frá Andorra og annar leikurinn var við Arnaud Huberty frá Belgíu. Máni Berg þurfti að lúta í lægra haldi í fyrir báðum mótherjunum en hann spilar tvo leiki á morgun. Lilja Bu spilaði einnig tvo leiki í badminton í dag. Ravza Bodur frá Tyrklandi sigraði Lilju Bu fyrri leik Lilju en seinni partinn spilaði Lilja mjög vel gegn og  Hajar Nuriyeva frá Azerbaijan  og sigraði eftir mjög spennandi leik.

Í tennis hafði Alan Wazny frá Póllandi betur gegn Guðmundi Halldóri Ingvarssyni og hefur Guðmundur þar með  lokið keppni á leikunum.

Strákarnir í íslenska handknattleiksliðinu spiluðu mjög vel gegn Króötum og sigruðu þá með níu marka mun, 35:26. Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en staðan var 19-14 í hálfleik, Íslandi í vil. Strákarnir mættu jafn ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og um tíma náðu þeir 11 marka forystu. Leiknum lauk svo eins og fyrr sagði með níu marka sigri. Strákarnir mæta Dönum á morgun og Spánverjum á miðvikudaginn. 

Frjálsíþróttakeppnin byrjaði einnig í dag. Arnar Logi Brynjarsson keppti í 100m hlaupi og hljóp á 11,28 sekúndum í mótvindi, aðeins einum hundraðshluta úr sekúndu frá hans besta tíma. Hekla Magnúsdóttir keppti í langstökki og átti þrjú löng stökk sem því miður voru öll ógild. Hekla hefur nú lokið keppni á leikunum en Arnar Logi keppir aftur á fimmtudaginn þegar hann hleypur 200m.

Á morgun, þriðjudag, hefst keppni í hjólreiðum og fimleikum en strákarnir okkar í júdó byrja sína keppni á fimmtudaginn. Áhugasamir geta fylgst með beinu streymi frá leikunum hér og á heimasíðu leikanna er hægt að finna dagskrá keppninnar og fleiri upplýsingar.

Myndir með frétt