Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
13

Hagrænt gildi íþrótta og afreksíþróttir

27.11.2015Á haustmánuðum var birt áfangaskýrsla um umfang og hagrænt gildi íþrótta. Skýrslan var unnin af Þórólfi Þórlindssyni, Viðari Halldórssyni, Jónasi H. Hallgrímssyni, Daða Lárussyni og Drífu Pálín Geirs. Mennta- og menningarmálaráðuneyti hafði frumkvæði að því að farið var í að vinna þessa skýrslu.

Lengi hefur verið áformað að taka saman efnahagsleg áhrif íþrótta en verkefnið er afar viðamikið og alls ekki einfalt að ná utan um það. Skýrsluhöfundar taka skýrt fram að þessi skýrsla sé einungis áfangaskýrsla og forathugun á umfangi og hagrænu gildi íþrótta á Íslandi.

Sex meginþættir voru skoðaðir þ.e. hefðbundið íþróttastarf, íþróttaviðburðir, ferðamennska, heilsutengdir þættir, íþróttavörur, fjölmiðlar, atvinnusköpun og mann- og félagsauður. Í áfangaskýrslunni eru margar afar athyglisverðar niðurstöður er varða íþróttahreyfinguna og gildi hennar fyrir samfélagið og sýna að umfang hreyfingarinnar er mikið.

Fram kemur í niðurlagi skýrslunnar að gera má ráð fyrir að gildi íþróttastarfsins megi meta til margra milljarða króna og að gjaldeyristekjur nemi milljörðum árlega. Það má því með sanni segja að framlög ríkisins til íþrótta skili sér til samfélagsins og hver króna sem fer til íþróttastarfs sé fjárfesting til framtíðar.

Skýrslan sýnir einnig sóknarfæri og vaxtarmöguleika hreyfingarinnar og er ljóst að tækifærin eru mörg til að efla enn frekar íþróttastarfið í landinu og þar með hafa enn frekari áhrif á lýðheilsu Íslendinga, bæði líkamlega og andlega. Ábyrgð íþróttahreyfingarinnar er mikil og vanda þarf til verks í öllum einingum hennar til að góður árangur haldist og framþróun eigi sér stað. Vinna þarf að því að koma til móts við ólíka þætti starfsins og ólíkar kröfur iðkenda svo allir geti notið sín innan hreyfingarinnar. Faglegt starf er lykillinn að árangri, sem getur reynst snúið í hreyfingu sem er að mestu leyti mönnuð af sjálfboðaliðum. Ef horft er til útbreiðslu íþrótta, almenna þátttöku og árangur í íþróttum hér á landi er ljóst að sjálfboðaliðastarfið er einstaklega vel mannað á Íslandi og með sameiginlegu átaki höfum við náð eftirtektarverðum árangri.

Nauðsynlegt er að vinna enn frekar að úttekt á hagrænu gildi íþrótta fyrir íslenskt samfélag. Niðurstöðurnar styðja við starf okkar á mikilvægan hátt og staðfesta bæði stöðu mála og framtíðar sóknarfæri.

Önnur skýrsla sem vert er að vekja athygli á er skýrsla ÍSÍ um kostnað við afreksstarf á Íslandi. Skýrslan var gefin út í október 2015. Þar er kostnaður sem tilheyrir umhverfi íþróttamanna, sérsambanda, verkefna og liða greindur og gerður samanburður á ýmsum þáttum í afreksstarfinu við starfið í löndum í kringum okkur. Í þessari úttekt kemur fram að almennt séð er umgjörð íslenskra keppenda í engum takti við það sem aðrar þjóðir bjóða upp á. Miklu þarf við að bæta til að okkar afreksíþróttafólk geti stundað íþróttir á sömu forsendum og keppinautar þess. Það er von okkar að skýrsla þessi auki skilning ráðamanna á þeim aðstæðum sem íslenskt afreksfólk býr við og flýti úrbótum í þessum málaflokki.

Miðað við þann stórkostlega árangur sem afreksíþróttafólk okkar hefur náð þrátt fyrir þær aðstæður og aðbúnað sem það býr við, væri forvitnilegt að sjá hversu langt við gætum náð með sambærilegum stuðningi og nágrannaþjóðir okkar veita sínu fólki.