Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Ásta Kristjánsdóttir nýr formaður TSÍ

27.04.2016

Ársþing Tennissambands Íslands fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal miðvikudaginn 20. apríl síðastliðinn. Helgi Þór Jónasson, sem gegnt hefur embætti formanns síðastliðin 5 ár, gaf ekki kost á sér áfram og var Ásta Kristjánsdóttir kjörin nýr formaður sambandsins.  Með Ástu í stjórn voru kjörin Gunnar Finnbjörnsson, Bragi L. Hauksson, Raj Bonifacius og Berglind Rosatti. Í varastjórn voru kjörin Jónas Páll Björnsson, Carola M. Frank og Rut Ólafsdóttir.

Á þinginu var afreksstefna TSÍ samþykkt. Margir komu að vinnslu hennar og inniheldur hún skammtíma og langtíma markmið fyrir sambandið, afreksfólk og félög undir sambandinu. Stefnan veitir ramma og leiðsögn til athafna en gefur einnig skilaboð um aukið gegnsæi og jafnrétti í vinnu sambandsins. Afreksstefnan undirstrikar þörfina fyrir bætta aðstöðu til iðkunar á tennis á Íslandi og tóku þátttakendur þingsins undir mikilvægi þess. 

Hafsteinn Pálsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ var fulltrúi ÍSÍ á þinginu en hann var einnig þingforseti.  Helgi Þór, fráfarandi formaður sambandsins, var sæmdur Gullmerki ÍSÍ fyrir störf hans í þágu tennisíþróttarinnar.  Það var Hafsteinn Pálsson sem afhenti Helga Þór heiðursviðurkenninguna.