Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Ólympíudagurinn 23. júní

23.06.2015

Í dag 23. júní er Alþjóðlegi Ólympíudagurinn haldinn hátíðlegur um allan heim. Hann er haldinn í tilefni af stofnun Alþjóðaólympíunefndarinnar 23. júní árið 1894. Þá má segja að Ólympíuleikar til forna hafi verið endurvaktir og færðir til nútímans. Í tilefni af afmælisdeginum er fólk hvatt til þess að hreyfa sig og takast á við nýjar áskoranir.

Hér á Íslandi var haldið upp á Ólympíudaginn í tengslum við Smáþjóðaleikana. Rúmlega 1700 grunnskólabörn komu í Laugardalinn og stóð þeim til boða að horfa á keppni í sundi, borðtennis og skotíþróttum ásamt því að reyna sig í frjálsíþróttum, knattspyrnu, keilu, glímu og skylmingum. Einnig var boðið upp á fræðslu um Smáþjóðaleika og Ólympíudaginn.

Þátttakendur voru frá skólum í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og af Reykjanesinu. Skólar sendu þátttakendur frá allt að einum bekki upp í allan skólann. Þetta verkefni var framlag ÍSÍ til Ólympíudagsins og fengu allir þátttakendur viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna merkt Olympic Day.

Nálgast má myndir frá Ólympíudeginum á Íslandi 2015 hér.

Alþjóðaólympíunefndin stendur fyrir verðlaunaleik í tengslum við Ólympíudaginn. Í fyrsta vinning er ferð fyrir tvo á Ólymípuleikana í Ríó næsta sumar. Hægt er að nálgast allar upplýsingar um leikinn með því að smella hér.