Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Norræn yfirlýsing um lyfjaeftirlit og konur í leiðtogastörfum í íþróttahreyfingunni

28.10.2016

Norrænn fundur íþrótta- og ólympíusamtaka var haldinn í Helsinki dagana 23.-25. september sl. Fundinn sóttu af hálfu ÍSÍ Lárus L. Blöndal forseti, Gunnar Bragason gjaldkeri, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri, Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ. Á fundinum voru rædd ýmis sameiginleg hagsmunamál er varða íþróttahreyfinguna, svo sem íþróttir og glæpi, innflytjendur og flóttafólk, afreksmiðstöðvar, stórir íþróttaviðburðir og konur í leiðtogastörfum í íþróttahreyfingunni svo eitthvað sé nefnt. Farið var yfir helstu verkefni hvers sambands fyrir sig og lagðar fram skýrslur um starfsemi sambandanna. Þessir samráðsfundir eru afar mikilvægir og gefa gott tækifæri til að skiptast á upplýsingum um málefni sem eru efst á baugi hverju sinni.
Dr. Viðar Halldórsson félagsfræðingur hélt fyrirlestur á fundinum sem bar yfirskriftina „Against all odds: Iceland‘s success in sports“ og fjallaði um eftirtektarverðan árangur Íslands í hópíþróttagreinum.

Á fundinum var samþykkt sameiginleg yfirlýsing sem hljóðar svo:

„Við, norrænu íþróttasamtökin, samþykkjum að vinna saman gegn lyfjamisnotkun í íþróttum. Það er okkar meining að efla verði Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunina (WADA) með sameiginlegu átaki óháðu íþróttasamtakanna, Lyfjaeftirlitssamtaka hverrar þjóðar (NADOS) og stjórnvalda til að tryggja áhrifaríkt lyfjaeftirlit og við lýsum okkur tilbúin til að styðja það starf. Sjálfstætt og einnig með samvinnu munum við vinna að því að efla stöðu kvenna í leiðtogastörfum í íþróttum, bæði hérlendis sem erlendis.“

Framkvæmdastjórn ÍSÍ staðfesti ofangreinda yfirlýsingu á fundi sínum 13. október sl.