Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.09.2024 - 12.09.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
10

Göngum í skólann í Vestmannaeyjum og Húsaskóla

26.09.2017

Verkefnið Göngum í skólann hófst 6. september og lýkur 4. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. 

Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Göngum í skólann hér
.

Skemmtilegt er frá því að segja að Grunnskóli Vestmannaeyja hóf sína þátttöku í Göngum í skólann formlega þann 7. september með því að vinabekkir innan skólans hittust og áttu góðan dag saman. Elstu nemendurnir í 8., 9. og 10. bekk hittu þá yngstu í 1., 2. og 3. bekk, hlustuðu á þá lesa og hjálpuðu þeim við námið. Í lokin fóru svo allir í frímínútur og léku sér saman.

Á Týsvellinum hittust svo 4., 5., 6. og 7. bekkur og fóru saman í hópeflisleiki. Í lokin fengu allir nemendur ávexti og skólastjórinn upplýsti nemendur hvað fælist í verkefninu og mikilvægi þess.

Áberandi þykir hversu mikinn mun má sjá á umferð í kringum skólann á morgnana sem og fjölda reiðhjóla fyrir utan skólann. Það má því með sanni segja að verkefnið fari vel af stað í Vestmannaeyjum og sé að ná sínu markmiði.

Húsaskóli tekur einnig virkan þátt í verkefninu. Í vikunni fór 3.bekkur í gönguferð í grenndarskóg til að gera náttúruathuganir í vísindalegum tilgangi. Nemendurnir undirbjuggu sig vel og gerðust svo rannsóknarmenn með því að grandskoða lífríkið í skóginum. Þeir höfðu fræðst um hin ýmsu tré, laufblöð og plöntur sem þau leituðu að í skóginum og rannsökuðu svo gaumgæfilega.

Verkefnið og göngutúrinn vísindalegi var bæði í tilefni af Göngum í skólann sem og degi íslenskrar náttúru sem var þann 16. september sl. Til að ná sem mestri og bestri hreyfingu út úr skógarferðinni þá skelltu nemendurnir sér í áskorun vikunnar sem var að planka í 45 sekúndur.

 

Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskautar og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.

Á síðasta ári tóku milljónir barna í yfir 40 löndum viðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi voru um 70 skólar skráðir til leiks á síðasta ári og hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt í gegnum árin, en fyrsta árið voru þátttökuskólar 26 talsins. 

Verkefnið er orðið að árlegum viðburði í mörgum skólum og býður upp á lærdómsríka og skemmtilega leið fyrir nemendur til að fræðast um umferðarreglur, öryggi og umhverfismál.

Að Göngum í skólann verkefninu standa eftirtaldir aðilar: Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Samgöngustofa, Embætti Landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Heimili og skóli og Slysavarnarfélagið Landsbjörg.

Myndir með frétt