Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Niðurgreiðsla á innanlandsflugi fyrir íbúa á landsbyggðinni

09.09.2020

„ÍSÍ fagnar því að niðurgreiðslur á innanlandsflugi fyrir fólk af landsbyggðinni séu loksins í höfn. Ferðakostnaður íþróttahreyfingarinnar og kostnaður heimilanna á landsbyggðinni í tengslum við þátttöku í íþróttum er afar íþyngjandi og þetta er stórt skref í rétta átt til meiri jöfnuðar hvað þetta varðar. Þær niðurgreiðslur sem Loftbrú veitir, ásamt framlagi ríkisins í Ferðasjóð íþróttafélaga og afsláttarkjörum sem Air Iceland Connect býður íþróttahreyfingunni, er mikilvægur stuðningur við þátttöku landsbyggðarinnar í íþróttastarfinu. Það er einnig mikilvægt að tekið er tillit til námsfólks og barna sem eiga tvö heimili.“ sagði Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ í dag þegar fréttir um lægri innanlandsfargjöld til íbúa á landsbyggðinni bárust í hús.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti nýjungina Loftbrú flugstöðinni á Egilsstöðum í dag. Loftbrú veitir afsláttarkjör á innanlandsflugi til þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum. Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Svæðið er afmarkað með tilliti til póstnúmera. Alls ná afsláttarkjör Loftbrúar til rúmlega 60 þúsund íbúa á þessum svæðum. Markmiðið með verkefninu er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Afsláttarkjörin koma þeim til góða sem vilja nýta margvíslega þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini. Loftbrú er ætluð fólki í einkaerindum til höfuðborgarinnar en ekki fyrir ferðir í atvinnuskyni eða hefðbundnar vinnuferðir.

Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Fullur afsláttur er veittur hvort sem valið er afsláttarfargjald eða fullt fargjald. Hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að þrjár ferðir til og frá Reykjavík á ári (sex flugleggir). Út árið 2020 gilda afsláttarkjörin fyrir eina ferð til og frá Reykjavík (tveir flugleggir). Til að nýta Loftbrú auðkennir fólk sig á Ísland.is með rafrænum skilríkjum og þeir sem eiga rétt á Loftbrú fá yfirlit yfir réttindi sín. Þeir sem vilja nýta afsláttinn sækja sérstakan afsláttarkóða sem notaður er á bókunarsíðum flugfélaga þegar flug í áætlunarflugi er pantað.

Verkefnið er hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að efla innanlandsflug og byggja upp almenningssamgöngur um land allt. Verkefnið er hluti af samgönguáætlun 2020-2034 sem Alþingi samþykkti í júní 2020. Vegagerðin fer með umsjón og framkvæmd verkefnisins í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Kostnaður við greiðsluþátttöku ríkisins við lækkun flugfargjalda í verkefninu er metinn allt að 600 milljónum kr. á ársvísu og 200 milljónum kr. á þessu ári. Gert er ráð fyrir þeim fjárframlögum í samgönguáætlun sem samþykkt var í júní sl.

Stafrænt Ísland ber ábyrgð á uppbyggingu Ísland.is sem miðlægri þjónustugátt fyrir hið opinbera og er Loftbrú eitt þeirra verkefna. Veflausn Loftbrúar er tengd bókunarvélum flugfélaga sem bjóða upp á innanlandsflug en það eru Air Iceland Connect, Ernir og Norlandair.

Tveir hópar hafa sérstöðu og um þá gilda undantekningar frá reglunni um að eiga lögheimili á landsbyggðinni. Framhaldsskólanemar af landsbyggðinni sem stunda nám á höfuðborgarsvæðinu og hafa fært lögheimili sitt tímabundið þangað munu eiga rétt á Loftbrú. Börn sem eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en eiga foreldra eða forráðamenn sem hafa búsetu á landsbyggðinni munu einnig eiga rétt á Loftbrú. Unnið er að því að útfæra þjónustuna þannig að hægt verði að bóka lægri fargjöld fyrir þessa tvo hópa. Stefnt er að því að klára þá vinnu fyrir áramót.

Sérstök upplýsingasíða um Loftbrú hefur verið opnuð en auk íslensku er hún einnig á ensku og pólsku. Nánari upplýsingar um þetta þarfa verkefni er að finna á vef Loftbrúar.