Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

11

Heiðranir á 100. ársþingi UDN

02.09.2021

100. ársþing Ungmennasambands Dalamanna og N-Breiðfirðinga (UDN) fór fram í Dalabúð í Búðardal 26. ágúst sl.

Á þinginu kynntu fulltrúar Dalabyggðar drög að byggingu íþróttahús og sundlaugar. Byggingin verður staðsett við Grunnskólann í Búðardal og við hlið Dalabúðar. Verkefnið er ennþá á hönnunarstigi.

Garðar Svansson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ og flutti þar stutt ávarp þar sem hann fór yfir stuðning ríkisins til íþróttahreyfingarinnar vegna afleiðinga COVID-19 faraldursins, fór yfir málefni sem tekin verða fyrir á framhaldsþingi ÍSÍ í október og minnti á þau almenningsíþróttaverkefni sem framundan eru á vegum ÍSÍ. Hann flutti einnig kveðjur frá forseta ÍSÍ, stjórn og starfsfólki. Garðar afhenti systrunum Margréti og Ingibjörgu Jóhannsdætrum Silfurmerki ÍSÍ, en Margrét var fjarverandi svo að Ingibjörg tók við merkinu fyrir hennar hönd. Heiðrúnu Söndru Grettisdóttir formanni UDN var afhent Gullmerki ÍSÍ fyrir góð störf í þágu íþrótta á starfssvæði UDN.

Í fundarhléi var boðið upp á kraftmikla súpu og að þingi loknu var boðið upp á afmælisköku í tilefni 100. ársþings UDN en sambandið sjálft er 103 ára í ár.

Myndir með frétt