Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Fjölmenni við útför Ólafs

05.07.2013

Útför Ólafs E. Rafnssonar fór fram frá Hallgrímskirkju í gær að viðstöddu fjölmenni.  Athöfnin var afar falleg og vel sótt.  Íþróttafólk frá sérsamböndum ÍSÍ, hvert og eitt í litskrúðugum íþróttafatnaði síns sambands, stóð heiðursvörð fyrir utan kirkjuna á meðan kistan var borin út.

Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, var viðstaddur athöfnina ásamt Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra,  Alexander Koslowski varaforseta EOC-Evrópusambands ólympíunefnda og Marc Theisen stjórnarmanni EOC en þeir voru jafnframt fulltrúar IOC-Alþjóðaólympíunefndarinnar, Yvan Mainini forseta Alþjóðakörfuknattleikssambandsins, Cyriel Coomans starfandi forseta FIBA Europe, Kamil Novak framkvæmdastjóra FIBA Europe og fleiri háttsettum leiðtogum innan íþrótta- og ólympíuhreyfingarinnar og alþjóða körfuknattleikshreyfingarinnar.  Að auki voru fjölmargir forystumenn sambandsaðila ÍSÍ, sambandsaðila KKÍ, stjórnvalda og hinna ýmsu félagasamtaka í landinu auk fjölskyldu og vina Ólafs.   

Erfidrykkjan fór fram í Íþróttamiðstöð Hauka að Ásvöllum í Hafnarfirði og var umgjörð hennar mjög glæsileg og Haukum til mikils sóma. Mikið var lagt í að heiðra sem best minningu Ólafs með myndum og skreytingum.

Frá andláti Ólafs hefur ÍSÍ borist gríðarlegur fjöldi samúðarskeyta, bréfa og símtala auk þess sem fjöldi einstaklinga og félagasamtaka hefur heiðrað minningu Ólafs með framlagi í Minningarsjóðinn sem stofnaður var í hans nafni.  Þakka ber öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg í aðdraganda útfararinnar og allan þann samhug sem fjölskylda og samstarfsfólk hefur svo sannarlega fundið síðustu vikurnar.  Það er gott veganesti okkar allra inn í framtíðina.

Á heimasíðu KKÍ má lesa stutt ummæli helstu leiðtoga FIBA og FIBA Europe um Ólaf eða með því að smella hér.

Ljósmyndin sem fylgir hér með er tekin af Kristínu Bogadóttur ljósmyndara.