Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
30

Sóknarfæri í þjóðarleikvangi fyrir inniíþróttir

24.09.2020

Starfshópur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir hefur skilað skýrslu um helstu valkosti er snúa að uppbyggingu slíks íþróttamannvirkis. Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði starfshópinn til þess að afla upplýsinga um kröfur sem gerðar eru til mannvirkja sem hýsa alþjóðlega leiki og mót auk þess að greina þarfir fyrir slíkt mannvirki hérlendis. Í starfshópinn voru skipaðir aðilar úr ráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) auk fulltrúa Handknattleikssambands Íslands og Körfuknattleikssambands Íslands.

„Við horfum til þess að efla mjög innviðafjárfestingar og nú hafa starfshópar skilað greiningu á ólíkum sviðsmyndum fyrir bæði inniíþróttir og knattspyrnu. Stór hluti undirbúningsvinnu er kominn vel á veg og mikilvægt að huga að næstu skrefum. Framundan er að tryggja fjármögnun og samvinnu við okkar helstu samstarfsaðila, ráðast í hönnun og grípa skófluna og byggja framtíðarleikvanga fyrir landslið Íslendinga, íþróttaunnendur og iðkendur á öllum aldri,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

  • Engin mannvirki á Íslandi uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til sérsambanda vegna alþjóðlegra keppna eða landsleikja í handknattleik og körfuknattleik. Til að uppfylla alþjóðlegar kröfur verður að byggja nýtt mannvirki.
  • Starfshópurinn var sammála um Laugardal sem fyrsta val fyrir staðsetningu Þjóðarleikvangs. Um staðsetningu innan Laugardals og aðra möguleika er fjallað í skýrslunni.
  • Mikilvægast að mati starfshópsins er að mannvirkið nýtist fyrst og fremst sem íþróttahús enda yrði það byggt sem þjóðarleikvangur. Ef horft er til möguleika á margþættri notkun hússins mun það auka tekjumöguleika við rekstur. Þá mun slíkt mannvirki vera hvatning til almennrar lýðheilsu og gefa öllum tækifæri til að stunda hreyfingu. Þá er horft til þess að mannvirkið geti hýst stóra tónleika eða aðra menningarviðburði.


„Á Íþróttaþingi ÍSÍ 2019 var kallað eftir því að leitað yrði lausna gagnvart þjóðarleikvöngum fyrir íþróttir á Íslandi. Með þeirri skýrslu sem starfshópurinn skilaði af sér er búið að greina þarfir innanhússíþrótta og koma með hugmyndir að lausn sem nýtist í tilfellum flestra íþróttagreina hvað varðar alþjóðlega keppni. Það er ánægjulegt að ráðherra setji kraft í að taka næstu skref í þessu ferli. Það er þó einnig nauðsynlegt að ná utan um aðrar íþróttagreinar sem geta gert tilkall til þjóðarleikvangs og hefur vinnuhópur á vegum ÍSÍ verið að störfum við að greina slíkt, “ segir Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ.

Starfshópurinn aflaði gagna frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) og þeim sérsamböndum sem mestra hagsmuna hafa að gæta við nýtingu þjóðarleikvangs. Skoðaðar voru alþjóðlegar kröfur sem eiga við um íþróttamannvirki í handknattleik og körfuknattleik og einnig skoðuð greining ÍSÍ og sérsambanda um æfingaþörf landsliða Íslands í öllum aldursflokkum helstu boltagreina auk fimleika. Verkís verkfræðistofa var fengin til þess að gera kostnaðarmat á byggingu mannvirkis ásamt því að leggja mat á rekstrarkostnað, þar sem mið var tekið af nýreistri íþróttahöll í Þrándheimi í Noregi sem tekur 8.600 manns í sæti.

Starfshópurinn mun starfa áfram og gera nákvæmari greiningu á rekstri og tekjumöguleikum fyrir þjóðarleikvang inniíþrótta.

Skýrsla starfshóps um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir