Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Vetrarólympíuleikar ungmenna í Lillehammer 2016

15.10.2015

Vetrarólympíuleikar ungmenna verða haldnir í annað sinn í febrúar 2016. Að þessu sinni fara leikarnir fram í Lillehammer í Noregi dagana 12.-21. febrúar. Keppendur frá 70 þátttökuþjóðum munu keppa í 15 vetraríþróttum þar sem veitt verða verðlaun í 70 greinum. Þátttakendur eru 15-18 ára, en það er mismunandi milli íþróttagreina hvaða aldursflokkar keppa. Alls verða um 1.100 keppendur á leikunum auk þess sem 3.000 sjálfboðaliðar munu aðstoða við framkvæmd leikanna. Fyrstu Vetrarólympíuleikar ungmenna voru haldnir í Innsbruck árið 2012 og því verður þetta í annað sinn sem þeir eru haldnir.

Norðmenn búa vel að þeim mannvirkjum sem byggð voru fyrir Vetrarólympíuleikana í Lillehammer 1994. Einnig hafa Norðmenn langa reynslu af mótahaldi í vetrargreinum. Að langstærstum hluta verða sömu mannvirki notuð og á leikunum 1994, hafa þau fengið yfirhalningu og nokkur mannvirki hafa bæst við síðan þá. Mikilvægasta viðbótin frá því á leikunum 1994 eru nýjar stúdentaíbúðir sem nýttar verða sem hluti af ólympíuþorpi þátttakenda á meðan á leikunum stendur.

Líkt og á fyrri Ólympíuleikum ungmenna er mikið lagt upp úr fræðslu og skemmtun til viðbótar við hefðbundna keppnisdagskrá. Meðal þess sem þátttakendur í Lillehammer fá fræðslu um eru gildi Ólympíuhreyfingarinnar, heilsa og heilbrigt líferni, félagsleg ábyrgð og tjáskipti á samfélagsmiðlum auk þess sem færi gefst á að reyna færni sína í ýmsum vetrargreinum.

Setningarhátíð leikanna fer fram í sama skíðastökksmannvirki í Lillehammer og leikarnir 94, 22 árum og tveimur tímum seinna. Mikið er lagt upp úr tónlist og að gefa ungu hæfileikafólki á því sviði kost á að koma fram í tengslum við leikana. Íslandi gefst kostur á að tilnefna ungan sendiherra sem aðstoðar þátttakendur utan keppni og kemur að framkvæmd félagslegra viðburða. Íris Berg Bryde tómstundafræðingur mun sinna hlutverki sendiherra meðan á leikunum stendur.

Ísland mun eiga fulltrúa í keppni í alpagreinum og skíðagöngu. Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur skipað Örvar Ólafsson starfsmann Afreks- og Ólympíusviðs fararstjóra á leikunum. Fyrir skemmstu fór fram fararstjórafundur þar sem mannvirki voru skoðuð og farið yfir ýmis atriði er lúta að þátttöku í viðburðinum, meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá fundinum.

Myndir með frétt