Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Alþjóðlegi snjódagurinn 21. janúar

18.01.2018

Alþjóðlegi snjódagurinn, eða World Snow Day, verður haldinn í sjötta skipti sunnudaginn 21. janúar en viðburðurinn er dagur sem Alþjóðaskíðasambandið (FIS) hefur haldið hátíðlegan undanfarin fimm ár um allan heim og hefur Ísland tekið þátt frá upphafi. Tilgangur Alþjóðlega snjódagsins er að fá börn og fjölskyldur þeirra á skíðasvæðin um allt land til þess að njóta og upplifa það sem fjöllin hafa upp á að bjóða. Leitast er við að hvetja sérstaklega börn á aldrinum 4 til 14 ára og aðstandendur þeirra til að fagna þeim íþróttum sem snjórinn býður upp á. Alþjóðlegi snjódagurinn er einn stærsti dagurinn í skíðabrekkum um allan heim og er áætlað að halda hann hátíðlegan árlega.

Helsta hlutverk Alþjóðaskíðasambandsins er fyrst og fremst að skipuleggja ýmis mót en sambandið hefur jafnframt lagt mikið upp úr því að stuðla að eflingu og þróun skíða- og brettaiðkunar um allan heim. Sýn Alþjóðaskíðasambandsins er að skíði og bretti verði að fyrsta vali einstaklinga þegar kemur að vetraríþróttum sem og íþróttum almennt. Þau gildi eða lykilhugtök sem sambandið setur fram á Alþjóðlega snjódeginum eru athugun, skemmtun og reynsla. Með athugun er vísað til þess að dagurinn bjóði upp á tækifæri til að uppgötva eitthvað nýtt. Varla þarf að útksýra til hvers er vísað með skemmtuninni enda gefst krökkum og fjölskyldum þeirra frábært tækifæri til að skemmta sér í og á snjónum. Með reynslunni er vísað til þeirrar reynslu sem til verður í snjónum og um leið þeirra frábæru minninga og innblásturs sem skapast á Alþjóðlega snjódeginum.

Á síðasta ári tóku 46 lönd þátt í Alþjóðlega snjódeginum og haldnir voru tæplega 500 viðburðir þar sem yfir 320 þúsund manns tóku þátt. Í ár verður þátttakan vonandi enn betri og ættum við Íslendingar að leggja okkar að mörkum. Skíðasamband Íslands skorar á alla sem þetta lesa að halda upp á Alþjóðlega snjódaginn með því að fara á næsta skíðasvæði og njóta náttúrunnar með fjölskyldu og vinum.