Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Mikilvægt að virkja foreldra af erlendum uppruna

24.05.2019

ÍSÍ og UMFÍ stóðu í gær fyrir opnum fundi um það hvernig fjölga má börnum af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi, en síðastliðið haust kom út bæklingurinn Vertu með! á sex tungumálum. Í tengslum við útgáfu bæklingsins gátu sambandsaðilar sótt um styrki til að standa að verkefnum sem höfðu það að markmiði að fjölga börnum af erlendum uppruna í íþróttastarfi. Fimm aðilar fengu styrk en þau voru; Íþróttabandalag Akraness, Knattspyrnufélagið Valur, Taekwondo deild Keflavíkur, HSH og ÍBV.

Fyrst á dagskrá var Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Rannsóknum og greiningu og Íþróttasviði HR en hún kynnti niðurstöður rannsókna úr rannsókninni Ungt fólk, en þar kom fram að börn sem koma frá heimilum þar sem eingöngu er talað annað mál en íslenska eru helmingi ólíklegri til að stunda íþróttir með íþróttafélagi en þau börn sem koma frá heimilum þar sem íslenska er eingöngu töluð. Í rannsókninni kemur einnig fram að stúlkur eru mun ólíklegri til að stunda íþróttir en drengir.

Næstur á dagskrá var Juan Camilo ráðgjafi í æskulýðs- og fjölmenningafærni hjá Unglingasmiðju Reykjavíkurborgar en í máli hans kom fram að félagsleg staða margra barna af erlendum uppruna væri bágborin og það væri mikilvægt að virkja þau til þátttöku í sumum tilfellum til að rjúfa félagslega einangrun þeirra. Í máli hans kom fram að mikilvægt væri að ná samtali maður á mann og stundum þyrfti hreinlega að sækja þau til þess að þau taki þátt. Félagsleg staða foreldra væri oft slæm og sumir töluðu hvorki íslensku né ensku og því erfitt að ná til þeirra.  

Að síðustu kynntu tveir af fimm styrkþegum verkefni sín en það voru Hildur Karen Aðalsteinsdóttir ÍA og þær Þórey Guðný Marinósdóttir og Margrét Sigurvinsdóttir frá Taekwondodeild Keflavíkur.

Verkefni ÍA gekk í stuttu máli út á náið samstarf við grunnskólana í bænum, að fulltrúi bandalagsins væri til staðar á foreldradegi og öllum foreldrum barna í 3. og 4. bekk væri vísað til hennar að loknu foreldraviðtali, óháð uppruna, en þar kynnti hún fyrir nemendum og foreldrum þeirra hvaða íþróttagreinar væru í boði í bæjarfélaginu og hjálpaði þeim við að skrá sig. Niðurstaðan var fjölgun barna af erlendum uppruna en ekki síður fjölgaði þeim börnum sem æfðu fleiri en eina grein, sem bendir til þess að kynningin gagnaðist öllum óháð uppruna.

Þær Þórey Guðný og Margrét kynntu að lokum verkefni Taekwondodeildar Keflavíkur en styrkinn nýtti félagið til að þýða upplýsingabækling um íþróttagreinina á ensku og pólsku og útbúa fána frá þeim 17 þjóðlöndum sem iðkendur deildarinnar koma frá til að hengja upp í bardagahöllinni. Þá tóku þær fram að það væri mikilvægt að virkja foreldra barna af erlendum uppruna í foreldrastarfið. Í máli þeirra kom fram að hlutfall íbúa af erlendum uppruna er næstum fjórðungur af íbúum bæjarins og er svipað hlutfall iðkenda af erlendum uppruna í deildinni.

Fundurinn fór fram í E-sal Íþróttamiðstöðvarinnar og var vel sóttur.

Hér má nálgast bæklingana.