Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

19

Fimleikafólk ársins 2012

28.12.2012

Fimleikakona og fimleikamaður ársins eru Íris Mist Magnúsdóttir og Róbert Kristmannsson, bæði úr Gerplu

Íris Mist hefur um árabil verið lykilmanneskja íslenskra fimleika og frammistaða hennar í landsliði Íslands í hópfimleikum verið til mikillar fyrirmyndar.  Íris Mist var einn af máttarstólpum landsliðsins sem varði Evrópumeistaratitil Íslands í kvennaflokki á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum, sem fór fram í Aarhus í Danmörku í október. Íris Mist er þekkt fyrir að framkvæma allar æfingar með mikilli einbeitingu, krafti og glæsileika en að auki að vera mikill styrkur fyrir sína liðsfélaga innan sem utan vallar.  Íris Mist hefur lengi verið ein besta fimleikakona Evrópu og hefur framkvæmt mörg af flóknustu stökkum sem sést hafa á Evrópumeistaramótum.  Íris Mist hefur unnið til fjölda titla í hópfimleikum á undanförnum árum, m.a. tvo Evrópumeistaratitla 2010 og 2012.  Hún hefur unnið alla titla sem í boði eru á Íslandi frá árinu 2005 með félagsliðinu sínu, Gerplu. Að auki er Íris Mist góð fyrirmynd yngri iðkenda, hvort sem er við þjálfun eða ástundun. 

Róbert hefur verið yfirburðarmaður í íslenskum áhaldafimleikum og burðarrás í landsliðshópi karla á undanförnum árum. Róbert keppti á flestum mótum ársins 2012 og varð Íslandsmeistari í fjölþraut karla ásamt því að sigra á öllum einstökum áhöldum og er því sjöfaldur Íslandsmeistari. Að auki hefur Róbert tekið þátt í fjölmörgun verkefnum með landsliðinu og staðið sig mjög vel. Róbert komst m.a. í úrslit á tveimur áhöldum, bogahesti og svifrá á Norðurlandameistaramóti fullorðinna sem haldið var í Greeve Danmörku í apríl, varð í 7. sæti í fjölþraut, 4. sæti á svifrá og 5. sæti á bogahesti. Róbert hefur verið óskoraður leiðtogi sinna liðsmanna og er mikil fyrirmynd ungra fimleikapilta.