Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Grænir Smáþjóðaleikar

13.05.2019

Næstu Smáþjóðaleikar fara fram í Svartfjallalandi 27. maí til 1. júní 2019. Í dag eru tvær vikur til leika. Slagorð leikanna að þessu sinni er “Be fair by nature”, en Svartfjallaland er hluti af áætluninni „Grænir leikar“ sem styrkt er af Ólympíusamhjálpinni, þar sem markmiðið er að koma á fót sjálfbærum íþróttaviðburði. Áætlunin samanstendur af því að setja fram ákveðna umhverfisstaðla sem tengjast skipulagningu íþróttaviðburða ásamt menntun og kynningu á umhverfismálum. 

Svartfjallaland tók þátt í fyrsta sinn á Smáþjóðaleikunum árið 2011 og er nú í fyrsta sinn gestgjafi leikanna. Keppnisgreinar á leikunum eru frjálsíþróttir, sund, júdó, skotíþróttir, tennis, borðtennis, körfuknattleikur, bowls, blak og strandblak. Allir þátttakendur á leikunum munu gista á sama hótelinu í strandbænum Budva sem liggur að Adríahafinu. Íslendingar hafa verið afar sigursælir á Smáþjóðaleikum í gegnum tíðina og alla jafna er stór hópur fólks sem tekur þátt í leikunum fyrir Íslands hönd. 

Hér á vefsíðu ÍSÍ verður hægt að fylgjast með íslenska hópnum sem fer á Smáþjóðaleikana 2019.

Vefsíða leikanna.

 

Um Smáþjóðaleika 

Hugmyndina um íþróttakeppni smáþjóða Evrópu má rekja aftur til ársins 1981. Það var útbreidd skoðun að íþróttakeppni þar sem smáþjóðir öttu kappi saman gæti orðið til þess að efla anda og hugsjón ólympíuhreyfingarinnar og treysta jafnframt vináttubönd þjóðanna. Þátttökurétt eiga þjóðir með íbúatölu undir einni milljón. Þessar þjóðir eru: Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó, San Marínó og Svartfjallaland. Smáþjóðaleikarnir fara fram á tveggja ára fresti í einu af löndunum níu. Þeir voru fyrst haldnir í San Marínó árið 1985, en síðan hafa þeir verið haldnir í Mónakó (1987), Kýpur (1989), Andorra (1991), Möltu (1993), Lúxemborg (1995), Íslandi (1997), Liechtenstein (1999), San Marínó (2001), Möltu (2003), Andorra (2005), Mónakó (2007), Kýpur (2009), Liechtenstein (2011), Lúxemborg (2013), Íslandi (2015) og San Marínó (2017). Með leikunum í San Marínó árið 2017 hófst þriðja umferð leikanna.