Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Frestur rennur út í dag

19.06.2020

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) kallar eftir umsóknum frá íþrótta- og ungmennafélögum, íþróttahéruðum og sérsamböndum ÍSÍ sem hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna Covid-19. Er þar meðal annars verið að horfa til sérstakra viðburða, móta og keppnishalds sem ekki gat orðið vegna Covid-19. Fresturinn til að skila inn umsóknum vegna sértækra aðgerða rennur út í dag, föstudaginn 19. júní.

Umsóknir vegna sértækra aðgerða:

  • Þeir aðilar sem geta sótt um í sértækar aðgerðir eru sérsambönd, héraðs- og íþróttabandalög, íþróttafélög með aðild að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og deildir innan íþróttafélaga. Umsækjendur eru þeir sem orðið hafa fyrir tekjutapi vegna viðburða eða móta sem ákveðið hefur verið að fella niður eða breyta verulega vegna samkomubanns af völdum COVID-19 og hægt er að sýna fram á að hafi veruleg áhrif á rekstur og starf viðkomandi íþróttaeiningar.
  • Umsókn þarf að vera staðfest af meirihluta stjórnar viðkomandi einingar, þó aldrei færri en tveir aðilar. Þá þarf umsókn frá deild einstaka íþróttafélags að vera með samþykki aðalstjórnar félagsins.
  • Umsókn þarf að fylgja stutt greinagerð þar sem gerð er grein fyrir nettó tekjutapi vegna viðburðar. Nettótekjutap þýðir að einnig þarf að gera grein fyrir áætluðum kostnaði vegna viðburðar sem ekki kemur til greiðslu.
  • Leggja þarf fram samþykkta fjárhagsáætlun fyrir 2020 þar sem gerð er grein fyrir áætluðum hagnaði af viðburði.
  • Leggja þarf fram endurskoðaða ársreikninga og uppgjör viðburðar síðustu tveggja ára, sem sýna tekjur af sambærilegum eða samskonar viðburðum og sótt er um stuðning vegna tekjutaps.
  • Þá þarf að fylgja með umsókn staðfesting endurskoðanda/skoðunarmanni reikninga að upplýsingar umsóknar séu í samræmi við ársreikninga.
  • Gera þarf grein fyrir í umsókn hvaða áhrif tekjutap viðburðar hefur haft á umsækjanda og hvernig brugðist hefur verið við til að lágmarka tjón.
  • Gera þarf grein fyrir öðrum stuðningi sem sótt er um vegna stöðunnar s.s. frá aðalstjórn félags, sérsambandi, sveitarfélagi og ríkisvaldi.

Umsóknarfrestur er til og með 19. júní 2020 og skulu umsóknir sendast á netfangið umsokn_c19@isi.is 

Hér má finna svæðið „Umsóknarsvæði vegna Covid-19“ á vefsíðu ÍSÍ.