Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Mikilvægi sveitarfélaga á erfiðum tímum

04.04.2020

Forseti ÍSÍ hefur sent öllum sveitarfélögum á landinu bréf þar sem hann þakkar fyrir stuðning þeirra við íþróttahreyfinguna og hvetur þau til að eiga samtöl við íþrótta- og ungmennafélögin í landinu og fylgjast vel með því hvernig mál þróast. Mikilvægt er að íþróttahreyfingin verði í stakk búin til að hefja starf af fullum krafti um leið og yfirvöld leyfa.
Jafnframt voru þau sveitarfélög sem bjóða upp á frístundastyrki, sem nýta má til ástundunar íþrótta- og æskulýðsstarfs, hvött til að skoða vel hvort unnt sé að hækka, að minnsta kosti tímabundið, upphæð frístundastyrkja. Gera má ráð fyrir því að mörg heimili í landinu búi við skert tekjuflæði fyrstu mánuðina eftir að atvinnu- og frístundalífið kemst í eðlilegt horf og þá er viðbúið að frístundir verði ofarlega á listanum yfir það sem skera verður niður í rekstri heimilanna.

„Sveitarfélögin á Íslandi hafa á undanförnum áratugum verið bakhjarl íslenskra íþrótta- og ungmennafélaga. Þau hafa staðið sig gríðarlega vel í því hlutverki hvort sem horft er til uppbyggingar íþróttamannvirkja eða til þess að skapa fjárhagslega umgjörð um félögin. Nú liggur fyrir að mörg íþrótta- og ungmennafélög munu lenda í fjárhagsvanda að afloknu samkomubanni. Búast má við að töluvert erfiðara verði a.mk. fyrst um sinn að fá styrki til íþróttastarfsins frá fyrirtækjum landsins til að standa straum af rekstrarkostnaði auk þess sem viðbótarkostnaður kann að leggjast á þau m.a. vegna mögulegra framlenginga á íþróttastarfi vetrarins fram á sumarið. Mikil óvissa verður að minnsta kosti hjá mörgum félögum um framhaldið og finnum við mjög fyrir því að margir stjórnendur þeirra kvíða næstu mánuðum“, segir meðal annars í bréfi forsetans.

Í kjölfar útsendingar á bréfinu hafa nokkur sveitarfélög sett sig í samband við ÍSÍ og veitt upplýsingar um hvernig þau hafa þegar brugðist vel við þeim aðstæðum sem við íþróttahreyfingunni blasir. 

Bréfið má lesa í heild sinni með því að smella hér.