Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

UMSE fyrsta Fyrirmyndarhérað ÍSÍ

14.11.2017

Ungmennasamband Eyjafjarðar fékk í gær afhenta viðurkenninguna Fyrirmyndarhérað ÍSÍ, fyrst allra íþróttahéraða. Afhendingin fór fram í íþróttahúsi Hrafnagilsskóla í Eyjafirði að viðstöddum iðkendum, forsvarsmönnum sambandsins og aðildarfélaga þess, forsvarsmönnum frá viðkomandi sveitarfélögum og öðrum gestum. Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ afhenti Bjarnveigu Ingvadóttur formanni UMSE viðurkenninguna og fór yfir tilurð og sögu verkefnisins í stuttu máli. 
Á Íþróttaþingi árið 2015 var samþykkt tillaga um að setja á laggirnar gæðaviðurkenningu til íþróttahéraða, líkt og íþróttafélög og -deildir hafa getað sótt um í verkefninu Fyrirmyndarfélag/-deild ÍSÍ.

Til að hljóta viðurkenninguna Fyrirmyndarhérað ÍSÍ þarf að uppfylla ákveðnar kröfur til nokkurra aðalþátta í starfsemi íþróttahéraðsins. Þáttunum er skipt í fjóra yfirflokka sem eru; skipulag íþróttahéraðsins, starfsumhverfi, fjármálastjórn og samskipti við aðildarfélög. Á meðal undirþátta má nefna samninga við sveitarfélög í íþróttahéraðinu þar sem hlutverk hvors aðila um sig er skilgreint.

UMSE sýndi verkefninu strax mikinn áhuga, undir forystu Þorsteins Marinóssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra sambandsins. Í tengslum við verkefnið hefur UMSE útbúið handbók um starfsemi íþróttahéraðsins og er gert ráð fyrir að þeir sem koma að starfsemi héraðsins kynni sér efni handbókarinnar svo að allir rói í sömu átt. Umsókn UMSE var samþykkt af framkvæmdastjórn ÍSÍ 21. september síðastliðinn.
Viðurkenningin gildir til fjögurra ára í senn og þarf þá að sækja um endurnýjun hennar.

Meðfylgjandi mynd var tekin við afhendingu viðurkenningarinnar en á henni eru frá vinstri talið:  Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri skrifstofu ÍSÍ á Akureyri, Ásdís Sigurðardóttir nýráðinn framkvæmdastjóri UMSE, Bjarnveig Ingvadóttir formaður UMSE, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Þorsteinn Marinósson fráfarandi framkvæmdastjóri UMSE og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ.

ÍSÍ óskar Ungmennasambandi Eyjafjarðar innilega til hamingju með að vera komið með gæðastimpilinn Fyrirmyndarhérað ÍSÍ - fyrsta allra íþróttahéraða innan vébanda ÍSÍ.