Beint á efnisyfirlit síðunnar

Styrktarsjóði Íslandsbanka og ÍSÍ - fyrir ungt og efnilegt Íþróttafólk - er ætlað að styðja ungt íþróttafólk eða verkefni þeirra sem stuðla að eflingu íþróttafólksins á braut sinni í átt að hámarksárangri.

Stjórn sjóðsins er skipuð þremur einstaklingum sem tilnefndir eru af Íslandsbanka og ÍSÍ. Stjórnina skipa þær Helga H. Magnúsdóttir sem jafnframt er formaður stjórnarinnar, Elsa Nielsen og Kristín Rós Hákonardóttir. Sjóðsstjórnin heyrir undir framkvæmdastjórn ÍSÍ og gerir tillögur sínar um úthlutanir til hennar.

Við mat á umsóknum leggur sjóðsstjórn til grundvallar almennt viðmið íþróttahreyfingarinnar um stöðu íþróttamanna og flokka í afreksstarfi. Einnig eru möguleikar einstaklinga og flokka á að ná framförum í íþrótt sinni metnir. Ungt og efnilegt íþróttafólk í einstaklings og hópíþróttum sem viðurkenndar eru af ÍSÍ teljast styrkhæfar. 

 

 

Skipulagsskrá fyrir Styrktarsjóð Íslandsbanka og ÍSÍ - fyrir ungt og efnilegt íþróttafólk


1. grein - Nafn og heimilisfesti
Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður Íslandsbanka og ÍSÍ. Sjóðurinn er undir stjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, kt. 670169-0499, og er til heimilis í höfuðstöðvum íþróttahreyfingarinnar í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, 104 Reykjavík.

2. grein - Stofnfé og tekjur
Íslandsbanki kt. 491008-0160 leggur sjóðnum til árlega rekstrarfé tvær milljónir og fimmhundruð þúsund sem eru greidd út fyrir úthlutun úr sjóðnum ár hvert.

3. grein – Markmið og hlutverk
Sjóðnum er ætlað að styðja við verkefni sem stuðla að þróun hæfileika og eflingar afreksstarfs ungs íþróttafólks. Sjóðurinn mun þannig virka sem hvatning og stuðningur við ungt íþróttafólk úr einstaklings- og hópíþróttum, sem stefna að frekari framförum og árangri í íþrótt sinni. Sérstaklega skal horfa til verkefna sem miða að hæfileikamótun og eru líkleg til að efla ungt íþróttafólk á braut sinni í átt að hámarksárangri.

4. grein – Stjórn
Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur einstaklingum sem tilnefndir eru af Íslandsbanka og ÍSÍ. Sjóðsstjórnin er skipuð annað hvert ár, formaður sérstaklega. Sjóðsstjórnin heyrir undir framkvæmdastjórn ÍSÍ og skal gera tillögur sínar um úthlutanir til hennar.

5. grein – Grundvöllur styrkveitinga
Við mat á umsóknum, mun sjóðsstjórn leggja til grundvallar almennt viðmið íþróttahreyfingarinnar um stöðu íþróttafólks og flokka í afreksstarfi. Einnig verða möguleikar einstaklinga og flokka á að ná framförum í íþrótt sinni metið. Ungt afreksíþróttafólk og flokkar allra íþróttagreina sem viðurkenndar eru af ÍSÍ teljast styrkhæfar. Markmið sjóðsins er að styrkja verkefni ungs íþróttafólks, á aldrinum 15-20 ára, hvort heldur úr einstaklings- eða hópíþróttum, sem auka líkur til þess að þau nái því markmiði að verða framtíðarafreksfólk Íslands.

6. grein – Tilhögun styrkveitinga og umsóknir
Stefnt skal að því að veita styrki úr sjóðnum árlega að hausti. Umsóknir skulu berast sjóðsstjórn á þar til gerðum eyðublöðum, sem sjóðsstjórn lætur útbúa og eru aðgengileg á heimasíðu Íslandsbanka og ÍSÍ. Einstaklingar, íþróttafélög, héraðssambönd, íþróttabandalög og sérsambönd geta sótt um styrki úr sjóðnum. Sjóðsstjórn er þó heimilt að hafa frumkvæði að einstaka styrkveitingum. Umsóknir og önnur gögn skulu geymd í skjalasafni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Sjóðsstjórn ber að svara skriflega öllum umsóknum sem berast sjóðsstjórninni. Íslandsbanki hefur umsjón með formlegri afhendingu styrkja.

7. grein – Styrkir
Styrkir til umsækjenda eru fyrst og fremst til að standa undir kostnaði við þau verkefni sem nýtast munu ungu íþróttafólki á leið sinni að hámarks árangri, samkvæmt framlagðri áætlun. Skilgreindur kostnaður í umsóknum verður að tengjast viðkomandi verkefni, t.d. ferða- og þjálfarakostnaður, þátttaka í mótum og annar kostnaður tengdur uppbyggingastarfi umsækjenda. Greiðslufyrirkomulag styrkja er þannig að helmingur styrkupphæðar greiðist við styrkúthlutun til viðkomandi sambandsaðila eða íþróttafélags og helmingur við uppgjör til sjóðsstjórnar. Hafi uppgjör ekki borist ári frá úthlutun fellur seinni hluti greiðslu niður.

8. grein – Skyldur styrkþega
Í samræmi við gildandi reglur skulu allir þeir sem þiggja styrk úr Styrktarsjóði Íslandsbanka og ÍSÍ, hlíta þeim siða- og agareglum sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur auk reglna um lyfjanotkun og lyfjaeftirlit. Styrkhafar úr sjóðnum skulu gæta velsæmis í hvívetna enda miklar fyrirmyndir fyrir ungt afreksfólk. Styrkþegi úr sjóðnum samþykkir að koma fram í verkefnum á vegum Íslandsbanka og ÍSÍ er lúta að uppbyggilegu hvatningar- og ímyndarstarfi aðila. Styrkþegar skulu gæta þess í umfjöllun um verkefni styrkt af sjóðnum að taka fram að Styrktarsjóður Íslandsbanka og ÍSÍ hafi styrkt verkefnið.

9. grein – Endurskoðun reglugerðar
Reglugerð þessi skal endurskoðuð árlega og samþykkt af Íslandsbanka og ÍSÍ.

    Á döfinni

    26