Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
22.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2026 - Dakar

Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram í...
10

„Mér fannst virkilega gaman að koma inn til ÍSÍ og fá að kynnast starfseminni sem þar fer fram”

13.05.2022

 

Tveir nemar úr íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík, þau Karólína Jack og Ketill Helgason, hafa verið í vettvangsnámi hjá ÍSÍ undanfarnar þrjár vikur. Þau unnu fjölbreytt verkefni og fengu kynningu á starfsemi ÍSÍ og sambandsaðilum ÍSÍ.  

Að verknáminu loknu horfðu þau Karólína og Ketill um öxl og höfðu þetta að segja um dvöl sína hjá ÍSÍ:

Ketill: Ég fann fyrir góðum starfsanda á vinnustaðnum og hversu samheldinn hópurinn er sem er að vinna hjá ÍSÍ. Starfsfólkið er alltaf til í að ræða málin og svara öllum spurningum sem ég hafði um starfsemina.

Karólína: „Mér fannst virkilega gaman að koma inn til ÍSÍ og fá að kynnast starfseminni sem þar fer fram. Það tóku allir virkilega vel á móti okkur og voru til í að miðla sinni reynslu til okkar og segja okkur í hverju sitt starf felst. Það er mikið af reynslumiklu fólki á skrifstofunni sem við vorum svo heppin að fá að læra af.”

Ketill: „Það kom mér á óvart að einungis 15 manns séu að vinna í svo mörgum, stórum verkefnum og sinna öllu því sem að ÍSÍ á að gera. Þetta er ekki nútímalegasta skrifstofuhúsnæðið og það er þröngt á þingi. Það kom mér líka á óvart hversu opin skrifstofan er í raun og veru, alltaf vel tekið á móti fólki sem leitar þangað. Það sem stendur upp úr hjá mér eftir þessar þrjár vikur er að ég er mun nær því að skilja hvernig ÍSÍ starfar, t.d. með íþróttahéruðum og sérsamböndum. Annað sem stendur upp úr og mér þykir áhugavert er að mikill munur er á hvernig sérsambönd og íþróttahéruð eru rekin og hvernig samstarfi þeirra við ÍSÍ er háttað. Ég mundi vilja kynnast þessari ólíku starfsemi betur.”

Karólína: „Það kom mér á óvart hve fáir starfa hjá ÍSÍ miðað við hve mikilvæg vinna fer hér fram. Starfsmenn ÍSÍ eru að sinna mjög mörgum verkefnum og þyrfti að mínu mati að fá inn fleira starfsfólk til að íþróttahreyfingin yrði ennþá öflugri. Það kom mér einnig á óvart hvað starfsfólkið er með fjölbreytta menntun. Eftir þessar þrjár vikur þá standa samskipti við starfsfólkið og aðra helst upp úr og mér fannst ég hreinlega læra mest á því að tala við fólk og spyrja spurninga. Svo fannst mér áberandi hvað starfsandinn á skrifstofunni er góður og hve velkomin mér fannst ég vera allan tímann.”

Starfsfólk ÍSÍ þakkar þeim Karólínu og Katli fyrir góð kynni, áhugasemi og flott starf í verknáminu og óskar þeim alls góðs í framtíðinni.