Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Blakfólk ársins 2012

28.12.2012

Blakkona og blakmaður ársins eru Hjördís Eiríksdóttir, Stjörnunni í Garðabæ og Orri Þór Jónsson, HIK Aalborg í Danmörku.

Hjördís er uppalin í Stjörnunni og í vor var hún fyrirliði íslenska landsliðsins, aðeins tvítug að aldri. Hjördís átti gott tímabil í Mikasadeild kvenna síðasta vetur og endaði meðal stigahæstu leikmanna deildarinnar. Hún er fyrirliði Stjörnunnar í Garðabæ og hefur átt frábært keppnistímabil það sem af er og er meðal stigahæstu leikmanna Mikasadeildarinnar. Hún er burðarás í liði Stjörnunnar og sýnir agaðan leik á vellinum.

Hjördís var í A landsliði Íslands í undankeppni EM smáþjóða í vor en liðið rétt missti af sæti í úrslitunum þegar það lenti í þriðja sæti riðilsins sem leikinn var í Luxemborg. Í sumar lék hún í strandblaki með Steinunni Helgu Björgólfsdóttur og enduðu þær í fjórða sæti Íslandsmóts A liða eftir spennandi úrslitaleik.  Hjördís og Steinunn unnu til gullverðlauna í flokki U21 í strandblaki.

Orri fór til félagsins í sumar frá uppeldisfélagi sínu HK í Kópavogi en hann varð Íslandsmeistari með HK vorið 2012. Orri Þór var burðarás í A landsliði Íslands þegar liðið spilaði í undankeppni EM smáþjóða í maí 2012 á Möltu. Orri Þór hefur einnig náð frábærum árangri í strandblaki og í sumar endaði hann í 3. sæti Íslandsmótsins ásamt Róberti Karli Hlöðverssyni. Orri Þór er fyrirmyndarblakmaður og æfir nú af kappi tvisvar á dag með sínu liði í Danmörku en HIK Aalborg er um þessar mundir í 6. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Orri Þór er nálægt því að vera fastamaður í byrjunarliði félagsins og hefur spilað þó nokkuð það sem af er leiktíð.