Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Ásdís með gullverðlaun í kúluvarpi

26.11.2019

Afreksbúðir ÍSÍ fóru fram laugardaginn 23. nóvember sl. í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Alls voru rúmlega þrjátíu ungmenni frá 9 sérsamböndum sem tóku þátt. Frjálsíþróttakonan Ásdís Hjálmsdóttir, ein af fremstu íþróttamönnum Íslands síðastliðna tvo áratugi og þrefaldur Ólympíufari, var með erindi fyrir þátttakendur byggt á sinni reynslu úr íþróttaheiminum. Hún kom inná marga þætti sem þarf að sinna til að ná árangri og viðhalda heilsu. Ásdís er nú að deila sinni einstöku reynslu, því sem hún lærði á leiðinni og þeim aðferðum sem hún nýtti sér til að ná sínum árangri, í fyrirlestrum fyrir hina ýmsu hópa.

Við tækifærið fékk hún afhend gullverðlaun fyrir kúluvarp á Smáþjóðaleikunum í San Marínó 2017. Ásdís var með kast upp á 15,39 m. á leikunum. Kýpverjinn Gavriella Falla var með kast upp á 15,81 m. Falla féll hins vegar nýlega á lyfjaprófi fyrir að nýta sér ólögleg árangursbætandi lyf. Ásdís á því með réttu gullverðlaunin og silfurverðlaunin fara til keppenda sem fékk bronsverðlaunin. Það var Isabel Fehr forseti Ólympíunefndar Liechtenstein sem afhenti Ásdísi verðlaunin. Á myndinni má sjá Ásdísi með Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ og Isabel.

Frek­ari upp­lýs­ing­ar um viðfangs­efni Ásdís­ar má sjá hér á vefsíðunni henn­ar, Face­book og YouTu­be .

ÍSÍ óskar Ásdísi til hamingju með gullverðlaunin og velfarnaðar á nýjum vettvangi sem fyrirlesari.