Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Göngum í skólann í fullum gangi

14.09.2017

Skráning í Göngum í skólann 2017 gengur mjög vel og nú þegar er búið að jafna þann fjölda skóla sem skráðu sig til þátttöku í fyrra, en þá tóku 67 skólar þátt. Hægt verður að skrá grunnskóla til þátttöku fram að hinum alþjóðlega Göngum í skólann degi sem er 4. október nk.

Hér er hægt að skrá sinn skóla til þátttöku.

Fjölmargt hefur verið í gangi hjá skólunum, en hver skóli skipuleggur og framkvæmir Göngum í skólann með sínu nefi. 

Allir nemendur Rimaskóla komu saman á sal í tilefni af upphafi Göngum í skólann og Helgi Árnason skólastjóri ávarpaði nemendur og fræddi þau um mikilvægi hreyfingar, hollustu og heilbrigðis. Að því loknu fóru allir út og gengu hollustuhring umhverfis skólann með sínum umsjónarkennurum. Nemendur í 6. bekk gerðu gott betur með því að fara í fjallgöngu á Úlfarsfell. Þeir lögðu land undir fót í blíðskaparveðri og fóru fylktu liði með nesti og nýja skó og gleðin var mikil uppi á fellstoppi sem og á jafnsléttu. Flott framtak hjá Rimaskóla.

Dalskóli tók forskot á sæluna og hóf Göngum í skólann 2017 hjá sér þann 1. september með fjallgöngu á Úlfarsfellið. Veður var með ágætum og stemmningin meðal göngufólks enn betri. Ánægjan var mikil þegar tindinum var náð og sólskinsbros nemenda skinu í heiði. Verkefnið heldur áfram í Dalskóla fram til 4. október og skrá allir krakkar sinn ferðamáta fram að þeim tíma.

Vefsíða Göngum í skólann er gongumiskolann.is

Myndir með frétt